Bændasamtök Íslands ætla að bregðast við af fullum þunga ef meiriháttar efnisbreytingarar verða gerðar á frumvarpi til staðfestingar búvörusamningunum í meðförum Alþingis, svo sem ef gildistíminn verður styttur eða stuðningsgreiðslur til landbúnaðar lækkaðar. Þetta kemur fram í viðtali við Sindra Sigurgeirsson, formann Bændasamtakanna, í Fréttablaðinu í dag.
„Ef þingið ákveður að gera breytingar sem raska samningstextanum sjálfum höfum við sagt að við teljum að það þýði nýjar viðræður og aðra atkvæðagreiðslu,“ segir Sigurður Eyþórsson, framkvæmdastjóri Bændasamtakanna í samtali við Stundina. „Við gerðum þennan samning við fulltrúa stjórnvalda og ætlumst til þess, eins og almennt tíðkast þegar samið er, að hinn aðilinn leiti staðfestingar sín megin eins og við gerðum.“
Beinir og óbeinir styrkir meira en 200 milljarðar
Samkvæmt fyrirliggjandi frumvarpi til laga um breytingu á búvörulögum, búnaðarlögum og tollalögum munu ríkisútgjöld vegna búvörusamninga – einkum vegna stuðnings til nautgriparækt og sauðfjárrækt – nema 12 til 14 milljörðum á hverju ári næstu 10 árin, eða alls um 130 milljörðum. Á sama tíma nemur óbeinn stuðningur við íslenskan landbúnað í formi tollverndar um 8 til 10 milljörðum á ári.
Athugasemdir