Aðgangur almennings var takmaður verulega og nær allur Austurvöllur afgirtur á meðan þjóðhátíðardagskrá fór fram við styttuna af Jóni Sigurðssyni í dag.
Gripið var til þessara ráðstafana vegna mótmælanna sem haldin voru á þjóðhátíðardaginn í fyrra þegar þáverandi forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þurfti að flytja hátíðarræðu sína undir bumbuslætti, hrópum og köllum.
Haft er eftir Sigurði Inga Jóhannssyni forsætisráðherra á Mbl.is að forsætisráðuneytið hafi ekki komið að þeirri ákvörðun að stækka hið afgirta svæði, heldur einungis þjóðhátíðarnefnd Reykjavíkurborgar og lögreglan.
Þórgnýr Thoroddsen, formaður þjóðhátíðarnefndar, bendir hins vegar á að nefndin komi ekki að ákvörðunum um öryggisráðstafanir og innan hennar hafi engin umræða farið fram um öryggisgæsluna.
„Þessi umræða fór hvorki fram innan þjóðhátíðarnefndar né er þessi ákvörðun á hendi hennar. Nefndin sér einvörðungu um skipulagningu athafnarinnar fyrir hönd forsætisráðuneytisins og öryggisráðstafanir eru teknar af lögreglu,“ skrifar Þórgnýr á Facebook.
Að sama skapi segir Sóley Tómasdóttir, forseti borgarstjórnar, að borgin hafi ekki óskað eftir girðingunum. „Þvert á móti eru þessar meintu öryggisráðstafanir okkur þvert um geð,“ skrifar hún.
Þá er haft eftir Ágústi Svanssyni, aðalvarðstjóra lögreglu sem hafði yfirumsjón með öryggisgæslunni á Austurvelli, í viðtali á Vísi.is að lögreglan hafi ekki komið nálægt þeirri ákvörðun að stækka hið afgirta svæði „öðruvísi en að tryggja öryggi að beiðni forsætisráðuneytisins og Alþingis“.
Athugasemdir