Hæstiréttur Íslands hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í máli fimm ára gamals íslensks drengs sem norska barnaverndin vill fá í sína vörslu.
Stundin hefur fjallað ítarlega um málið undanfarna mánuði eða allt frá því amma drengsins, Helena Brynjólfsdóttir, flúði með hann hingað til lands í sumar. Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi á grundvelli Haag-samningsins en samkvæmt honum hvílir sú skylda á íslenskum yfirvöldum að ákveða að barni, sem hefur verið flutt til landsins með ólögmætum hætti, eða er haldið hér á landi á ólögmætan hátt, skuli skilað þegar í stað.
Dómurinn er áfall fyrir fjölskyldu drengsins en hún hefur barist fyrir því að fá lausn sinna mála hér á landi í stað þess að senda fimm ára gamalt barnið til Noregs þar sem hann þekkir ekki neinn og talar ekki norsku.
„Hvað á ég að gera?“ spurði Elva Christina, móðir Eyjólfs, í samtali við Stundina skömmu eftir að hún fékk símtal frá lögfræðingi sínum sem tjáði henni niðurstöðuna. Hún segir fjölskylduna fá að verja 25 dögum með Eyjólfi áður en hann verður tekinn með lögregluvaldi og fluttur nauðugur til Noregs þann 4. desember næstkomandi.
Dagur í lífi Eyjólfs
Blaðamaður eyddi degi með Eyjólfi sem vaknaði með bros á vör og fór að sofa með bros á vör.
Nú þurfa stjórnvöld að bregðast við
Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, hefur að undanförnu verið í sambandi við forsvarsmenn norsku barnaverndarinnar en líkt og Stundin greindi frá þá vildu talsmenn norsku barnaverndarinnar fyrst fá niðurstöðu í dóm Hæstaréttar áður en næstu skref yrðu stigin í málinu. Nú hefur dómur fallið og þetta gæti þýtt að norska barnaverndin fái Eyjólf í sína vörslu áður en íslensk barnaverndaryfirvöld geta samið um lausn málsins. Það þýðir að Eyjólfur verður fluttur til Noregs til þess eins að vera fluttur aftur til Íslands þar sem mál hans og fjölskyldu hans yrðu leyst í samvinnu við íslensk stjórnvöld.
„Þá verður slitið á öll tengsl
drengsins við fjölskyldumeðlimi“
Ef íslensk stjórnvöld ná ekki samkomulagi við norsku barnaverndina þá fær enginn nema móðir drengsins, Elva Christina, að hitta hann næstu þrettán árin. Heimsóknartíminn hennar yrði líka af afar skornum skammti. Tvær heimsóknir á ári og í tvo klukkutíma í senn undir ströngu eftirliti norsku barnaverndarinnar. Þá verður slitið á öll tengsl drengsins við fjölskyldumeðlimi, þar á meðal ömmu drengsins, Helenu, sem hefur alið hann upp nánast frá blautu barnsbeini.
Í nýjasta tölublaði Stundarinnar er rætt við Elvu Christinu sem segist óttast það mest að Eyjólfur verði tekinn af henni og hún fái ekki að sjá hann: „Að Eyjólfur eigi eftir að gleyma mér á þessum árum. Að hann verði misnotaður á fósturheimilinu í Noregi eins og tugir ef ekki hundruð barna hafa lent í þarna úti. Að ég geti ekkert gert til að hjálpa litla drengnum mínum þegar hann er í neyð eða ef það er brotið á honum. Að eyðileggja hann fyrir lífstíð því ég barðist við fíkniefnadjöfulinn og tapaði í fyrstu. Það óttast ég mest.“
Elskar að leika sér úti
Blaðamaður hitti Eyjólf þar sem hann býr ásamt ömmu sinni og mömmu í Álfheimum í Reykjavík. Eyjólfur er fjörugur, skýr og skemmtilegur fimm ára strákur sem virðist elska fjölskylduna sína. Þá á hann vini í leikskólanum og finnst afskaplega gaman að leika sér við frænkur sínar, þær Helenu og Siggu. Honum finnst gaman í fótbolta og að vera úti að leika sér. Úti að leika sér með vinum sínum frá leikskólanum. Leikskólanum sem hann gæti verið rifinn frá eftir tæpan mánuð.
„Af hverju ætti að refsa honum fyrir það sem ég hef gert? Ég hef tekið þeim afleiðingum og ég er tilbúin að taka út mína refsingu, hver sem hún er. Aldrei gæti ég samt lifað með því ef hann yrði tekinn frá mér og sendur í burtu. Aldrei. Ég veit ekki hvað ég geri ef ég missi hann,“ sagði Elva Christina og var auðsjáanlega mikið niður fyrir.
„Ekki taka hann frá mér. Geturðu beðið þau um það? Að taka hann ekki frá mér.“
Athugasemdir