Davíð Oddsson, fyrrverandi seðlabankastjóri, borgarstjóri og forsætisráðherra, sagði að fólk sæi í hvaða flokki Andri Snær Magnason og Guðni Th. Jóhannesson væru í kappræðum á Stöð 2 í kvöld. Báðir neituðu þeir að hafa tekið þátt í starfi stjórnmálaflokka, en Davíð vildi kenna þá við flokka. Sjálfur var hann formaður Sjálfstæðisflokkins um árabil.
Andri Snær Magnason, Davíð Oddsson, Guðni Th. Jóhannesson og Halla Tómasdóttir tóku þátt í kappræðum fyrir forsetakosningar á Stöð 2 í kvöld. Öðrum frambjóðendum var ekki boðið að taka þátt.
Í umræðu um stjórnmálaþáttöku kváðust hvorki Halla Tómasdóttir, Guðni Th, né Andri Snær hafa tekið þátt í flokkapólitík.
„Fólk sér hvar þú ert í flokki,“ svaraði Davíð, eftir svör Andra Snæs. Þá nefndi hann að Guðni Th. hefði stuðning meðal Samfylkingarinnar.
Sakar spyril um að vera í slag
Davíð sakaði Þorbjörn Þórðarson, fréttamann og spyril í þættinum, um að vera í forsetaslag við hann.
Ummælin féllu þegar Þorbjörn spurði Davíð nánar út í orð hans um að ef öll mál færu í þjóðaratkvæðagreiðslu myndi fólk „hætta að kjósa til Alþingis.“
„Þú ert svona í forsetaslag við mig, einhvern. Það er allt í lagi mín vegna,“ sagði Davíð.
Davíð taldi að varlega þyrfti að fara í að heimila að fólk gæti knúið fram þjóðaratkvæðagreiðslur með ákveðnu hlutfalli undirskrifta almennings. „Áhuginn og nauðsyn þess að kjósa til þings minnkar,“ útskýrði hann.
Efaðist um skoðanakönnun
Í skoðanakönnun 365 sem kynnt var í þættinum kom fram að Guðni Th. væri með 65% fylgi, Davíð 20% fylgi, Andri Snær 8%, Halla 2,5% og aðrir töluvert minna. Davíð efaðist um niðurstöður könnunarinnar, þar sem hún væri ekki í fullu samræmi við aðrar kannanir. Fylgi Davíðs mældist 18% í könnun MMR sem kynnt var í gær, en í könnun, sem gerð var fyrir stuðningsmenn Davíðs, mældist hann með 22%.
„Ég held að það sé einhver skekkja í þessu og bind vonir við það,“ sagði hann og kvaðst treysta á að bæta við sig einu prósenti á dag fram að kosningunum eftir mánuð.
Davíð hefur áður efast um niðurstöður skoðanakannana. Árið 2009 voru 90% landsmanna andvígir því að hann gegndi stöðu seðlabankastjóra eftir bankahrunið. Í viðtali við Kastljósið hafnaði hann könnuninni og sagði að „þessi skoðanakönnun, sem var nefnd þarna líka, sem Baugsmiðlarnir birtu“ væri ekki þess eðlis að hann tæki mark á henni.
Davíð gagnrýndi kynningu sama þáttar og sakaði spyrilinn, Sigmar Guðmundsson, um ófaglega umræðu. Hann tók sem dæmi að Sigmar sjálfur gæti verið rúinn trausti.
Athugasemdir