Í októbermánuði fór ég ásamt samstarfskonum mínum í nokkra framhaldsskóla á höfðborgarsvæðinu með líkamsmyndarnámskeið fyrir stúlkur. Námskeiðið kallast Body Project og er gagnreynt námskeið sem hefur reynst hafa jákvæð og valdeflandi áhrif á líkamsmynd stelpna. Námskeiðin eru styrkt af Dove sjóðnum sem gerir það mögulegt að bjóða námskeiðin ókeypis öllum áhugasömum stúlkum innan ákveðinna aldursmarka.
Á námskeiðunum erum við að skoða ríkjandi útlitsviðmið og hversu þröng, fáránleg og takmarkandi þau eru, hversu skaðlegt það er fyrir okkur að trúa því að það sé bara til ein tegund af fegurð eða að líkamlegt útlit okkar skilgreini okkur sem manneskjur, hverjir græða á því að viðhalda ríkjandi skipulagi og síðast en ekki síst: Hvað við getum gert til að breyta þessu. Námskeiðin byggjast ekki á fræðsluerindum eða margtuggnum heilræðum heldur á því að virkja pælingar og krafta stúlknanna sjálfra. Þetta eru þeirra líkamar og þeirra veruleiki.
Undanfarið hef ég því fengið að hlusta á fleiri raddir og hugmyndir ungra kvenna en daglegt líf mitt býður alla jafna upp á. Sú upplifun hefur gert mig bjartsýnni og baráttuglaðari en ég var áður. Stúlkur dagsins í dag eru nefnilega, þrátt fyrir að vera enn undir hælnum á megrunar- og fegrunariðnaðinum eins og formæður þeirra, ljósárum á undan fyrri kynslóðum hvað vitund og skilning á þessum málum snertir.
Þegar ég var unglingur var nákvæmlega engin umræða um ríkjandi gildismat hvað varðar líkamsvöxt og útlit kvenna. Háar, grannar, leggjalangar, mittismjóar og brjóstgóðar konur voru hin óvéfengjanlega ímynd kvenlegrar fegurðar. Sú ímynd var jafn ósnertanleg og hvert annað náttúrulögmál. Efasemdir um þetta þóttu aðeins opinbera biturleika þeirra sem ekki pössuðu í mótið.
„Í dag eru stelpur fullkomnlega meðvitaðar um að ríkjandi útlitsstaðlar séu rugl þrátt fyrir að þeir hafi náð inn að beini og sáð fræjum óöryggis og óhamingju í hjörtu þeirra.“
Í dag eru stelpur fullkomnlega meðvitaðar um að ríkjandi útlitsstaðlar séu rugl þrátt fyrir að þeir hafi náð inn að beini og sáð fræjum óöryggis og óhamingju í hjörtu þeirra. Þær eru samt búnar að tengja saman punktana. Þetta er eins og að búa við mengað vatnsból. Þær neyðast kannski áfram til að drekka vatnið, því það er ekkert annað í boði, en þær vita þó að það er skaðlegt. Næsta skref er svo að henda sér í að laga ástandið. Algengasta tilfinningin sem kemur upp á námskeiðunum er pirringur. Það er mjög gott. Stelpurnar tala um hversu óþolandi það sé að þetta skuli ennþá vera svona þegar allir viti að þessir staðlar séu fáránlegir. Markmiðið með námskeiðunum er að veita þeim verkfæri og valdeflingu til að fara út og pönkast í þessu umhverfi.
Það er ekki nokkur vafi í mínum huga um að sú fáránlega og fjandsamlega hugmynd að einungis ákveðnir líkamar hafi tilverurétt muni breytast með þessari kynslóð. Það eru stelpur dagsins í dag sem munu taka þennan slag og vinna hann.
Bara í síðustu viku komu upp tvö atvik sem benda til þess að byltingin sé þegar hafin. Ung kona varð vitni að fitusmánandi tali tveggja annarra um líkama þeirrar þriðju. Hún póstaði atvikinu á Facebook og þaðan rataði málið í fjölmiðla með skýrum skilaboðum til allra þarna úti: Fitusmánarar beware! Það er fylgst með ykkur! Svona aðgerð hefði verið óhugsandi fyrir örfáum árum síðan. Þá vissum við ekki einu sinni hvað fitusmánun var. Tveimur dögum eftir þetta kom svo Framhaldsskólablaðið út með hvorki meira né minna en þremur líkamsvirðingartengdum greinum. Það að næsta kynslóð sé farin að ögra ríkjandi gildismati, mótmæla líkamssmánun og tjá sig með fullmótuðum líkamsvirðingarhugmyndum gleður mig meira en orð fá lýst.
Næsta bylting í lífum kvenna verður að losna undan feðraveldisskilgreiningum á útliti okkar. Við eigum rétt á að lifa frjálsar í eigin skinni. Megi Body Project námskeiðin verða olía á þann eld og ýta frelsisþróuninni áfram. Námskeiðin verða áfram í boði eftir áramót og allan næsta vetur. Skráning fer fram á likamsmynd@gmail.com og frekari upplýsingar eru á www.facebook.com/bodyprojectisland.
Heimurinn er ykkar stelpur, þið eruð með þetta!
Athugasemdir