Karl Pétur Jónsson, aðstoðarmaður Þorsteins Víglundssonar, félagsmálaráðherra og þingmanns Viðreisnar, gegnir enn trúnaðarstörfum fyrir Seltjarnarnesbæ eftir að hafa verið kjörinn varabæjarfulltrúi fyrir Sjálfstæðisflokkinn árið 2014. Hann skráði sig úr Sjálfstæðisflokknum í aðdraganda síðustu þingkosninga og gekk til liðs við Viðreisn. Í dag er hann óháður varabæjarfulltrúi á Seltjarnarnesi en situr áfram í skólanefnd og jafnréttisnefnd bæjarins. „Meirihlutinn á Seltjarnarnesi sýndi mér með þessu traust, sem ég er einkar þakklátur fyrir enda er starfið í þessum nefndum einkar gefandi og skemmtilegt,“ segir Karl, aðspurður um málið, en Sjálfstæðisflokkurinn hélt meirihluta sínum á Seltjarnarnesi í síðustu bæjarstjórnarkosningum.
„Ég var kjörinn varabæjarfulltrúi fyrir Sjálfstæðisflokkinn vorið 2014, en gekk úr flokknum síðastliðið haust í aðdraganda kosninga og gekk til liðs við Viðreisn,“ segir Karl í svari við tölvupósti Stundarinnar. „Við þau tímamót bauðst ég til að gegna áfram skyldum mínum í skóla- og jafnréttisnefnd og var því boði tekið af hálfu leiðtoga meirihlutans í bæjarstjórn Seltjarnarness. Ég sit nú sem óháður varabæjarfulltrúi á Seltjarnarnesi og fulltrúi í þessum tveimur nefndum og mun gera það út kjörtímabilið.“ Hann segir árangur í skólamálum á Seltjarnarnesi góðan, skólinn sé í stöðugri framför og að honum standi samhentur hópur pólitískra fulltrúa, kennara, foreldra og barna. „Starf jafnréttisnefndar er einnig mikilvægt, en bærinn hefur nýlokið við jafnlaunaúttekt og endurskoðun á jafnréttisáætlun bæjarins.“
Athugasemdir