Flest allir sem maður ræðir við þessa dagana hafa myndað sér einhverja skoðun á „Þjóðhátíðarmálinu”. Eftir að hafa hlustað á fólk tjá sig í gríð og erg, bæði á netinu og í kringum mig, langaði mig að koma því saman í pistli um hvað málið snýst og hvað mér finnst mikilvægt að fólk hafi í huga þegar það ákveður hvað því finnst um þetta mál.
Í fyrra gaf Páley Borgþórsdóttir viðbragðsaðilum kynferðisbrota á Þjóðhátíð þau fyrirmæli að tjá sig ekkert við fjölmiðla. Hún sagði að þau fyrirmæli væru í takt við kröfur Druslugöngunnar. Forsvarsfólk göngunnar mótmælti þessu, ásamt fagaðilum í kynferðisbrotamálum, fjölmiðlafólki og þolendum. Einnig sagði Guðrún Jónsdóttir talskona Stígamóta að Páley skorti skilning á málinu. Þess má geta að frá árinu 2010 hafa Stígamót ekki verið velkomin á hátíðina þrátt fyrir að Stígamót séu leiðandi í stuðningi við brotaþola í kynferðisbrotamálum. Árskýrslur Stígamóta sýna fram á að þau hafa sinnt 93 einstaklingum á 10 ára tímabili sem lentu í ofbeldi á útihátíðum, ekki síst á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. Þörfin er því augljós, en einhverra hluta vegna var ekki verið að sinna þessum myrka þætti hátíðarinnar.
En eftir þrýsting frá almenningi og listamönnum er nú loks búið að bjóða Stígamót velkomin aftur þetta árið.
Rökin sem Páley gefur eru þau að það sé verið að gæta að rannsóknarhagsmunum og hlífa brotaþola fyrir umræðunni.
Þessi rök geta sagt okkur það að Páley sér í besta falli ekki heildarmyndina og trúir að hún sé að gera rétt, eða að hún er vísvitandi að þagga niður hið “ljóta leyndarmál” hátíðarinnar. Ég persónulega vil trúa að fyrri kosturinn sé réttur og gef mér engan rétt á því að saka hana um þann síðari.
En þá langar mig aðeins að útskýra fyrir Páley og þeim sem eru henni sammála hvað er gagnrýni vert við þessa nálgun.
Ég sjálf hef því miður reynslu af kynferðisofbeldi, en ég hef líka verið það heppin að hafa fengið tækifæri til þess að hjálpa ofboðslega mörgum. Ég sé um hóp sem er núna eftir 3 ár að nálgast 600 meðlimi, og á í nánast daglegum samskiptum við fólk í hópnum. Það er gríðarlega margt sem við höfum lært hvort af öðru og deilt með hvert öðru.
Ég veit hvernig brotaþolum líður í flestum tilvikum, og ég skal segja ykkur það. Fyrst vil ég setja fram TW “trigger warning”.
Brotaþolinn er örmagna og vill ekki vera til. Allt er óraunverulegt og það er eins og allur skilningur á lífinu brenglist. Þú trúðir því aldrei að þú yrðir hluti af þessum hópi. Þú ert oft ekki einu sinni viss hvort þetta hafi raunverulega gerst. Allur sársaukinn er til staðar, maður annaðhvort grætur hástöfum eða er stjarfur. Þú vilt ekki að neinn sjái þig eða viti af því sem gerðist, en á sama tíma viltu ekkert meir en að einhver huggi þig, segi að allt verði í lagi, að þetta hafi bara verið martröð.
Þig langar ekki að fara til ókunnugrar manneskju til að segja frá þessu, þér líður eins og þú sért skítug eða skítugur og minna virði en aðrir í kringum þig, því þannig var komið fram við þig. Þig langar svo sannarlega ekki til þess að þurfa að vera allsber fyrir framan enn einn ókunnugan einstakling og láta hann skoða „glæpavettvanginn” Þig langar ekki að segja kærasta eða kærustu, foreldrum eða vinum. Hvað þá að eyða mögulega sínum síðustu dropum af lífsorku í að kæra þegar staðreyndin er sú að 71% mála er strax vísað frá og af þeim sem komast í gegn eru aðeins 13% sem enda með sakfellingu.
Auðvitað langar mann ekki til þess að sjá neitt um þetta í blöðunum. Afhverju? Því það er svo sárt. Það er allt sárt sem minnir á þetta. Svona áfall er eitthvað sem fólk getur þurft að glíma við það sem eftir er. En málið er, að það er alveg jafn sárt að lesa fyrirsögnina „Nauðgun tilkynnt á Þjóðhátið” og „Allir skemmta sér kongunlega á Þjóðhátíð” Hver er munurinn? Jú, fyrri fyrirsögnin dregur fram það sem skiptir máli.
Fólk sem þekkir ekki til slíks ofbeldis á auðvelt með að trúa að það sé best fyrir þolendur að tala ekki um það. En það er einmitt hluti af gömlum viðhorfum, og því sem við tengjum í dag við hugtakið „þöggun”. Það er upplifunin sem ó svo margir tala um. Að það sé betra að tala ekki um þessa hluti af því fólki finnst svo óþægilegt að tala og heyra um þá. En ég bið ykkur um að hugsa hlutina uppá nýtt og hugsa um það sem ég er að segja. Þetta á ekki að þurfa að vera svona pólitískt, þar sem hagsmunir annara en þolenda eru í huga fólks.
Það er svo ótrúlega margt í tengingu við þessa hátíð sem er fallegt og flott, en hún er að missa sjarmann vegna þess hversu illa hún hefur tekið á kynferðisbrotamálum og það er til skammar.
Páll Scheving sagði sem formaður Þjóðhátíðarnefndar að nærvera Stígamóta ýtti undir vandann.
„Það er þannig að þar sem þær hafa birst er eins og vandamálið hafa stækkað. Það er ljótt að segja það, en ég segi það samt, það er eins og samtökin nærist á því að vandamálið sé til staðar og það reyni frekar að ýta undir það heldur en hitt. Vandamálin eru alltaf miklu fleiri og stærri þegar Stígamót eru á staðnum.”
Ég á auðvelt með að trúa því að fleiri tilkynni brot þegar Stígamót eru á vettvangi, en ekki að það sé af því að fleiri afbrot séu framin þar sem Stígamót eru. Nauðgarar eru ekkert að pæla í því hvort Stígamót eru á staðnum eða ekki. Heldur er ástæðan að fleiri leita sér aðstoðar og stíga fram og segja frá því sem kom fyrir. Þessvegna hafa Stígamót ekki verið velkomin á Þjóðhátíð, ekki af því að vera samtakanna þar fjölgi nauðgunum heldur af því að fleiri segja frá. Hinsvegar er Dóra Björk Gunnarsdóttir, núverandi formaður Þjóðhátíðarnefndar að boða nýja stefnu, ag stofnað verður til fagnefndar til fimm ára sem mun móta ofbeldisforvarnarstefnu Þjóðhátíðarnefndar svo það virðist vera að loks sé eitthvað að breytast. Hún gagnrýndi einnig Páleyju fyrir ákvörðun sína og framgöngu Páleyja og kallaði hana „klaufalega” og „rugl”
Páley hinsvegar og einhverjir hagsmuna aðilar hafa líklega ekki viljaði að athyglin beinist að því slæma. Hugsanlega því betra væri að bíða með að segja frá að fólki hafi verið nauðgað, þá koma kannski fleiri á sunnudeginum, og mórallinn helst hjá öllum. Fólki fer ekki að líða illa vitandi að ungri stúlku var nauðgað þegar hún dó áfengisdauða í tjaldinu sínu.
Þegar Páley tilkynnti að sama verklag yrði í ár og í fyrra komst hún svo að orði að „flest þessara brota eiga sér stað á milli tveggja einstaklinga í lokuðum rýmum þangað sem fólk fer yfirleitt sjálfviljugt. Það er bara staðreyndin”
Sú staðreynd er sönn að því leytinu til að þegar litið er á öll kynferðisbrot yfir höfuð þá á þetta við, en Þjóðhátíð er allt annar vettvangur, þar eru flest allir í partýinu ókunnugir, og „lokaða“ rýmið er eyjan. Er þá verið að segja að einstaklingur hafi ákveðið að brjóta á einhverjum nákomnum en ákveði að bíða með það þangað til einmitt á Þjóðhátíð „milli tveggja einstaklinga í lokuðu rými“?. Er þá ekki einmitt eitthvað mikið að? Á Þjóðhátíð þá að vera draumastaðurinn? Þar sem að minnsta kosti 2-3 nauðganir eru tilkynntar en ekkert sagt frá því fyrr en einhverju seinna?
Ég vonaði og bjóst eiginlega við því að í ár myndi þetta verða miklu betra. Að eftir alla þá framför, herferðir og árángur sem hefur áunnist á stuttum tíma, myndi Páley fatta að það er „söluvænlegt” og það eina rétta í stöðunni að skera upp herör gegn nauðgunum. Ég bjóst við því að þeir sem stæðu á bakvið þessa hátíð myndu sína sterka afstöðu í þessum málum.
En það hefur að mínu mati ekki verið unnið rétt að þessum hluta.
Til viðmiðunar er þetta fílingurinn sem hópur af þjóðhátíðargestum finnst viðeigandi:
Þannig meðan þeir hlusta á Þjóðhátíðarlagið sem í 43. skiptið er samið af karlmönnum, ekki gleyma pillunum og buttblöggnum í gagnkynhneigða partýið sem er bannað innan 18.
Lögreglustjóri Vestmannaeyja og þeir sem styðja hennar ákvörðun heils hugar verða að hætta að fara í vörn og hlusta á ákallið. Með því að gera það ekki eru þeir að leyfa kynferðisofbeldi að grassera. Alveg eins og við kennum krökkunum í grunnskólanum að sá sem horfir á einelti án þess að stíga inn í sé líka þátttakandi, þá er hægt að bera ábyrgð með því að standa hjá og láta eins og ekkert sé að þó maður sé ekki sjálfur gerandi. Það er kominn tími til að stíga inní.
Athugasemdir