Uppsafnað tap móðurfélags álvers Alcoa á Reyðarfirði á árunum 2003 til 2013 nemur samtals rúmlega 48 milljörðum króna, eða nærri 428 milljónum dollara. Þetta kemur fram í ársreikningum móðurfélags álversins, Alcoa á Íslandi.
Á sama tíma, árin 2003 til 2013, nema vaxtagreiðslur félagsins til móðurfélags síns í Lúxemborg, Alcoa Luxemborg S.Á.R.L, rúmlega 53 milljörðum króna. Rúmlega fimm milljarða króna munur er því á vaxtargreiðslum móðurfélags álversins til móðurfélags síns og taprekstursins á Íslandi.
Alcoa á Íslandi ehf. á 99 prósenta hlut í fyrirtækinu Alcoa Fjarðarál slf. sem á og rekur álverið á Reyðarfirði. Fyrirtækið Reyðarál á svo 1 prósent í fyrirtækinu. Alcoa fjarðarál slf. er einnig skuldsett gagnvart félagi í eigu Alcoa í Lúxemborg. Skuldir þess félags við lúxemborgíska félagið eru ekki teknar með í reikninginn hér, aðeins skuldir Alcoa Ísland ehf.
Sjónvarpsþátturinn Kastljós á RÚV hefur í tvígang fjallað ítarlega um eðli og tilgang viðskipta Alcoa á Íslandi ehf. við móðurfélag sitt í Lúxemborg. Umfang tapsins og umfang vaxtagreiðslnanna hefur hins vegar ekki áður komið fram.
Tekjuskattar á hagnað fyrirtækja á Íslandi, svokallaðir fyrirtækjaskattar, eru 20 prósent og hefur Alcoa Ísland ehf. ekki greitt slíkan skatt á Íslandi vegna taprekstar.
Útskýrt með miklum fjárfestingum
Forstjóri Alcoa Fjarðaáls, Magnús Þór Ásmundsson, segir að tapið sé tilkomið vegna mikillar fjárfestingar Alcoa á Íslandi. „Tapið er tilkomið vegna þess að Alcoa fjárfesti á Íslandi fyrir 220 milljarða á sínum tíma og fjármagnskostnaður fyrirtækisins er mjög mikill. Það skapar tap af rekstrinum.“
Blaðamaður: „Af hverju vill Alcoa reka starfsemi á Íslandi sem skilar alltaf tapi? Það gengur ekki upp samkvæmt einfaldri, heilbrigðri skynsemi?“
Magnús Þór: „Þá hefur þú einhverja aðra skynsemi heldur en ég. Eins og ég er að segja þá er verið að greiða upp fjárfestinguna. Það er það sem skapar þessar rekstraraðstæður.“
„Þá hefur þú einhverja aðra skynsemi heldur en ég.“
Blaðamaður: „Er Alcoa ánægt með þessa rekstrareiningu?“
Magnús Þór: „Já, já. Alcoa er ánægt með rekstrareiningu Fjarðaáls.“
Blaðamaður: „Hvernig getur Alcoa verið ánægt með rekstrareiningu sem skilar tapi ár eftir ár?“
Magnús Þór: „Ég var að útskýra það.“
Athugasemdir