Í gær - meðan við hér á Íslandi vorum sitthvað að sýsla, hver í sínu, flestir höfðu það vonandi sem notalegast - þá hófu Daesh-samtökin sókn í borginni Deir Ezzor í Sýrlandi.
Áður en borgararastríðið í Sýrlandi hófst bjuggu rétt rúmlega 200 þúsund manns í Deir Ezzor, borgin stendur á bökkum árinnar Efrat sem liggur eins og hlykkjótt blátt strik um skraufþurra eyðimörkina á þessum slóðum og kringum fljótið grænir árbakkarnir. Þarna voru menn líka sitthvað að sýsla og hver í sínu eftir bestu getu.
Núna þegar stríðið hefur staðið í bráðum fimm ár er engin leið að segja hve margir hafast enn við í Deir Ezzor, það hefur verið barist margoft í borginni, enda stendur hún nálægt þeim héruðum þar sem helst er olíuvinnsla í Sýrlandi.
Undanfarið hafa hersveitir hins grimma einræðisherra Assads og hryllingssveitir Daesh hafst við hvor í sínum hluta borgarinnar.
Og í gær, þá hóf sem sagt Daesh sókn.
Þeir sóttu fram, þessir furðulega villimannlegu vígamenn, þeir hristust um sundursprengdar göturnar á pallbílum sínum með þungu vélbyssurnar, þeir skutust fyrir horn með sprengjuvörpur sínar, þeir sendu af stað sjálfsvígssprengjumennina og þeir ollu hræðilegu uppnámi.
Stór hópur óbreyttra borgara króaðist af inni á svæði sem þetta svokallaða „íslamska ríki“ náði að minnsta kosti um stund.
Þá gengu morðingjarnir fram.
Tugum ef ekki hundruðum óbreyttra borgara í Deir Ezzor var slátrað. Fólkinu var stillt upp, svo var það skotið. Karlar sem höfðu ekki tekið neinn þátt í bardögum, þeir voru drepnir, konur þeirra voru líka skotnar, gamalmenni sem gátu ekki gert neinum mein, þau voru drepin - og börnin.
Börnin voru líka skotin eins og hundar í Deir Ezzor.
Tölum ber ekki ennþá saman um hve margir týndu lífi í Deir Ezzor í gær. Sumir segja 65, aðrir meira en 300. Og talið er að mörg hundruð manns séu enn á valdi Daesh og hafi jafnvel verið flutt á brott.
Jafnvel í borgarastríðinu í Sýrlandi var þetta óvenju slæmur dagur, en þetta er samt bara hversdagslegur veruleiki. Í Raqqa, sem er 140 kílómetrum í norðvestri, þar voru fullkomnustu herþotur Vesturlanda og Rússa að varpa sprengjum. Einnig þar falla óbreyttir borgarar.
Og svo vogum við okkur að nöldra og kvarta þegar venjulegt fólk leitar á náðir okkar í von um að sleppa undan þessum hryllingi. Við vogum okkur að skella í lás af því einhvers staðar í fjölmennum hópi flóttamanna kunni að leynast svartir sauðir. Og við vogum okkur að hirða af þessu fólki næstum aleiguna þegar það kemur að landamærum okkar og biður um hjálp, biður um líf.
Já, ég vona sannarlega að við höfum haft það notalegt þennan laugardag.
Athugasemdir