Einn af flötunum á máli Illuga Gunnarsson og Orku Energy sem lítið hefur verið fjallað um eru forsendurnar fyrir aðkomu Hauks Harðarsonar, stjórnarformanns Orku Energy, að fjárhagsmálefnum ráðherrans. Eitt sjónarmið sem hefur verið uppi er Haukur hafi með kaupum sínum á íbúð Illuga gert honum vinargreiða til að aðstoða hann í fjárhagserfiðleikum. Greiði er auðvitað í eðli sínu þannig að sé sem veitir hann býst ekki við að fá neitt í staðinn frá viðtakanda greiðans. Greiði er þannig eins og góðverk sem gerður er á óeigingjörnum forsendum og er ekki búist við neinu endurgjaldi.
Af hverju þessi leynd um vináttuna?
Þessi sýn byggir á þeirri staðhæfingu Illuga að Haukur sé einn af „nánustu vinum“ hans og að þar af leiðandi sé í lagi að hann hafi varið meira en 50 milljónum króna af eigin peningum til að kaupa af honum eignarhaldsfélag og íbúð sem hann síðan tapar á sem fjárfestingu.
Illugi lýsti Hauki sjálfur með þessum í viðtali við Fréttablaðið fyrir tæpum tveimur vikum en fjölmiðlar höfðu þá árangurslaust reynt að fá hann til lýsa eðli samskipta þeirra Hauks í marga mánuði. Stundin spurði Illuga meðal annars gagngert að því hvort hann og Haukur væru vinir en hann svaraði því svona: „Ég kynntist stjórnendum Orka Energy fyrst er ég tók að mér verkefni fyrir fyrirtækið í Singapore. Fyrirtækið starfar einungis í Asíu, en kaupir þjónustu íslenskra sérfræðinga og vísindamanna á sviði jarðvarma. Eðli máls samkvæmt hef ég þekkt þá síðan.“
Illugi svaraði spurningu Stundarinnar með þessum hætti á tímapunkti þar sem ekki lá fyrir að Haukur hefði keypt íbúð Illuga til að aðstoða hann út úr fjárhagskrísunni. Einungis var vitað að Illugi hefði unnið ráðgjafastörf fyrir Orku Energy árið 2011 og að Orka Energy hefði verið með í opinberri heimsókn menntamálaráðherrans til Kína nú í mars. Þessi lýsing á sambandi þeirra þjónar því þeim tilgangi að réttlæta mjög sérstök viðskipti á milli ráðherra og kaupsýslumanns sem tengst hefur opinberum störfum ráðherrans. Viðskiptin eru í raun óréttlætanleg nema á forsendum náinnar vináttu en eru samt sem áður óeðlileg þrátt fyrir slíkar forsendur.
„Það lýsir góðri og fallegri vináttu.“
Sjónarmiðið um vinargreiðann
Þessi sýn á málið kom meðal annars fram í pistli sem Karl Th. Birgisson skrifaði um málið á Herðubreið: „Illugi lýsir Hauki sem einum af sínum „nánustu“ vinum. Það eitt nægir til þess að ráðherrann má ekki með neinum hætti beita sér í þágu fyrirtækisins. Það er grundvallaratriði í heilbrigðri stjórnsýslu. Við slíkar aðstæður segir ráðherrann: „Hér á í hlut náinn vinur minn. Þar með er ég vanhæfur og því stíg ég til hliðar og læt annan ráðherra um þetta tiltekna verkefni.“ Við bætist svo, að þessi góði vinur bjargaði Illuga og fjölskyldu hans í miklum fjárhagsvandræðum. Það er gott, lofsvert og til eftirbreytni. Það lýsir góðri og fallegri vináttu.“
Þetta sjónarmið sem Karl Th. lýsir er að ég held bæði útbreitt meðal fólks og eins skiljanlegt í ljósi fjárhagserfiðleika Illuga. Margir kannast auðvitað við það sjálfir hversu leiðinlegt það er að komast í fjárhagserfiðleika og hversu mikilvægt það er að ráða bót á þeim. Haukur virðist hafa verið vinur í raun, haukur í horni sem bjargaði Illuga hugsanlega frá því að missa íbúðina sína og jafnvel frá persónulegu gjaldþroti.
Erfiðleikarnir við að rýna í forsendur Hauks
Sjónarmiðið byggir á því að fólki er mörgu hverju mjög tamt að horfa fyrst og fremst á afleiðingar gjörða manna en ekki á forsendur þeirra. Ef verknaður hefur jákvæðar afleiðingar þá er verknaðurinn góður. Þetta er ekki óeðlilegt í mörgum tilfellum. Óþarft er að rýna í forsendur þess að einhver maður bjargaði öðrum frá drukknun eða úr eldsvoða: Nóg er að horfa á þær afleiðingar að mannslífi var bjargað. Punktur. Yfirleitt er erfitt er að gagnrýna verknað sem hefur bara jákvæðar afleiðingar - sama sem svo sem hvaða forsendur liggja á bak við hann.
Mál Illuga er hins vegar ekki alveg svo einfalt þó vissulega hljóti flestir að deila þeirri skoðun að ánægjulegt sé að maður nái að vinna sig út fjárhagserfiðleikum. Í tilfelli Illuga þarf að rýna í forsendurnar fyrir aðstoð Hauks af því þær skipta máli þegar mál hans er metið. Ekki er bara hægt að segja: „Maður lenti í fjárhagserfiðleikum og vinur hans hjálpaði honum út úr þeim; það er gott.“
Illugi Gunnarsson er kjörinn fulltrúi almennings og hann var og er ráðherra menntamála. Haukur Harðarson er kaupsýslumaður sem starfar í Asíu og sem getur haft verulega hagsmuni af því að tengja ráðamenn og ráðherra á Íslandi við fyrirtæki sitt sem meðal annars vinnur með orkufyrirtæki kínverska ríkisins. Ilugi vann fyrir Orku Energy á tímum þar sem hann var tekjulaus og fékk greiddar að minnsta 6.8 milljónir króna fyrir en það eru tæp árslaun hans sem þingmanns og hann seldi Hauki yfirveðsetta íbúð sína á yfirverði nokkrum mánuðum eftir að hann endurfjármagnaði lán sín vegna skuldaerfiðleika.
Var þetta vinargreiði?
Hversu trúverðug er þá þessi vinargreiðaréttlæting fyrir viðskiptunum þó skiljanlegt sé að fólk dragi þá ályktun út frá orðum Illuga sjálfs að um vinargreiða hafi verið að ræða? Af hverju sagði Illugi ekki fyrr frá þessu vinasambandi? Af hverju hélt hann því leyndu að þeir Haukur væru vinir þegar fjölmiðlar spurðu hann um samband hans við Hauk áður en viðskipti þeirra með íbúðina lágu fyrir?
Á þeim tíma þjónaði það alls ekki hagsmunum Illuga að segja frá því að þeir Haukur væru nánir vinir. Þvert á móti þá hefði það komið sér illa fyrir hann fyrir hann og hann þurfti ekki þá staðhæfingu um vináttu þeirra til að réttlæta illskiljanleg íbúðarkaup af honum sjálfum. Illugi þagði því að sagðist einungis hafa kynnst stjórnendum Orku Energy þegar hann segist hafa byrjað að vinna fyrir fyrirtækið í Singapore.
Eins og Illugi lýsir málinu lítur því út fyrir að hann hafi byrjað að vinna hjá Orku Energy, kynnst Hauki Harðarsyni, að þeir hafi orðið mjög góðir vinir á tveggja ára tímabili og að Haukur hafi síðan lagt út í rúmlega 50 milljóna króna fjárfestingu bara til þess að hjálpa Illuga. Tveir menn á fimmtudagsaldri kynnast í gegnum starf annars þeirra fyrir hinn, með þeim tekst slík vinátta að rúmlega 50 milljónir króna eru ekkert tiltökumál. Er þetta trúverðugt? Að viðskiptin hafi verið vinargreiði, helbert góðverk?
Þá skal líka tekið fram að enn sem komið er er nánast ekkert vitað um af hverju Illugi Gunnarsson vann fyrir Orku Energy. Hann hefur litla sem enga reynslu af viðskiptum og enga reynslu af viðskiptum í Asíu. Erfitt er að sjá hvað hann hefur fram að færa í viðskiptum Íslendinga í Asíu nema það að vera kjörinn þingmaður og ráðherra á Íslandi. Þess vegna er ekki ólíklegt að Orka Energy hafi fyrst og fremst verið að fá einhvern þingmann x til starfa fyrir sig í Asíu frekar en viðskiptamanninn Illuga Gunnarsson - með fullri virðingu fyrir honum.
Hin útgáfan: Mútur?
Ef við teljum að þetta sé ótrúverðug lýsing á sambandi og viðskiptum þeirra Hauks og Illuga þá hlýtur sú spurning að fylgja hvernig þetta hafi verið í raun og veru. Hverjar voru forsendurnar fyrir þessari fjárhagsstoð Hauks? Auðvitað er ekki hægt að svara þessari spurningu afdráttarlaust þar sem fyrir þyrfti þá að liggja sannur vitnisburður Hauks sjálfs um þessi viðskipti. Ég segi „sannur“ af því auðvitað myndi Haukur alltaf bara staðfesta orð Illuga sjálfs um eðli sambands þeirra, sama hvort það er rétt eða ekki að þeir séu mjög nánir vinir eða ekki.
Ástæðan er auðvitað sú ef réttlætingin fyrir viðskiptunum byggir ekki á því að þeir Illugi séu nánir vinir þá eru viðskipti þeirra nær því að vera viðskipti ótengdra aðila. Og í viðskiptum ótengdra aðila er hæpið að annar aðilinn geri hinum slíkan 50 milljóna króna greiða án þess að fá nokkuð á móti í staðinn. Ætli Jón Ásgeir Jóhannesson eða Bjarni Ármannsson séu mikið í því að skutla rúmum 50 milljónum til sér alls ótengdra aðila í viðskiptum? Hver gerir eiginlega slíkt? Svoleiðis gjafaviðskipti við Jón eða Pál úti í bæ ganga bara ekki upp. Þau eru órökrétt og óskynsamleg fyrir þann sem heldur á 50 milljónunum.
Það sem gerir þessi viðskipti þeirra Illuga og Hauks eðlilegri í hugum einhverra er einmitt að ráðherrann segir að þeir séu vinir. Ef þeir væru ekki vinir væri sú spurning enn meira aðkallandi hvað það var sem Haukur fékk í staðinn fyrir að hjálpa Illuga út úr skuldavandræðum. Voru þetta þá hreinar mútur? Áhrifakaup? Greiði á móti greiða? Ef ég klóra þér á herðablöðunum þá klórar þú mér?
,,Þetta er það sem við myndum kalla mútur á einföldu máli”
Rökstuddi mögulegar mútur
Haukur hefur sjálfur, á prenti, lýst því yfir að hreinar mútur geti verið aðferð til að liðka til fyrir viðskiptum. Í skýrslu sem hann skrifaði árið 2005 um fasteignaverkefni Róberts Wessmann og Björgólfs Thors Björgólfssonar í Murcia á suðurhluta Spánar lagði hann til að sex milljónir evra yrðu notaðar til að liðka til fyrir byggingaleyfum á svæði þar sem íslensku fjárfestiarnir hugðust reisa um 2500 íbúðir og hús á svæðinu auk glæsihótels og fleiri mannvirkja. ,,Þetta er það sem við myndum kalla mútur á einföldu máli,” sagði Haukur í skýrslu sinni um verkefnið. Róbert Wessmann sendi frá sér tilkynningu eftir að DV fjallaði um málið á sínum tíma þar sem hann sagði að ekkert hefði orðið af því að farið hefði verið eftir þessum tilmælum Hauks.
En þrátt fyrir þessi orð Hauks árið 2005 er ekki hægt að fullyrða að viðskipti hans og Illuga Gunnarssonar hafi byggt á slíkum mútum árið 2013.
Það er hins vegar hægt að fullyrða er að alveg sama hvort er hið rétt í stöðunni: Hvort viðskipti Hauks við Illuga voru bara vinargreiði á milli tveggja náinna vina eða þá hreinar mútur, áhrifkaup, þar sem Haukur lét Illuga í té það sem hann vantaði - peninga upp í skuldir - og Illugi endurgalt Hauki greiðann með því að leyfa honum og fyrirtæki hans að nota stöðu sína sem stjórnmálamanns og ráðherra í viðskiptum Orku Energy í Kína, þá hagmunaárekstararnir í málinu alltaf miklir.
Tvær útgáfur af sannleikanum
Eftir standa tvær mögulegar útgáfur af sannleikanum:
1) Ef salan á húsinu til Hauks var vinargreiði þá hefði Illugi aldrei átt að koma nálægt viðskiptum Orku Energy og Hauks Harðarsonar í Kína í mars og hann hefði aldrei að átta að funda með fyrirtækinu og kínverskum samstarfaðila þess. Illugi hefði átt að lýsa sig vanhæfan til að fara í opinbera heimsókn til Kína þar sem þetta fyrirtæki var þátttakandi. Í ljós þess að hann gerði það ekki og hélt viðskiptum sínum við Hauk, og meintu vinasambandi, leyndu þá verður aldrei hafið yfir vafa að hann hafi ekki verið að hygla fyrirtækinu í Kína og hafi jafnvel skipulagt alla Kínaferð sína með hagsmuni Orku Energy að leiðarljósi. Þá skiptir heldur engu máli hvað Illugi gerði eða gerði ekki fyrir Orku Energy í Kínaferðinni.
2) Ef salan á húsinu til Hauks var hins vegar dæmi um mútur og eða áhrifakaup alls ótengdari aðila en „náinna vinna“ þá dæmir Illugi Gunnarsson sig auðvitað sjálfur með því að þegja um þessi viðskipti og fara í opinbera heimsókn til Kína með þetta fyrirtæki Hauks í sendinefnd sinni. Þá væri Haukur Harðarssonar auðvitað líka gagnrýniverður fyrir að beita síkum áhrifakaupum í viðskiptum þar sem ljóst væri að hann keypti íbúð Illuga á forsendum eiginhagsmuna. Ólíklegt er hins vegar að þessi útgáfa af viðskiptum þeirra Hauks og Illuga nokkurn tímann verði sönnuð.
Fyrri útgáfan af sannleikanum um viðskipti þeirra Illuga og Hauks er því líklegri til að verða ofan á, sama hversu ótrúverðug hún kann að hljóma. Hagsmunaárekstrar Illuga í málinu blasa hins vegar líka við í þeirri útgáfu: Var Illugi að vinna sem kjörinn fulltrúi íslensku þjóðarinnar í Kína, var hann þar sem launaður fulltrúi Orku Energy eða jafnvel bara bæði?
Athugasemdir