„Á venjulegum tímum væri eðlilegt að hætta eftir fjögur kjörtímabil,“ sagði Ólafur Ragnar á Beinni línu hjá DV fyrir forsetakosningarnar 2012. „Þjóðin er hins vegar enn að fara í gegnum óvissutíma...“ sagði hann svo og vísaði þar í óvissu um nýja stjórnarskrá, óvissu um stöðuna á Alþingi að loknum næstu þingkosningum og óvissu um samband okkar við Evrópu.
Hann sagði síðan við annað tækifæri að „hægt væri að gera sér raunhæfar vonir um að allir þessir þrír megin-óvissuþættir mundu skýrast á næstu misserum og allra næstu árum“. Skoðum hvernig það hefur tekist.
Óvissan um stöðuna á Alþingi að loknum þingkosningunum
Framsóknarflokkurinn fékk næstflest atkvæði í Alþingiskosningunum árið 2013, en fékk þrátt fyrir það umboð Ólafs Ragnars til stjórnarmyndunar. Rökstuðningur forsetans var klamburslegur og hann viðurkenndi seinna að Framsókn hefði fengið umboðið vegna loforða sinna, en það kom fram í máli hans á málþingi London School of Business.
Niðurstaðan hefði vart getað verið betri fyrir Ólaf Ragnar.
Framsóknarflokkurinn er samstíga honum í flestum málum og gætir þess vel að ekkert sé gert sem þrengir að forsetaembættinu.
Óvissan um samband okkar við Evrópu
Við setningu Alþingis árið 2013 greindi forsetinn þingheimi frá viðræðum sínum við fjölmarga (ónafngreinda) evrópska áhrifamenn. Hann sagði þá hafa fullvissað sig um að ESB hefði hreinlega ekki áhuga á að ljúka aðildarviðræðum við Ísland. Þessu hafnaði framkvæmdastjórn ESB daginn eftir og sagði Íslandi standa allar dyr opnar.
Seinna í sama mánuði sagði Ólafur Ragnar við Rúv að orð sín hefðu verið misskilin, en erfitt er að sjá að það standist. Þau voru mjög afdráttarlaus. Hann bætti við að það væri óábyrgt af þjóðinni að fara í viðræður við ESB í einhverjum leikaraskap einungis til að sjá hvað væri í boði. Við yrðum að passa upp á orðspor okkar og sækja ekki um aðild nema við meintum það í alvöru.
Óvissan um nýja stjórnarskrá
Ólafur Ragnar fagnaði tillögum stjórnlagaráðs ákaft og sagði að þær færðu forsetaembættinu aukna ábyrgð. Þegar í ljós kom að hann hafði misskilið tillögurnar – og í raun væri verið að flytja völd frá forseta til þjóðarinnar – virðast hafa runnið á hann tvær grímur.
Stjórnarskrárnefnd lagði til að kosið yrði um breytingar á stjórnarskrá samhliða forsetakosningunum 2016. Því svaraði Ólafur Ragnar fullum hálsi í síðustu þingsetningaræðu sinni og sagði tillöguna andlýðræðislega. Því næst gagnrýndi hann vinnu nefndarinnar og sagði að Íslendingar ættu nægan pening til þess að halda sérstaka kosningu fyrir stjórnarskrárbreytingar.
Ekkert hefur breyst
Ólafur Ragnar hefur á yfirstandandi kjörtímabili lagt sig í líma við að viðhalda allri þeirri óvissu sem er í boði varðandi sambandið við Evrópu og nýja stjórnarskrá – öfugt við það sem hann sagðist ætla að gera og var forsenda forsetaframboðs hans árið 2012.
Hann er á öndverðum meiði við 53.555 Íslendinga sem kröfðust þess með undirskrift sinni að fá að kjósa um áframhald viðræðna við ESB og eyða þannig óvissunni um málið. Og sama gildir um nýju stjórnarskrána. Ólafur Ragnar hefur þvælst fyrir og stóraukið líkurnar á því að Íslendingar fái ekki að kjósa um það á þessu kjörtímabili.
Af framansögðu er ljóst að forsetinn er sjálfur rót vandans. Hann heldur þjóð sinni í óvissuástandi sem mun vafalaust vara svo lengi sem Ólafur Ragnar gegnir embætti forseta.
Athugasemdir