Nei, ég vil ekki að þið seljið bankana mína.
Fyrst þarf að skilja á milli viðskipta- og fjárfestingar í þeim öllum. Svo þarf að gera einn að samfélagsbanka. Síðan skulum við íhuga sölu í smáum skömmtum. Hægt og rólega.
Nei, ég vil ekki að þið seljið orkufyrirtækin mín. Rafmagn og hiti er lífsnauðsyn. Það hefur hvergi gefist vel að einka(vina)væða lífsnauðsynjar. Þá hættir almenningur að hafa efni á þeim. Sjáið bara hvernig einkarekstur matvöruverslana gengur. Hæsta matvöruverð sem um getur.
Nei, ég vil ekki að þið seljið eignir mínar í Lindarhvoli ehf. Ekki fyrr en þið sleppið ehf-inu og farið með eignirnar undir stjórnsýslulög og hafið algjört gegnsæi. Ég vil vita hvað þið eruð að gera við þessar eignir mínar og hverjum mögulega má selja.
Nei, ég vil ekki að þið einkavæðið meira í heilbrigðisþjónustu. Nóg komið. Það þarf að endurskilgreina þjónustuna frá grunni. Ekki taka illa undirbúnar skyndiákvarðanir um heilsugæslu fyrst án þess að gera henni kleift að bregðast við. Það bitnar bara á fólkinu sem þarfnast þjónustunnar. Munið að almenningur er ekki reitur í excelskjali. Við erum fólk og ykkur ber að koma fram við okkur af virðingu.
Nei, ég vil ekki borga vegtolla ef ég bregð mér af bæ. Bifreiðaeigendur greiða 70 milljarða á ári í skatta og gjöld. Það nægir ríflega fyrir uppbyggingu og viðhaldi vega.
Og það er óheiðarlegt að blekkja fólk með upphæðum í fjárlögum þar sem - auk vegaframkvæmda - eru líka hafnir, vitamál og sértæk göng fyrir stóriðju sem hefur ekkert með veganotkun almennings að gera.
„Ég vil ekki selja gömmum og húsaleigufélögum íbúðarhúsnæði“
Nei, ég vil ekki selja gömmum og húsaleigufélögum íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins eins og Íbúðalánasjóður gerði.
Það var skandall.
Ekki heldur húsin í eigu okkar eins og Viðskiptaráð vill og leigja þau svo aftur á okurverði. Það er glapræði. Það sárvantar húsnæði og það minnsta sem þið getið gert er að vernda íbúa landsins gegn gróðabröskurum.
Fleira var það ekki að sinni.
Fyrst birt á Facebook-síðu höfundar.
Athugasemdir