Ég hef verið svo lánsamur að fá að dvelja í nokkrum löndum þar sem yfirgnæfandi meirihluti íbúa eru múslimar. Fyrsta skiptið var Istanbúl árið 2004. Blautur á bak við eyrun pantaði ég hótel á netinu án þess að þekkja borgina og þegar til kom reyndist það staðsett í fremur íhaldssömum hluta hennar.
Ég hafði ekki komið til margra framandi landa og fyrsti morguninn gerði mig önugann. Fyrir allar aldir vöknuðum ég og þáverandi kærastan mín óumbeðið upp við bænaköll í mosku sem var staðsett við hliðina á hótelinu. Ekki tók betra við. Eftir að hafa lagt léttklædd út í rúmlega þrjátíu gráðu heitan daginn urðum við að snúa við, þar sem okkur leist ekki á viðmótið sem við fengum á leiðinni í morgunkaffið. Berleggjuð kona var ekki vinsæl í þessum bæjarhluta. En fall er fararheill og örlítið betur hulin lögðum við af stað út í daginn og gremjan breyttist fljótt í gleði.
„Eftir einn dag í þessari stórfenglegu borg voru allar staðalmyndir horfnar út í veður og vind.“
Eftir einn dag í þessari stórfenglegu borg voru allar staðalmyndir horfnar út í veður og vind. Síðan þá hef ég heimsótt lönd í Norður-Afríku og Mið-Austurlöndum þar sem íbúar eru múslimar. Með hverju skiptinu verð ég hrifnari af arabískri menningu. Maturinn er stórkostlegur, arkítektúrinn engu líkur, tónlistin mystísk, fólkið afslappað og skilningarvitin almennt nærð með úrvalsfæðu.
Vissulega hef ég ekki verið á þeim stöðum þar sem það ljótasta sem þessi menningarheimur hefur upp á að bjóða viðgengst og mér dettur ekki í hug að verja það frekar en annars konar öfgar sem ganga út á að meiða fólk. En ef horft er á ljótustu voðaverk síðustu alda með tilliti til þjóðernis og trúarbragða hafa þau komið frá öðrum en Aröbum og Islam. Það voru ekki múslimar sem þurrkuðu út tvær borgir og öllu tilheyrandi með kjarnorkusprengjum og það voru heldur ekki múslimar sem vildu losa heiminn við alla sem voru öðruvísi á kostnað milljóna mannslífa. Ef við viljum fara nær okkur í tíma og skoða þau fjórtán ár sem liðin eru af þessarri öld voru það heldur ekki múslimar sem réðust inn í land til að skipta þar um stjórnvöld og myrða meira en hundrað þúsund óbreytta borgara í leiðinni. Til að skoða þessi ofbeldisverk þurfum við að fara í menningarheima sem við þekkjum betur.
Það er sorglegt að stærstur hluti umræðu um múslima á Íslandi komi í formi rökræðna vegna upphrópana frá illa upplýstu fólki. Almennt finnst mér góð regla að eiga ekki í orðaskaki við slíka einstaklinga, en ég sé ekki betur en að tækifærið til að sækja fylgi í að daðra við múslimahatur hafi ekki sagt sitt síðasta í íslenskum stjórnmálum. Fólkið sem fer í þann leiðangur hefur aldrei setið á arabísku kaffihúsi innan um afslappaða múslima á hlýju vorkvöldi með angan af Shishu í lofti og tyrkneskt kaffi á borðum. Það leyfi ég mér að fullyrða.
Athugasemdir