Um daginn var ég sem oftar að lýsa óánægju minni á Facebook með hina nýju ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar. Þá dúkkaði einhver upp og fór að gera gys að mér – voðalega sem ég væri tapsár að geta ekki sætt mig við að mín óskaríkisstjórn hefði ekki komist á koppinn, ég yrði bara að sætta mig við þetta, hahaha, asninn þinn, og gott ef ég var ekki líka sakaður um að virða ekki lýðræðislega niðurstöðu kosninganna.
Þennan síðasta punkt hef ég séð víðar á kreiki nú eftir myndun stjórnar Bjarna Ben. Að þau „virði ekki lýðræðið“ sem haldi áfram að hamast eins og naut í flagi út í nýju ríkisstjórnina.
Þetta er sjónarmið sem ég er algjörlega ósáttur við og finnst reyndar afar varasamt. Það er auðvitað nákvæmlega ekkert „ólýðræðislegt“ við að berjast frá fyrsta degi gegn ríkisstjórn sem maður er ekki sáttur við.
Það getur verið kurteislegt eða jafnvel skynsamlegt að gefa nýrri stjórn tíma til að sýna á spil sín – eins og það heitir nú til dags – en það er ekkert ólýðræðislegt að kjósa harða andstöðu frá fyrsta degi. Og ég vara eindregið við því að slíkur skilningur komist á kreik.
Það getur endað með ósköpum. Í Póllandi komst til valda ríkisstjórn sem fullyrti að í krafti meirihluta síns á þingi, þá gæti hún gert það sem henni sýndist. Fólk hefði kosið hana í lýðræðislegum kosningum og þar með væri ólýðræðislegt að berjast gegn hverju því sem stjórninni þóknaðist að gera.
Við erum auðvitað ekki komin þangað – en skulum passa okkur á að hnusa ekki einu sinni í þá átt.
En svo er þetta með að vera tapsár. Kannski, ég veit það samt ekki alveg. Ég skal viðurkenna að mér þykir afar súrt í brotið að nú þegar fólk er ögn að vakna til vitundar um að hin óhefta frjálshyggja Sjálfstæðisflokksins á sumum sviðum – en pilsfaldaspilling á öðrum – að þessi stefna gangi ekki, einmitt þá skuli flokkurinn leiddur til öndvegis í samfélaginu með alla sína vafninga og skattaskjól.
En látum það samt liggja milli hluta, það munu því miður gefast næg tækifæri til að fjasa út í þá stefnu ríkisstjórnarinnar.
En það sem veldur því að ég mun aldrei geta sætt mig við þessa ríkisstjórn, það er framferði Bjarna Benediktssonar í aðdraganda kosninga – þegar hann stakk mikilvægri skýrslu undir stól – og þegar hann laug í sjónvarpsviðtali um þá sömu skýrslu.
Að stinga skýrslunni undir stól og hafa með því óeðlileg áhrif á kosningabaráttuna á ögurstundu, það finnst mér nálgast að vera glæpur.
Að ljúga svo blákalt í viðtalinu við RÚV, það lýsir hins vegar þvílíku skeytingarleysi um góða siðu í stjórnmálum, að ég get einfaldlega ekki og mun aldrei geta sætt mig við að slíkur maður, sem Bjarni Benediktsson opinberaði þarna, sé verðlaunaður með embætti forsætisráðherra.
Og ég get heldur ekki sætt mig við að þessi óheiðarlegi maður hafi fengið heiðarlegt fólk, eins og Óttar Proppé og Pawel Bartoszek, til að fallast á að hann olnbogi sig í æðsta embætti landsins og sitji þar eins og fínn maður. Og Óttarr lætur sig hafa að muldra eitthvað um að jú, kannski hefði verið „skemmtilegra“ ef hann hefði lagt fram þessa skýrslu.
Þannig hefur óheiðarleiki Bjarna varpað skítugum skugga yfir allt hans umhverfi.
Og Bjarni heldur áfram að fótumtroða almennilegt stjórnmálasiðferði. Hann fimbulfambaði í viðtali við RÚV um að skýrslan hefði ekki verið birt á sínum tíma af því það hefði verið „í hans huga“ að hún þyrfti fyrst og fremst að fá vandaða umfjöllun á Alþingi.
En nú þegar alþingisnefnd ætlar að taka skýrsluna til umfjöllunar, þá sýnir Bjarni Benediktsson þá fádæma ósvífni að neita að koma fyrir nefndina. Málið sé útrætt af sinni hálfu, því hann hafi rætt það í fjölmiðlum.
Væntanlega þá í þeim viðtölum þar sem hann sagði varla satt orð!!
Nei, fyrirgefiði, krakkar mínir, ef ykkur finnst sómi að því að slíkur maður sé forsætisráðherra, þá þið um það. Ég mun hins vegar berjast gegn þessari óhreinu stjórn, alltaf og ætíð. Kosti það að vera kallaður asni, þá það. Ég skammast mín bara of mikið.
Athugasemdir