Kappræður Stundarinnar og Reykjavik Media með forsetaframbjóðendum fara fram í kvöld án eins frambjóðanda, sem boðaði fjarveru sína í gær.
Davíð Oddsson hyggst halda sinn eigin opna fund í Kópavogi á meðan kappræðunum stendur í Hafnarfirði og verða því átta af níu frambjóðendum þátttakendur mættir í Gaflaraleikhúsið klukkan 20 í kvöld.
Haft var samband við alla frambjóðendur fyrir um þremur vikum og höfðu allir boðað komu sína utan eins, sem afþakkaði í gær. Frambjóðendurnir eru: Andri Snær Magnason, Ástþór Magnússon, Elísabet Jökulsdóttir, Guðni Th. Jóhannesson, Guðrún Margrét Pálsdóttir, Halla Tómasdóttir, Hildur Þórðardóttir og Sturla Jónsson.
Til stóð að frambjóðendur mættust í tveimur hópum, en afráðið hefur verið að þeir mætist allir á sama tíma.
Staðreyndakönnun í samtíma
Í kappræðum Stundarinnar og Reykjavik Media er kappkostað að veita almenningi aðgang að frambjóðendum og svo halda sannleikanum til haga eins og kostur er.
Það fyrirkomulag verður haft á að yfirlýsingar frambjóðenda verða staðreyndakannaðar á meðan kappræðunum stendur og munu Jóhannes Kr. Kristjánsson frá Reykjavik Media og Jón Trausti Reynisson frá Stundinni sannreyna og leita heimilda í þeim tilfellum þar sem vafi er á sannleiksgildi staðhæfinga.
Þá geta áhorfendur sent spurningar í gegnum Twitter eða Facebook undir streymi af útsendingu kappræðanna.
Spurningar frá almenningi
Fjórar leiðir eru til þess að koma spurningum áleiðis:
1. Senda tölvupóst á kosningastundin@stundin.is.
2. Senda spurningar á Twitter með myllumerkinu #kosningastundin
3. Skrifa spurningar í ummælum undir streymi af beinni útsendingu á Facebook, sem verður finnanlegt á Facebook-síðum Stundarinnar og Reykjavik Media.
4. Mæta í salinn í Gaflaraleikhúsinu í Hafnarfirði og leggja fram spurningar á þar til gerð form.
Fulltrúar Stundarinnar og Reykjavik Media munu yfirfara spurningar og velja úr þær sem spyrlar leggja fram í beinu útsendingunni.
Kappræðurnar verða í beinni útsendingu á Facebook-síðum Stundarinnar og Reykjavik Media frá klukkan 20 í kvöld til 21:30. Spyrlar verða Aðalsteinn Kjartansson, blaðamaður Reykjavik Media, og Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir, ritstjóri Stundarinnar.
Athugasemdir