Heiða Kristín Helgadóttir, fyrrverandi formaður Bjartrar framtíðar, sem hefur gagnrýnt núverandi formann harðlega fyrir slakt fylgi flokksins í skoðanakönnunum, hefur lýst því yfir að hún muni ekki bjóða sig sjálf fram til formanns á komandi ársfundi flokksins sem haldinn verður 5. september.
„Ég hef ákveðið að bjóða mig ekki fram til formanns Bjartrar framtíðar. Breytingarnar sem BF er að ganga í gegnum snúast ekki um mig eða minn metnað heldur um það að flokkurinn geti endurvakið áhuga kjósenda og fundið neistann sem til þarf til að hrífa aðra með. Metnaður minn liggur í því að leggja því verkefni lið og ég met stöðuna þannig að það verði best gert með því að ég taki sæti á Alþingi í haust í fæðingarorlofi Bjartrar Ólafsdóttur og veiti nýrri forystu stuðning til góðra verka. Þar vil ég sjá konu fremsta meðal jafningja,“ segir Heiða Kristín á Facebook-síðu sinni.
Hún útilokar ekki að bjóða sig fram til formanns síðar. „Sá dagur kann að koma ég mun bjóða mig fram til forystu, en sá tímapunktur er ekki núna.“
Fram hefur komið að hvorki formaðurinn Guðmundur Steingrímsson né þingflokksformaðurinn Róbert Marshall, sem eru þingmenn flokksins, munu bjóða sig fram sem formenn. Guðmundur mælti með því að staða formanns „róteraðist“ á milli aðila innan Bjartrar framtíðar.
Björt Ólafsdóttir, sem nú er í fæðingarorlofi, hefur greint frá því að hún muni ekki bjóða sig fram. Heiða Kristín hafði áður lýst því yfir að hún myndi hætta í stjórnmálum og ekki taka sæti Bjartar á þingi, en Heiða er varaformaður fyrir hana. Henni snerist hugur þegar Guðmundur Steingrímsson greindi frá brotthvarfi sínu úr formannsstóli.
„Mér finnst vandi Bjartrar framtíðar vera inni í Bjartri framtíð“
Ekki hefur komið fram hvort Brynhildur Pétursdóttir, annar þingmaður flokksins, muni fara í formannsframboð. Þá hefur stjórnarformaðurinn Margrét Marteinsdóttir ekki tjáð sig um málið.
Aðrir þingmenn flokksins eru Óttarr Proppé og Páll Valur Björnsson.
Bæði Óttarr Proppé og svo Guðlaug Kristjánsdóttir, forseti bæjarstjórnar í Hafnarfirði, hafa lýst sig reiðubúin að gerast formenn Bjartrar framtíðar.
Björt framtíð mælist nú með rúmlega 4 prósent fylgi. Heiða Kristín skrifaði fylgistapið á formann flokksins. „Mér finnst vandi Bjartrar framtíðar vera inni í Bjartri framtíð, hann er ekki vandi kjósenda. Vandinn er ekki tilkominn vegna þess að kjósendur skilja ekki flokkinn heldur er hann vandi formannsins og þeirra sem starfa í Bjartri framtíð.“
Athugasemdir