Nú eru allir hættir að fara í spariföt á sautjánda júní. Fólkið fer í flís – efni sem er búið til úr aflóga plasti. Hátíðleikinn er í samræmi við þennan hátíðarbúning.“ - Egill Helgason, bloggari og þáttarstjórnandi
Það hefur sjaldan verið jafngreinilegt og í dag að tveir hópar eru að takast hugmyndafræðilega á í samfélaginu. Þetta eru ekki hægri- og vinstrimenn, ekki meint Baugs- eða samfylkingar-fólk og Sjálfstæðismenn, ekki hernaðarsinnar og friðarsinnar, eða náttúruverndarsinnar og virkjanasinnar.
Þetta eru siðprúði meirihlutinn og „skríllinn“.
Siðprúði meirihlutinn hefur stöðugar áhyggjur af skrílnum. Þessi átök koma stöðugt upp í samfélögum. Einu sinni höfðu hinir siðprúðu áhyggjur af dansi skrílsins og tónlist skrílsins, svo klæðnaði skrílsins. Auk þess snúa áhyggjurnar að gildum skrílsins - skorti á þjóðrækni, samstöðu og ábyrgðartilfinningu gagnvart því að viðhalda samfélaginu í þeirri mynd sem það er.
Nú til dags hafa fulltrúar siðprúða meirihlutans á Íslandi stöðugar áhyggjur af tjáningu og orðfæri skrílsins sem finna má á netinu. Þeir skrifa leiðara og halda hátíðarræður um það það hversu óstöðugur og óheflaður skríllinn er í tjáningu sinni, sjálfum sér verstur, þegar hann ætti að vera jákvæður og standa með leiðtogum í vinnu þeirra við að bæta samfélagið.
Hinir siðprúðu eru íhaldssamir, þjóðræknir og oft trúaðir - ef ekki á guð, þá á að heimurinn sem við lifum í sé besti mögulegi heimur og því beri að láta hlutina ganga sinn vanagang.
Gremja skrílsins
Þeir krefja skrílinn um jákvæðni og samstöðu - vilja umfram allt að skríllinn valdi ekki truflun á tilveru þeirra. Oft snúast átökin um að skríllinn reynir að komast undan valdi hinna siðprúðu og hinir síðarnefndu reyna að koma böndum á atferli skílsins.
Stundum missa sumir fulltrúar siðprúða meirihlutann sig í þjóðrækninni og verða rasískir. Stundum verða þeir svo ósáttir yfir samstöðuleysinu að þeir hreyta einhverju í skrílinn. „Vona að þetta fólk geti rifið hausinn út úr rassgatinu á sér bara þennan eina dag,“ sagði ein hinna siðprúðu um skrílinn á þjóðhátíðardaginn. Þjóðin „á að halda upp á þann dag á sómasamlega hátt, án gremju og reiði. Það er örugglega vilji meirihluta landsmanna,“ sagði önnur í leiðara.
„... á að halda upp á þann dag á sómasamlega hátt, án gremju og reiði.“
Siðprúðir eru saklausir gagnvart því að spilling getur myndast og að sérhagsmunir geti skaðað samfélagið. Þeir hafa litlar áhyggjur af þeim hópum sem hafa ekki hag af ríkjandi fyrirkomulagi eða telja það óréttlátt. Svik á kosningaloforðum fyrir sérhagsmuni og hagsmunaáresktrar þeirra sem stjórna eru bara það sem vænta má.
„Af hverju getum við ekki bara staðið saman?“ er svar hinna siðprúðu. Þegar meðlimir siðprúða meirihlutans vilja stöðva umræðu sem hentar þeim ekki segja þeir: „Aðgát skal höfð í nærveru sálar.“
Siðprúður, hávær minnihluti
Richard Nixon Bandaríkjaforseti talaði um að hann væri fulltrúi „þögla meirihlutans“ þegar hann vildi verða forseti. En siðprúði meirihlutinn á Íslandi er ekki þögull. Hann er reyndar ekki heldur meirihluti þegar allt kemur til alls.
Þeir sem við heyrum mest í eru gjarnan fulltrúar hins háværa, íhaldssama minnihluta: Stjórnmálamenn, og svo ritstjórar eða aðrir fjölmiðlamenn, sem hafa verið valdir af eigendum fjölmiðlanna.
Með tímanum þróast það þannig að eigendur eða stjórnendur fjölmiðla, sem almennt koma úr þeim hópi samfélagsins sem á mesta peninga og er í sterkustu stöðunni í þjóðfélaginu, ráða ritstjóra og fulltrúa sem styðja íhaldssöm gildi og tortryggja breytingar. Gjarnan endurspegla þeir hagsmuni eigendanna og/eða gildismat. Það nægir að skoða breytingar á yfirstjórn fjölmiðla á síðustu árum í samhengi við hagsmuni.
Á næstu árum er líklegt að það gildismat verði ofan á, sem kveður á um að gagnrýni sé slæm og að umræðu þurfi að minnka til að særa ekki sálir og skerða ekki samstöðuna. Háværi, íhaldssami minnihlutinn hefur það hlutverk að veita skrílnum taumhald.
Hann segir: Í dag má ekki að mótmæla, eins og Jón Sigurðsson, heldur sýna jákvæðni og hafa aðgát í nærveru sálar. Á Austurvelli stóð síðan forsætisráðherrann á afgirtu hátíðarsvæði þjóðarinnar, þar sem þjóðinni var haldið utangarðs, og flutti enn eina ræðuna sína um mikilvægi jákvæðni í hans garð.
Athugasemdir