Ólafur Ragnar Grímsson forseti hefur boðað til blaðamannafundar síðar í dag, en vill ekki gefa upp efni fundarins. Efni fundarins gæti verið annað en endurtekið forsetaframboð Ólafs Ragnars.
Uppfært: Ólafur Ragnar býður sig aftur fram til forseta Íslands þrátt fyrir að hafa áður boðað að það myndi hann ekki gera.
Leiddar hafa verið líkur að því að Ólafur ætli sér að bjóða sig aftur fram til embættis forseta Íslands, þótt hann hafi áður tilkynnt að hann hyggðist stíga úr stóli forseta.
Ólíklegt þykir að Ólafur Ragnar haldi blaðamannafund án þess að gefa upp tilefnið, nema um sé að ræða stórtíðindi.
Nú stendur yfir undirbúningur fyrir kosningar í embætti aðalritara Sameinuðu þjóðanna. Kjörtímabil Ban Ki-moon, núverandi aðalritara frá Suður-Kóreu, lýkur 31. desember næstkomandi.
Nú þegar hafa níu manns boðið sig fram í stöðuna, sem er ein mesta virðingarstaða heims. Undanfarna daga hafa frambjóðendur verið spurðir af allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York í óformlegum kappræðum.
Í frétt UN News Centre kemur fram að von gæti verið á fleiri frambjóðendum á næstu vikum.
Ólafur Ragnar Grímsson hefur verið orðaður við stöðuna, þótt hann sé ekki á lista Wikipedia yfir þá sem nefndir hafa verið í fjölmiðlum sem mögulegir frambjóðendur. Hann hefur lagt þunga áherslu á náin tengsl við helstu stórveldin, Kína, Indland og Rússland, svo eitthvað sé nefnt.
Málið skýrist á blaðamannafundi á Bessastöðum klukkan 16.15 í dag.
Eftirfarandi aðilar hafa þegar boðið sig fram
Reiknað er með að næsti aðalritari Sameinunuðu þjóðanna verði líklega kona og/eða frá Austur-Evrópu, þar sem sögulega sé komið að þeim heimshluta og breyttir tímar kalli á að kona gegni stöðunni í fyrsta sinn.
Irina Bokova, 63 ára, frá Búlgaríu
Helen Clark, 66 ára, fyrrverandi forsætisráðherra Nýja-Sjálands
Natalia Gherman, 47 ára, utanríkisráðherra Moldóvu
António Guterres, 66 ára, frá Portúgal
Vuk Jeremic, 40 ára, fyrrverandi utanríkisráðherra Serbíu
Srgjan Kerim, 67 ára, fyrrverandi utanríkisráðherra Makedóníu
Igor Luksic, 39 ára, fyrrverandi forsætisráðherra Svartfjallalands
Vesna Pusic, 63 ára, fyrrverandi utanríkisráðherra Króatíu
Danilo Turk, 64 ára, fyrrverandi forseti Slóveníu
Athugasemdir