Fjármálaráð telur að fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar beri þess merki að ekki hafi verið miðað við grunngildi laga um opinber fjármál við gerð hennar. Fundið er að því að áætlunin sé að mörgu leyti ógagnsæ og framsetningin óskýr.
Þá er varað við slökun í aðhaldi ríkisfjármála og bent á að slíkt kunni að leiða til þess að Seðlabankinn þurfi að hækka vexti. Sýnt er fram á að strax á næsta ári mun fjármálaáætlunin stangast á við afkomumarkmið nýsamþykktrar fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar.
Þetta kemur fram í álitsgerð fjármálaráðs um fjármálaáætlun Benedikts Jóhannessonar, fjármála- og efnahagsráðherra, sem birtist á vef Alþingis í gær.
Álitsgerðin er þungur áfellisdómur yfir fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar og felur í sér harða gagnrýni á ýmis grundvallaratriði hennar.
Að vissu leyti ógagnsærri er áætlun Bjarna
Fjármálaráð er sjálfstæður sérfræðingahópur, skipaður af fjármálaráðherra sjálfum, sem leggur mat á hvort fjármálastefna og fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fylgi þeim grunngildum sem kveðið er á um í lögum um opinber fjármál.
Afstaða fjármálaráðs er nokkuð skýr og kemur fram strax í inngangi: „Fjármálaráð telur að áætlunin beri þess merki að grunngildamiðuð vinnubrögð hafi almennt ekki verið höfð að leiðarljósi við gerð hennar. Vísað er á fáeinum stöðum í lagatextann og grunngildin nefnd í því samhengi en umfram það er umfjöllun hvað grunngildin varðar rýr.“
Á eftir fylgir ítarleg gagnrýni á ótal atriði fjármálaáætlunarinnar, en einkum og sér í lagi er fundið að skorti á gagnsæi. Raunar er fullyrt að áætlunin sé að vissu leyti ógagnsærri en fjármálaáætlun Bjarna Benediktssonar sem samþykkt var í ríkisstjórnartíð Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins.
Þetta kemur á óvart í ljósi þess að Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar og eftirmaður Bjarna í ráðuneytinu, hefur talað sérstaklega fyrir auknu gagnsæi síðan hann tók við stöðu fjármálaráðherra. Í umfjöllun fjármálaráðs um skuldaþróun hins opinbera segir: „Að vissu leyti er framlögð fjármálaáætlun ógagnsærri en sú fyrri en í henni voru settar fram sviðsmyndir af sölu eigna og samspil þeirra við skuldalækkun.“
„Spennitreyjan“ orðin að veruleika:
Ósamræmi milli stefnu og áætlunar
Í álitsgerð fjármálaráðs um fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar sem birtist í febrúar var bent á að stefnan byggði á hagfelldri en óvissri efnahagsspá og afkoman hins opinbera væri næm fyrir breytingum á framvindu efnahagsmála. „Ef hagvöxtur reynist lægri en spár gera ráð fyrir gæti reynst erfitt að ná markmiði um útgjöld án aukins aðhalds,“ sagði í álitinu.
„Samkvæmt þessu geta stjórnvöld lent í spennitreyju fjármálastefnu sinnar ef atburðarásin reynist önnur en efnahagsspáin gerir ráð fyrir.“ Þrátt fyrir þessar viðvaranir samþykkti stjórnarmeirihlutinn á Alþingi fjármálastefnuna óbreytta. Hvorki var brugðist við viðvörunum fjármálaráðs né gagnrýni Seðlabankans.
Um fjármálaáætlunina segir nú fjármálaráð:
„Þegar tölur um afkomu hins opinbera eru teknar saman og hlutfall þeirra af vergri landsframleiðslu er reiknað má sjá að í fjármálaáætlun raungerist sú áhætta sem fjármálaráð varaði við í álitsgerð sinni um fjármálastefnu þar sem segir að stjórnvöld geti lent í spennitreyju fjármálastefnu sinnar.“
„Slíkt er ekki til þess fallið að tryggja trúverðugleika umgjarðar opinberra fjármála.“
Bent er á að á næsta ári muni fjármálaáætlunin ekki samræmast markmiði fjármálastefnunnar um heildarafkomu hins opinbera. „Slíkt er ekki til þess fallið að tryggja trúverðugleika umgjarðar opinberra fjármála.“ Bent er á að lögum samkvæmt skuli staðfest að fjármálaáætlun sé í samræmi við gildandi fjármálastefnu, en áætlunin uppfyllir þetta skilyrði ekki.
Lækkun virðisaukaskatts grafi undan stöðugleika
Fjármálaráð varar við áformum um lækkun almenna virðisaukaskattsþrepsins. „Sú sértæka aðgerð er líkleg til að ganga gegn grunngildinu um stöðugleika við þær efnahagsaðstæður sem nú ríkja.“
Þá er vikið að hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu: „Sé það rétt að hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu hafi óveruleg áhrif á komu og neyslu erlendra ferðamanna flytur sú aðgerð skattheimtuna af innlendri eftirspurn yfir á ferðaþjónustuna. Með stöðugleika að leiðarljósi er slíkt óvarlegt, í ljósi ofangreinds, nú um stundir þar sem þess háttar aðgerð ýtir undir þenslu. Í fjármálaáætlunina vantar nánari greiningu á þessum atriðum,“ segir í álitinu.
Fullyrðingar án rökstuðnings og skortur á upplýsingum
Fjármálaráð tekur ýmis dæmi um atriði í fjármálaáætluninni sem talin eru ganga gegn kröfunni um gagnsæi. T.d. er bent á að í fjármálaáætluninni séu lykiltölur settar fram ýmist á nafnverði hvers tíma eða sem hlutfall af vergri landsframleiðslu og samræmi skorti í þeim efnum. Þá er fundið að því að í umfjöllun um fjárfestingar hins opinbera séu engar upplýsingar um tímasetningar birtar og einungis vísað til forgangsröðunar stjórnvalda. Settar séu fram fullyrðingar um hitt og þetta án rökstuðnings og greiningar.
Í 8. kafla álitsgerðarinnar er að finna sérstakar ábendingar fjármálaráðs til stjórnvalda. Þar segir meðal annars: „Stjórnvöldum ber að láta grunngildi um sjálfbærni, varfærni, stöðugleika, festu og gagnsæi endurspeglast í vinnu, verklagi og umfjöllun fjármálaáætlunar, eins og lög kveða á um. Rök fyrir áætluninni skulu vera grunngildamiðuð. Ekki nægir að láta fjármálaráði eftir að bera kennsl á hvernig áætlanir og athafnir ríma við grunngildi. Slíkt gengur gegn grunngildi um gagnsæi.“ Hér má lesa umsögn fjármálaráðs í heild.
Athugasemdir