Háleitar hugmyndir voru uppi þegar gömlu vistheimili fyrir geðsjúka að Arnarholti á Kjalarnesi var breytt í það sem kallað var „verkefnamiðstöð fyrir hælisleitendur“ sumarið 2014. Talsmaður eigenda fasteignarinnar – félagsins Fylkis ehf. sem hafði keypt húsnæðið af ríki og Reykjavíkurborg árið áður – sagðist meðal annars hafa þróað sérstakt verkefni sem fæli í sér endurhæfingu og tungumálanám sem miðaði að því að virkja hælisleitendur til þess að taka þátt í íslensku samfélagi. Hugmyndinni var almennt vel tekið og samningar náðust við Útlendingastofnun sem leigir nú húsnæðið og hýsir þar hælisleitendur sem bíða úrlausna umsókna sinna um alþjóðlega vernd.
Stundin hefur rætt við hælisleitendur sem búa á Arnarholti en enginn þeirra kannast við að slík „verkefnamiðstöð“ sé eða hafi verið starfrækt í húsnæðinu. Þannig vissu íbúar, sem blaðamaður ræddi við, ekki til þess að tungumálakennsla færi fram í Arnarholti, né heldur að nokkuð slíkt væri í undirbúningi. Þá gátu viðmælendur blaðsins ekki séð að unnið væri að endurhæfingu íbúanna með sérstökum hætti. „Ég hef aldrei heyrt að þeir hafi viljað vera með tungumálanám og sé engin ummerki um að slíkt sé í bígerð,“ segir viðmælandi sem vill ekki láta nafns síns getið. Hann segir íbúa Arnarholts upplifa sig einangraða og fjarri íslensku samfélagi en þeir þurfa til dæmis að ganga langan veg til þess eins að komast í næsta strætóskýli.
Athugasemdir