Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, vakti athygli á því að konur sýndu umræðum um verklag við opinber fjármál áhuga í umræðum á Alþingi í gær. „Mér finnst áhugavert hverjir það eru sem sýna mestan áhuga á þessum umræðum. Það erum við Njáll Trausti og hinar hagsýnu húsmæður sem eru í stórum hópum hér inni. Það er þannig að það skiptir afar miklu máli að tala um þetta,“ sagði Benedikt í sérstökum umræðum sem Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingkona Vinstri grænna, átti frumkvæði að.
Uppfært 7. febrúar kl. 18: Benedikt hefur beðist afsökunar á ummælum sínum. Hann skrifar á Facebook: „Í ræðustól Alþingis vísaði ég til þingkvenna sem hagsýnna húsmæðra. Það var tilraun til þess að gefa hnyttið andsvar við fyrri ræðu, en hún heppnaðist afleitlega. Um leið og ég heyrði mig segja þetta hugsaði ég: „Þú ert nú ekki alltaf jafn orðheppinn Benedikt.“ Þetta voru kjánaleg ummæli og ég biðst afsökunar á þeim.“
Í upphafsræðu sinni velti Bjarkey fyrir sér hvort framsetningin á fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar væri til þess fallin að skapa faglega umræðu um málið á þinginu. „Megináherslan í fjármálastefnunni er heildarafkoma og skuldir, en helstu lykiltölur eru ekki birtar, t.d. hver landsframleiðslan verður í milljörðum króna. Sú tala er ekki gefin upp í spá Hagstofunnar og öll framsetning byggir á hlutföllum en ekki jafnframt á tölum,“ sagði hún og bætti við: „Þar sem fjármálastefna er bæði ætluð sérfræðingum og almennum borgurum spyr ég fjármálaráðherra hvort hann telji ekki æskilegt að stefnan verði sett upp samkvæmt báðum aðferðum, bæði út frá gagnsæi og út frá því að auðvelda ólíkum hópum að meta stefnuna.“
Í svari sínu sagði Benedikt að samanburður fjármálastefnu við rauntölur yrði sýndur í framtíðinni. „Við erum ekki komin enn á þann stað að geta sýnt slíkan samanburð vegna þess hve stutt er síðan lögin komust í framkvæmd og engar tölur að bera saman við, en ég er sammála þingmanninum um að slíkur samanburður er afar mikilvægur.“
Bjarkey sagði að það hefði loðað við frá því að hún kom fyrst inn á þing 2004 að þingsalurinn tæmdist alltaf þegar farið væri að tala um fjárlög eða fjármál. „Það loðir enn við og núna þegar við ætlum að fara að sýna aukinn aga og aðhald í fjármálum er mikilvægt að sem flestir geti skilið um hvað málið snýst. Til þess þurfum við líka tölur. Ég held að við getum sett þær fram án þess að það sé villandi með því að taka fram með hvaða hætti við ákveðum að gera þær samanburðarhæfar milli ára.“
Benedikt tók undir þetta. Þá sagði hann áhugavert að sjá fjölda kvenna sýna verklagi við opinber fjármál áhuga en sex konur og þrír karlar tóku þátt í umræðunum. „Þetta er líklegast mikilvægasta málefni kjörtímabilsins. Þarna erum við að marka stefnuna, marka rammann, og vel að merkja, þegar búið verður að marka þann ramma er þetta orðið stefna Alþingis og við munum haga okkur í samræmi við hana.“
Athugasemdir