Jón Bjarnason, formaður Heimssýnar, sem berst gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu, hélt því fram í fréttum Ríkisútvarpsins um helgina að misskipting auðs væri „hvergi meiri en í Evrópusambandinu“. Fullyrðingin stenst ekki skoðun, þar sem opinberar tölur sýna að ójöfnuður er einna minnstur í heimi í ríkjum Evrópusambandsins.
Jón segist í samtali við Stundina vísa til fyrirlesturs hagfræðiprófessors frá Háskólanum í Texas.
Meiri ójöfnuður í 114 ríkjum
Evrópusambandið svaraði Jóni með Facebook-færslu á síðu sambandsins á Íslandi: „Fullyrt var í hádegisfréttum RÚV eitthvað á þá leið að hvergi í heimi væri meiri ójöfnuður en í Evrópusambandinu. Samkvæmt Wikipedia (CIA-Gini stuðull) er meiri ójöfnuður í 114 löndum heims. Ójöfnuður í ESB mun heilt yfir vera 2,6 prósentustigum meiri en á Íslandi. Raunar mælist meiri ójöfnuður á Íslandi en í 13 ESB ríkjum.“
„Það er hvergi meiri misskipting auðs heldur en í Evrópusambandinu“
Jón hafði fullyrt að meginmarkmið ESB hefði mistekist vegna ójöfnuðar. „Evrópusambandið er að liðast í sundur. Meginmarkmið þess var jöfnuður þegnanna. Það er hvergi meiri misskipting auðs heldur en í Evrópusambandinu og það er alveg klárt að Evrópusambandið sem slíkt eins og það er núna, hlýtur að liðast í sundur og endurskipuleggja sig.“
Óhefðbundin ójafnaðartölfræði
Opinberar tölur um ójöfnuð ríkja heimsins snúa almennt að ójöfnuði innan hvers ríkis fyrir sig, þar sem staða borgara viðkomandi ríkis er borin saman með svokölluðum Gini-stuðli sem sýnir hlutfallslegan mismun á tekjum. Jón segist hins vegar í samtali við Stundina vísa til annars sjónarhóls.
Þegar Jón talar um að misskipting í Evrópusambandinu sé meiri en nokkurs staðar í heiminum vísar hann til stöðu íbúa í fátækustu löndum ESB gagnvart ríkustu löndunum, og horfir þannig á Evrópusambandið sem eitt ríki en ekki mörg. „Við getum nærri því heimfært þetta yfir á Ísland, að Suðureyri og Súðavík finnst Reykjavík taka allt of mikið til sín.“
Ójöfnuður milli ríkja sé þannig meiri í Evrópusambandinu en á milli ríkja í Bandaríkjunum.
Ekki hvergi meiri - heldur aukinn
Heimild Jóns er fyrirlestur háskólaprófessorsins James Galbraith, við Háskólann í Texas, á hádegisfundi á vegum hagfræðideildar Háskóla Íslands og Samtaka sparifjáreigenda 14. júní síðastliðinn. Lesa má um fyrirlesturinn hér.
„Hann fjallaði um þennan mikla ójöfnuð. Hann er að tala um þennan ójöfnuð á milli ríkjanna. Þetta kom nú illa við ESB-sinnana hérna og ég held að þeir hafi séð eftir því að hafa boðið honum heim,“ útskýrir Jón.
Jón dregur hins vegar í land með fullyrðingu sína um að í ESB sé mestur ójöfnuður. Hann segir að fimm mínútna viðtal Rúv við hann hafi verið klippt niður í 30 sekúndur og því skorti samhengið. „Ég man ekki hvort ég hafi sagt að það væri hvergi meiri, ég man það nú ekki, heldur bara að hann hafi vaxið mjög mikið.“
Athugasemdir