Stríðsástandið í Mið-Austurlöndum er ekki bundið við það svæði.
Dr. Magnús Þorkell Bernharðsson, prófessor í nútímasögu Mið-Austurlanda við Williams College í Bandaríkjunum, varar við því að áhrifin nái til Evrópu, í versta tilfelli í formi stríðsátaka.
Flóttamenn frá Mið-Austurlöndum eru rúmlega milljón manns og ef þetta heldur svona áfram kemur þetta fólk til með að finna sér griðland einhvers staðar og þá liggur Evrópa beinast við.
„Hvernig hófust heimsstyrjaldirnar? Þær tengdust ófriði á ákveðnum svæðum sem síðan breiddist út. Þetta gæti breiðst út með þessum hætti. Svo hafa stórveldi þarna ítök - Kína, Rússland, Bandaríkin og Bretland - og kannski færu þau að sinna hagsmunamálum sínum. Bandaríkjamenn hafa verið leiðandi í Mið-Austurlöndum frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar en áhrif Kínverja og Rússa á svæðinu eru að færast í aukana. Ekki er vitað hvað geti gerst ef þessar þjóðir vilja koma í veg fyrir frekari áhrif Bandaríkjamanna á svæðinu. Rússar eru t.d. með herstöð í Sýrlandi og gætu gripið til aðgerða.
Þetta hefur ekki lengur bara með borgarastyrjöldina í Sýrlandi að gera. Þetta er það sem ég hef áhyggjur af.“
Athugasemdir