Komið er í ljós að Coca-Cola hefur veitt jafnvirði hundruð milljónum króna til samtaka sem auglýsa þann boðskap að offitufaraldurinn í Bandaríkjunum orsakist af hreyfingarleysi en ekki vegna neyslu á sykruðum og óhollum matvælum, líkt og gosdrykkjum sem Coca-Cola framleiðir.
Coca-Cola hefur undanfarið styrkt samtökin Global Energy Balance Network, sem kynnir þau sjónarmið að neytendur sem hafa áhyggjur af þyngd sinni eigi fremur að einbeita sér að hreyfingu en að minnka neyslu sína.
Varaforseti samtakanna, íþróttafræðingurinn Steven N. Blair, útskýrði sjónarmið þeirra nýverið í myndbandi þar sem stefna þeirra er kynnt: „Mest athygli í fjölmiðlunum og vísindaritum hefur snúist um: „Ó, þau eru að borða of mikið, borða of mikið, borða of mikið“ - og þannig að kenna skyndibita og sykruðum drykkjum um. Og það eru raunverulega engar knýjandi sannanir fyrir því að svo sé,“ segir hann.
Athugasemdir