Ég hef átt mér töfratölu síðan ég var tíu ára gömul. Þá er ég ekki að tala um happatölu eða lottótölu heldur töfratölu varðandi þyngd og kíló. Ég var bráðþroska og hærri og þyngri en margar jafnöldrur mínar en ég var undir 45 kílóum og það var mjög mikilvægt man ég úr umræðum skólasystra minna.
Töfratalan hækkaði vissulega með aldri og þroska og hefur verið aðeins breytileg milli ára en hún hefur alltaf verið að minnsta kosti fimm kílóum undir minni raunverulegu þyngd. Ég komst næst henni þegar ég var 18 ára eftir viku á súpukúrnum svokallaða þar sem ég borðaði tæra grænmetissúpu í öll mál. Ég man eftir að hafa staðið á vigtinni í líkamsræktarstöðinni og verið ofsaglöð í nokkrar sekúndur yfir hvað ég var komin nálægt töfratölunni. Þá snarféll gengið um fimm kíló þar sem ég hugsaði með mér að kannski væri töfratalan aðeins lægri en þetta. Ég fann jú ekki fyrir svo miklum breytingum á lífi mínu.
Töfratalan hefur yfirleitt verið sveipuð dýrðarljóma. Þvílík ævintýri sem biðu mín þegar ég næði töfratölunni! Ég yrði margfalt fallegri, sjálfsöruggari og hamingjusamari. Passaði í öll föt í öllum búðum, gæti farið í magaboli og þrönga kjóla og bikini og stutt pils. Yrði elskuð og dáð af karlmönnum og myndi stunda kynlíf með ljósin kveikt og á hvolfi. Stæði brosandi framan í spegilinn í fremstu röð í líkamsræktarsalnum og yrði ávallt fyrst á dansgólfið.
„Ef vigtin fór upp þá leið mér illa. Ef hún fór niður þá leið mér vel.“
Merkilegt nokk virtist það alveg fara framhjá mér að vinkonur mínar sem voru grannar voru ekkert síður í vandræðum með að eignast kærasta eða fullkomnar gallabuxur. Þær voru ekkert sjálfsöruggari, hamingjusamari eða ánægðari með líkama sinn en ég. En ég öfundaði þær óendanlega af grönnum vexti og litlum kílóafjölda.
Ég hafði tröllatrú á því að ég myndi ná töfratölunni. Einhvern daginn. Jafnvel þótt ég fjarlægðist hana alltaf meir og meir. Beið með að kaupa mér dýr föt því þau myndu jú fara mikið betur í minna númeri, þegar ég væri komin í töfratöluna. Beið með að fara í jóga af ótta við að geta ekki gert allar æfingarnar, það myndi ég jú geta þegar ég væri komin í töfratöluna. Beið með að fara á blint stefnumót sem mér var boðið á, það yrði svo miklu betra og vænlegra til vinnings með töfratölunni.
Ég hef í gegnum árin lagt mikið á mig til að ná töfratölunni en það hefur verið svolítið eins og að labba í mjög sterkum mótvindi. Nokkur skref í rétta átt og svo fýk ég og þeytist út í buskann, lengra og lengra og lengra í burtu frá henni. Því á eftir hverjum megrunarkúr (og þeir eru margir) hef ég nefnilega yfirleitt þyngst um sirka tvisvar sinnum kílóin sem ég tapaði og það á skömmum tíma. Stundum hef ég orðið mjög upptekin af töfratölunni og hún stjórnað lífi mínu með harðri hendi. Vigtað mig jafnvel oft á dag. Ef vigtin fór upp þá leið mér illa. Ef hún fór niður þá leið mér vel. Alveg óháð því hversu heilbrigðu lífi ég lifði.
Það var eiginlega alveg ótrúlega seint sem ég áttaði mig á að mögulega a) gæti ég orðið ákaflega hamingjusöm án töfratölunnar og b) að jafnvel með töfratölunni yrði ég ef til vill ekkert sérstaklega hamingjusöm.
Í dag veit ég ekkert hvað ég er þung. Það var með betri ákvörðunum sem ég hef tekið að setja ekki ný batterí í fínu vigtina mína þegar þau kláruðust. Ég veit að ég er tugum kílóa frá töfratölunni. En það merkilega er að – mér líður ágætlega með sjálfa mig. Miklu betur heldur en nokkurn tímann í eltingarleiknum við töfratöluna. Ég er ennþá að eltast við að fá nægan svefn, borða hollan mat og að hreyfa mig meira, enda á líkami minn skilið virðingu og umhyggju. En töfratalan – hún er ekki til.
Athugasemdir