Stefnt er að því að fækka háskólanemum samkvæmt fjármálaáætlun ríkisins til næstu fimm ára. Þetta viðurkenndi Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra í svari við fyrirspurn Katrínar Jakobsdóttur, þingmannisVinstri grænna, á Alþingi í dag. Spurði Katrín hvort fjárframlög á hvern nemanda á háskólastigi yrðu aukin með fækkun nemenda. Benedikt svaraði því til að í áætluninni væri gert ráð fyrir einhverri fækkun háskólanema en „það væru í sjálfu sér engin óheilbrigð fækkun nemenda eða niðurskurður sem þessi fjármálaáætlun gerir ráð fyrir“.
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, hefur gagnrýnt harðlega fjármálaáætlun ríkisins til næstu fimm ára og bent á að ef fylgja eigi áætluninni verði ekki hægt að ná fram aukningu í framlögum á hvern ársnema nema með verulegri fækkun.
Benedikt svaraði fyrir fjármálaáætlunina, sem var kynnt á föstudaginn, á Alþingi í dag: „Það er alveg sama hvað það er sagt oft. Viðbót er ekki niðurskurður. Þannig er það nú bara,“ sagði hann þegar bent var á að aukning fjárframlaga til sjúkrahúsþjónustu héldi ekki í við áætlaða fjölgun sjúklinga.
Þegar rætt var um háskólastigið sagði Benedikt að lengi mætti gott bæta. „Það er hægt að gera það með tvennum hætti, annars vegar er hægt að bæta í framlögin og hins vegar er hægt að skipuleggja námið með öðrum hætti,“ sagði hann. „Hvort tveggja verður auðvitað gert. Það er það sem þeir sem reka háskólann hverju sinni eru sífellt að velta fyrir sér, hvernig veita þeir sem besta og markvissasta menntun fyrir þau framlög sem ríkið úthlutar á hverjum tíma.“
Helmingi lægri fjárframlög á Íslandi
Katrín tók undir gagnrýni Jóns Atla á þinginu í umræðum um fjármálaáætlunina á þingi í dag. „Þessari áherslu hafa rektorar í landinu og háskólafólk áður mótmælt. Að ætlunin sé að fækka þeim sem stunda háskólanám fremur en að byggja hér upp öflugt háskólanám og auka framlögin sem eru, ef við skoðum þau á hvern nemenda, helmingi lægri hér en á Norðurlöndunum og umtalsvert lægri en að meðaltali í OECD.“
Katrín benti einnig á að Vísinda- og tækniráð hefði samþykkt stefnumótun um að ná meðaltali OECD-ríkjanna varðandi fjárframlög á hvern nemanda fyrir árið 2020. „Það er algjörlega fjarri því í þessari áætlun. Í ljósi þess að Vísinda- og tækniráð er nú fyrst og fremst skipað ráðherrum ríkisstjórnarinnar hverju sinni þá skilur maður hreinlega ekki hvernig er hægt að samþykkja slíka stefnumótun en leggja svo fram þessa áætlun,“ sagði hún.
Þetta er eitt af þeim atriðum sem Jón Atli gagnrýndi þegar hann lýsti yfir vonbrigðum með fjármálaáætlunina sem hann telur að samræmist ekki því markmiði að ná meðaltali OECD-ríkjanna á kjörtímabilinu.
Samkvæmt fjármálaáætluninni munu framlög ríkisins til háskólastigsins hækka úr tæpum 41,6 milljörðum króna á árinu 2017 upp í ríflega 44 milljarða króna á fimm árum. Þar meðtalinn er kostnaður vegna byggingarframkvæmda við Hús íslenskra fræða á árunum 2017 til 2021. „Miðað við þessa áætlun og óbreyttan nemendafjölda á háskólastiginu munum við seint ná OECD meðaltalinu – sem ætti að jafnaði ekki að vera mjög metnaðarfullt markmið – og hvað þá Norðurlandameðaltalinu. Eina leiðin til að ná þessum meðaltölum miðað við áætlunina væri mjög mikil fækkun nemenda á háskólastiginu á Íslandi,“ sagði Jón Atli.
Sagði minni eftirspurn eftir háskólanámi
Katrín beindi þeirri spurningu að Benedikt hvort honum þætti þetta viðunandi framtíðarsýn: „Fækkum nemendum á háskólanámi og færum framlögin þannig upp. Telur hann virkilega að þetta sé til raunverulegrar eflingar háskólastigsins?“
Benedikt svaraði því til að framlög til háskólanna væru að hækka, en eins væri hægt að skipuleggja námið með öðrum hætti. „Þeir sem reka háskólann hverju sinni eru sífellt að velta fyrir sér hverju sinni hvernig þeir veita besta og markvissustu menntun fyrir þau framlög sem ríkið úthlutar á hverjum tíma.“
Í kjölfar hrunsins hafi nemendum fjölgað mikið í háskólunum þar sem atvinnuleysi jókst og fólk vildi nýta tímann til að bæta þekkingu sína og stöðu á vinnumarkaði. „Ég tel að það hafi verið góð og vinsamleg stefna. Nú eru aðrar aðstæður og meiri atvinna og má búast við því að það sé minni eftirspurn hlutfallslega eftir háskólanámi,“ sagði Benedikt, sem síðan staðfesti að fjármálaáætlunin geri ráð fyrir fækkun nemenda á háskólastigi. „Það sem við erum að gera, við erum að bæta við framlögum per nemenda og það er í sjálfum sér engin óheilbrigð fækkun nemenda eða niðurskurður sem þessi fjármálaáætlun gerir ráð fyrir.“
Athugasemdir