Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, kemur Páleyju Borgþórsdóttur lögreglustjóra til varnar vegna ákvörðunar hennar um að greina ekki opinberlega frá tilkynntum kynferðisbrotum á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum og hvetja viðbragðsaðila til að þegja um slík mál. Í gær sendi Páley út fréttatilkynningu fyrir hönd hóps sem skorar á Elliða Vignisson að bjóða sig fram til Alþingis.
„Ég veit ekki betur en til þess að þessir verkferlar séu þeir sömu og lögregla notar um allt land, alla daga ársins,“ segir Elliði í viðtali við Vísi.is í dag. Þessi fullyrðing stenst ekki skoðun ef marka má það sem fram kemur í máli Haraldar Johannessen, ríkislögreglustjóra, en hann segir í viðtali við fréttastofu RÚV að verklag lögreglustjórans í Vestmannaeyjum sé „nokkuð stílbrot á það hvernig málin eru meðhöndluð annars staðar á landinu“ en best væri ef sami háttur væri alls staðar hafður á.
Lögreglan í Vestmannaeyjum hefur sætt harðri gagnrýni, meðal annars af fagaðilum og þolendum kynferðisbrota, vegna þagnarkröfunnar á Þjóðhátíð. Lögreglan í Vestmannaeyjum fylgir sömu stefnu í ár og gert var í fyrra, en yfirlýst markmið er að vernda rannsóknarhagsmuni og hagsmuni brotaþola. Fréttablaðið greindi frá því í morgun að Neyðarmóttaka Landsspítalans ætli að upplýsa fjölmiðla um fjölda kynferðisbrotamála á Þjóðhátíð þótt lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum hafi óskað eftir því að það verði ekki gert.
Athugasemdir