Sagnfræðingurinn Guðni Th. Jóhannesson, sem mun tilkynna um mögulegt forsetaframboð sitt á uppstigningardag, gaf blóð í Blóðbankanum í dag.
Birt er mynd af blóðgjöfinni á Facebook. Þar kemur fram að Guðni er í sjaldgæfum blóðflokki, sem er sá eini sem hægt er að gefa ungbörnum þegar þau þurfa á blóðgjöf að halda.
Í færslu um blóðgjöfina segir Jórunn Frímannsdóttir, deildarstjóri Blóðbankans. „Guðni er í þeim sjaldgæfa blóðflokki AB mínus, en innan við hálft prósent landsmanna eru í þeim blóðflokki. AB mínus blóðvökvi er eini blóðvökvinn sem notaður er í ungabörn og því þarf hann alltaf að vera til.“
Hefur gefið blóð 46 sinnum
Samkvæmt frásögn Jórunnar hefur Guðni margsinnis gefið úr sér blóð.
„Guðni hefur komið reglulega í blóðskiljuvél í Blóðbankanum síðustu 2 árin, en í heildina hefur hann gefið 46 sinnum. Nú er stóra spurningin hvort forsetabíllinn muni renna reglulega upp að dyrum Blóðbankans næstu árin,“ skrifar Jórunn.
Guðni Th. hefur boðað til fundar í Salnum í Kópavogi næstkomandi fimmtudag, á uppstigningardag. Hann kveðst vera kominn að niðurstöðu um hvort hann muni bjóða sig fram til forseta eða ekki.
Nýtur stuðnings Pírata
Samkvæmt skoðanakönnun Frjálsrar verslunar, sem gerð var dagana 26. apríl til 1. maí, mælist Guðni með 39 prósenta stuðning, en sitjandi forseti, Ólafur Ragnar Grímsson 47,6 prósent. Andri Snær Magnason rithöfundur mælist með 13,4 prósent stuðning.
Stuðningsfólk ríkisstjórnarinnar er líklegra til að styðja Ólaf Ragnar en hina frambjóðendurna. 53 prósent stuðningsmanna Pírata styðja Guðna, en 72 prósent stuðningsmanna framsóknarflokks styðja Ólaf Ragnar.
Kosið verður laugardaginn 25. júní.
Athugasemdir