Ný, aðhaldssöm fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar hefur þau áhrif að tekjur ríkisins „nægja ekki til að fjármagna nauðsynleg útgjöld til velferðar og innviða þrátt fyrir uppsveiflu“ að mati Alþýðusambands Íslands.
ASÍ gagnrýnir fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar harðlega í fréttatilkynningu. Fullyrt er að stefna stjórnvalda í ríkisfjármálum stuðli ekki að aukinni velferð né að efnahagslegum og félagslegum stöðugleika. Þrátt fyrir uppsveiflu dugi tekjustofnar ríkisins ekki til að fjármagna grundvallarvelferðarþjónustu og innviði. Velferðarkerfið sé notað sem helsta hagstjórnartækið, þar sem úrbætur í velferðarkerfinu eru fjármagnaðar með því að draga úr útgjöldum annars staðar í kerfinu.
Niðurskurður á opinberum rekstri
Gagnrýnt er að þak að á greiðsluþátttöku sjúklinga sé fjármagnað að mestu leyti með því að íþyngja kostnað annarra notenda heilbrigðisþjónustu. „Langflestir greiða nú of mikið fyrir heilbrigðisþjónustu hér á landi og mikil hætta er á að þessi breyting leiði til þess að enn fleiri neiti sér um heilbrigðisþjónustu en nú er,“ segir í frétt ASÍ og að afleiðingar slíkra millifærslna innan velferðarkerfisins gætu orðið alvarlegar: „Fyrirséð er að þegar dregur úr umsvifum muni blasa við niðurskurður í opinberum rekstri og/eða skattahækkanir, þvert á hagsveifluna.“
Stundin fjallaði um að útgjöld hins opinbera til heilbrigðismála hækka úr 7 prósent af vergri landsframleiðslu í 7,85 prósent, sem er fjarri því sem krafist var skömmu fyrir kosningar. Fyrir kosningar skrifuðu um 86 þúsund manns undir áskorun Kára Stefánssonar þess efnis að útgjöld til heilbrigðismála yrðu aukin upp í 11 prósent af vergri landsframleiðslu.
ASÍ segir stjórnvöld ekki bregðast við uppsafnaðri þörf á hjúkrunarheimilum, sem eykst sífellt. „Áformuð fjölgun hjúkrunarrýma fram til ársins 2022 nemur einungis rúmlega helmingunum af áætlaðri viðbótarþörf fyrir ný hjúkrunarrými til ársins 2020. Ekki er að sjá þess merki að gert sé ráð fyrir viðbótarfjármagni til reksturs hjúkrunar- og endurhæfingarþjónustu á tímabilinu þrátt fyrir fyrirséða fjölgun aldraðra og viðvarandi rekstrarvanda margra stofnana.“
Aðför að réttindum
Tekjujöfnunartæki stjórnvalda mætir ekki væntingum ASÍ. Stytting tímabils atvinnuleysisbóta lítur ASÍ á sem alvarlega aðför að réttindum launafólks og segja stefnu í barna- og vaxtabótakerfum muni fækka fjölskyldum sem eigi rétt á bótum, það hafi ekki síst áhrif á ungt fólk. Fæðingarorlofskerfið er jafnframt gagnrýnt þar sem engin áform séu um lengingu orlofsins úr 12 mánuðum, þó svo að greiðslur til foreldra hækki í 600 þúsund á mánuði í áföngum.
Almannatryggingakerfið er gagnrýnt fyrir að skilja öryrkja eftir. En öryrkjar munu ekki hljóta bættra kjara í samræmi við elliellilífeyrisþega fyrr en árið 2019. „Á meðan búa örorkulífeyrisþegar áfram við flókin, ógagnsæ réttindi almannatrygginga með krónu á móti krónu skerðingum á þann hóp sem verst stendur.“
Athugasemdir