Ríkissaksóknari Bandaríkjanna og ríkisstjóri New York vara við því að hatursglæpir hafa aukist gríðarlega undanfarið ár, og hefur orðið sprenging síðan Donald Trump var kosinn forseti 8. nóvember síðastliðinn.
Bandaríska alríkislögreglan gaf fyrir stuttu út skýrslu um hatursglæpi fyrir árið 2015. Þar kom fram að aukning hefur orðið í glæpum sem beinast gegn múslimum í landinu, sem og ofbeldi sem beinist gegn fólki vegna kynþáttar, kynhneigðar og kynáttunar. Ríkissaksóknari Bandaríkjanna ávarpaði þjóðina í nýlegu ávarpi þar sem hún sagði að þessi aukning í hatursglæpum ætti að vekja landsmenn til alvarlegrar íhugunar.
Síðan Donald Trump var kosin forseti, þann 8. nóvember síðastliðinn, hefur hins vegar orðið algjör sprenging í tilkynningum á hatursglæpum. Ríkisstjóri New York ríkis, Andrew Cuomo, hefur nú heitið því að stofna sérstaka lögreglusveit sem á að taka á þessari aukningu, auk þess sem hann ætlar að stofnsetja sjóð svo einstaklingar sem telji Trump-stjórnina brjóta á sér geti leitað réttar síns. „Sérfræðingar munu rannsaka hvert einasta atvik og lögsækja þá sem brjóta af sér eins langt og bókstafur laganna nær,“ sagði ríkisstjórinn.
Atvik tengd kosningunum
Á fimm dögum í kjölfar kosninganna skráði Southern Poverty Law Center, samtök sem berjast gegn fordómum og fátækt, 437 tilfelli hatursglæpa. Á síðu samtakanna má finna nokkrar lýsingar þar sem árásum og ógnandi hegðun er lýst:
Múslimsk kona í Oregon fylki:
„Múslimsk kona sat í MAX lestinni til Beaverton einn eftirmiðdag þegar hópur af táningum umhringdi hana í horni vagnsins sem hún sat í og öskruðu framan í hana að hún væri hryðjuverkamaður, að nýji forsetinn okkar myndi flytja hana úr landi og að hún mætti ekki ganga með höfuðslæðu lengur. Þeir urðu sífellt árásagjarnari þar til ég og vinur minn fengum unglingana til þess að yfirgefa lestina. Þegar þau voru að fara reyndu þau að hrækja á konuna.“
Samkynhneigður maður í Norður-Karólínu:
„Ég og kærastinn minn vorum að rölta niður gangstéttina í Raleigh. Klukkan var 9:30 um kvöld og við leiddumst og vorum á leið á veitingastað til þess að fá okkur kvöldmat. Hvítur bíll keyrði fram hjá okkur og hvítur karlmaður sem var í aftursætinu hallaði sér út um gluggann og öskraði „Helvítis hommar!“ að okkur.“
Grunnskóli í Texas:
„13 ára hálf-Filippeysk dóttir mín var að bíða eftir strætó þegar drengur sem hún þekkti ekki gekk upp að henni. Hann spurði „Þú ert asískt, er það ekki? Þegar þeir sjá augun í þér þá verður þú flutt úr landi,“ sagði hann og gekk í burtu.“
Úr frétt frá Georgíu fylki:
„Kennari við Gwinnet County framhaldsskólann fann bréf sem hafði verið skilið eftir fyrir hana eftir tíma á föstudaginn þar sem henni var sagt að múslimskur höfuðklútur hennar „væri ekki leyfilegur lengur.“ Ennfremur stóð í bréfinu: „Afhverju bindur þú hann ekki utan um hálsinn á þér og hengir þig með honum...?“ Bréfið var undirritað „Ameríka!“
KKK styður Trump
Frægustu samtök kynþáttahatara í bandaríkjunum, Ku Klux Klan, eða KKK, studdu Donald Trump opinberlega í aðdraganda forsetakosninganna. Á forsíðu fréttaritsins „Krossfarinn“ [e. The Crusader] sem samtökin gefa út fjórum sinnum á ári var slagorði Trump, „Gerum Bandaríkin stórkostleg aftur,“ slegið upp í fyrirsögn og farið í ítarlegu máli ofan í það hvernig stefnumál Trumps og baráttumál KKK samræmdust, en á vefsíðu samtakanna segir að höfuðbaráttumál þeirra sé að stöðva útrýmingu hvíta kynstofnsins.
Í kjölfar kosninganna um veru Bretlands í Evrópusambandinu átti sér stað álíka þróun. Eftir þær varð mælanleg aukning í tíðni árása á minnihlutahópa, múslima og samkynhneigða. Þeir stjórnmálamenn sem börðust fyrir útgöngu breta voru ásakaðir um að ýta undir fordóma í baráttu sinni, og virðast þeir sem létu sannfærast af þeirra málstað líta svo á að með kosningunni hafi þeir fengið staðfestingu á skoðunum sínum.
„Hættið þessu.“
Svipuð þróun virðist vera að eiga sér stað í Bandaríkjunum. Trump hefur sætt ámæli fyrir að ýta undir fordóma, meðal annars gagnvart Mexíkóum og múslimum. Hann lagði meðal annars til algjört bann við því að múslimar mættu koma til landsins og lagði til að settur yrði á fót gagnagrunnur þar sem öllum múslimum væri gert að skrá sig, svo hægt væri að fylgjast náið með þeim, auk þess sem hann hefur lofað því að byggja vegg við landamæri Mexíkó, til þess að koma í veg fyrir að ólöglegir innflytjendur komist til landsins.
Í nýlegu viðtali við fréttaskýringarþáttinn 60 Minutes fordæmdi Trump hinsvegar árásir á minnihlutahópa í kjölfar kosninganna og ákallaði hann stuðningsmenn sýna að láta af hegðuninni: „Ef það hjálpar til, þá skal ég segja þetta, og ég segi það beint í myndavélarnar: Hættið þessu.“
Athugasemdir