Jón Gnarr, fyrrverandi borgarstjóri og núverandi framkvæmdastjóri dagskrársviðs 365, íhugar nú forsetaframboð, þrátt fyrir að hafa áður gefið það frá sér.
Í dag skrifar hann stöðufærslu á Facebook-síðu sína um kristni og gildi þjóðarinnar og virðast þeir sem skrifa athugasemdir telja að um sé að ræða forspil að forsetaframboði. Í færslunni veltir Jón vöngum yfir gildum íslensku þjóðarinnar og sessi kristinnar trúar í þjóðmenningunni.
„Ég hef verið að hugsa mikið um gildi okkar sem þjóðar. Þó ég telji mig trúlausan þá get ég ekki hafnað því að kristin trú hefur verið mikilvægur hluti af þjóðmenningu okkar og sögu. Þjóðfáninn okkar er t.d. krosstákn. Lykillinn að framtíð okkar felst í því að við náum sem best að samrýma ólík viðhorf og lífsskoðanir, útrýma ágreiningi en vinna saman sem heild. Sagan kennir okkur að þannig hefur okkur yfirleitt gengið best að ná árangri,“ skrifar Jón.
Gaukur Úlfarsson, leikstjóri og náinn samstarfsmaður Jóns í gegnum tíðina, skrifar athugasemd og segir: „Bestastaðir here we come!“
Misvísandi skilaboð
Í viðtali við Kjarnann í fyrradag gaf Jón út yfirlýsingu um að hann myndi tilkynna hvort hann færi í framboð á morgun, í einhverjum af miðlum fjölmiðlafyrirtækisins 365, þar sem hann starfar. „Ég ætla bara að liggja undir feldi þangað til," sagði Jón við Kjarnann.
Jón hefur gefið út ansi ólíkar yfirlýsingar í gegnum tíðina um hvort hann ætli sér í framboð. Í mars í fyrra skrifaði hann til að mynda pistil í Fréttablaðið þar sagði hreint út að hann ætlað sér ekki í framboð. „En það er annað sem ég get ekki sætt mig við. Mér leiðist tilætlunarsemi, frekja og dónaskapur. Ég reyni að forðast fólk sem finnst það eðlilegur hluti af daglegum samskiptum. Mér óar við þeirri tilhugsun að verða á þennan hátt hluti af þeim ömurlega og hallærislega kúltúr sem er íslensk stjórnmálamenning. Ég nenni ekki að standa aftur andspænis freka kallinum. Ég get bara ekki boðið sjálfum mér og konunni minni upp á þetta,“ skrifaði Jón.
„Leiðinleg stemning í samfélaginu“
Þá sagði Jón í viðtali við Stundina í júlí að hann vildi ekki berjast við „einhver öfl í þjóðfélaginu“ og honum þætti „leiðinleg stemning“ í þjóðfélaginu: „Það er bara ekki það sem á fyrir mér að liggja að verða forseti. Ég var bæði snortinn og upp með mér yfir því að svona mörgum þætti það vænt um mig eða hefðu svo mikla trú á mér að þeir vildu sjá mig í forsetaembættinu. Ég hugsaði líka að í því embætti gæti ég gert mikið gagn; unnið að jafnrétti, mannréttindum og hjálpað til á ýmsan hátt. Það hefði hins vegar endanlega lokað fyrir mér öllum tækifærum til að vera aðrar persónur. Ef maður er forseti þá er maður ekkert annað, það er svo afgerandi hlutverk. Mig langar að spreyta mig í öðru og halda áfram þessum persónuleikatilraunum sem ég hef verið að gera. Það er líka svo leiðinleg stemning í samfélaginu og mig langar ekki að vera einhver sem er umtalaður í þessum leiðindum. Ég fæ ekkert kikk út úr því, hef aldrei litið svo á að það væri mitt hlutverk að takast á við einhver öfl í þjóðfélaginu og mér hraus dálítið hugur við því.“
„Ég væri alveg til í að vera forseti.“
Rétt fyrir jól hafði tónninn breyst. Í þættinum Jólavöku á RÚV sagði hann að hann væri tilbúinn að verða forseti. „Ég væri alveg til í að vera forseti. Ég veit bara ekki alveg hvort ég væri til í það á þessum tímapunkti,“ sagði hann þá. Samkvæmt skoðanakönnun Vísis 4. janúar vilja níu prósent Jón Gnarr sem næsta forseta Íslands.
Athugasemdir