Nú um helgina fer í hönd ein stærsta ferðahelgi sumarsins og margar hátíðir fara fram, hér og þar um landið. Ein af þeim hátíðum er Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum þar sem reikna má með að verði allt að 20.000 manns.
Þessi hátíð er ekkert frábugðin öðrum útihátíðum og sennilega ein sú elsta sinnar tegundar á landinu og sem betur fer er þetta yfirleitt skemmtileg upplifun fyrir flesta. Því miður má þó einnig gera ráð fyrir því að upp komi ýmis mál sem þurfa afskipti bæði lögreglu, heilbrigðisstarfsfólks og annarra viðbragðsaðila á svæðinu.
Þetta geta verið bæði afmörkuð og til að gera einföld mál sem viðbragðsaðilum þykir í sjálfu sér ekki flókið að takast á við þó alltaf taki þau sinn toll. Þetta geta líka verið flókin, alvarleg og umfangsmikil mál sem viðbragðsaðilum þykir erfitt að takast á við. Slík mál geta t.d. verið kynferðisbrotamál. Mál sem eru viðkvæm í umræðu. Viðkvæm í meðhöndlun og rannsókn. Viðkvæm fyrir þá sem að þeim koma og einstaklega erfið fyrir þá sem eru brotaþolar slíkra mála.
Kynferðisbrot eru alltaf flókin og erfið í sjálfu sér og hafa alvarlegar afleiðingar fyrir þá sem þeim eru beittir, á því leikur enginn vafi. Þess vegna er mikilvægt að vel sé að því staðið hvernig þeim er sinnt þegar upp um þau kemst. Mikilvægt er að vel sé staðið að þjónustu við brotaþola. Vel sé staðið að rannsókn málsins og að bæði lögregla og aðrir fái þann vinnufrið sem nauðsynlegur er til að sem best verði úr málum unnið. Þetta eru einmitt rök lögreglustjóra Vestmannaeyja í bréfi þar sem hún brýnir fyrir öllum þeim viðbragðsaðilum sem að Þjóðhátið koma, að gefa fjölmiðlum ekki upplýsingar um það HVORT kynferðisbrot hafi átt sér stað á hátíðinni. Þessi rök og að það sé „þungbært fyrir aðila kynferðisbrots að málið sé á forsíðum blaðanna“.
Ég get tekið undir þau orð að æsifréttamennska um einstök mál getur verið erfið fyrir brotaþola og haft erfiðar tilfinningar í för með sér. Það er hins vegar enn alvarlegra ef viðbragðsaðilar hátíða, hvort sem um ræðir lögreglu eða aðra, ætla að taka þátt í því að þagga niður kynferðisbrot. Að því sögðu er að sjálfsögðu einnig mikilvægt að við sem vinnum að þessum málum og komum að kynferðisbrotum, með hvaða hætti sem það kann að vera, biðlum til fréttamiðla að vanda alla umræðu um slík mál. Að við komum því á framfæri að þessi mál þarf að ræða með virðingu fyrir brotaþolum í huga.
Þá skiptir engu máli hvort málin koma upp í samhengi við Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum, aðrar útihátíðir eða einhverjar allt aðrar aðstæður.
Kynferðisbrot eru alvarleg ofbeldisbrot og brotaþolar þeirra eiga það ekki skilið að yfir þeim sé þagað. Þeir eiga það skilið að frá þeim sé sagt. Að frá þeim sé sagt með virðingu fyrir brotaþolum og með áherslu á að ofbeldi er ávallt á ábyrgð þess sem því beitir. Við sem samfélag skulum ekki taka þátt í því að þagga niður ofbeldisbrot, hvort sem um ræðir kynferðisofbeldi eða annars konar ofbeldi. Við skulum ekki velja að taka þátt í því að ýta undir skömm og sektarkennd brotaþola eða ábyrgðarfirringu gerenda með því að þegja um kynferðisbrotamál. Sýnum brotaþolum kynferðisbrota þá virðingu að tala um þessi brot, rétt eins og við segjum frá tölfræði annarra brota.
Ingibjörg Þórðardóttir félagsráðgjafi, ráðgjafi og stjórnarkona hjá Aflinu, samtökum gegn kynferðis- og heimilisofbeldi
Athugasemdir