Þótt margt virðist vera óljóst í nauðgunarmálinu í Hlíðunum liggja nokkur atriði ljós fyrir.
1. Íbúð meints nauðgara í Hlíðunum var ekki útbúin til nauðgana, þótt Fréttablaðið segi það. Það er hægt að álykta þetta út frá því að það er nánast útilokað að sanna að búnaður eða tól sem fundust á heimilinu væru ætlaðar til nauðgana, nema að sanna nauðganirnar sjálfar. Því til þess þyrfti að sýna fram á ásetning, sem er eitt helsta grundvallaratriði réttarkerfisins. Í forsíðufyrirsögninni „Íbúð í Hlíðunum var útbúin til nauðgana“ virðist blaðið í raun hafa verið að gefa sér niðurstöðuna í órannsökuðu lögreglu- og dómsmáli.
2. BDSM-kynlíf er ekki nauðgun. Samþykki er forsenda þess. BDSM-tól eru ekki nauðsynlega nauðgunartól. En það er hægt að nota þau við nauðgun, eins og það er hægt að nota sófa við nauðgun.
3. Umræða um réttlætismál er sjálfsögð í heilbrigðum samfélögum. Þegar lögreglan reynir að koma í veg fyrir umræðu um glæpamál með því að þegja um þau og svara ekki fjölmiðlum er hún stundum að forðast óþægilega umræðu um sjálfa sig. Hún getur borið fyrir sig trúnað í eiginhagsmunaskyni. Svaraleysi lögreglunnar getur hins vegar valdið því að umræðu á röngum forsendum sé viðhaldið. Frekar en að reyna að þagga hana niður gæti lögreglan stundað virka og heilbrigða upplýsingagjöf.
4. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fékk HIV-smitaðan mann dæmdan í gæsluvarðhald fyrir nokkrum vikum á grundvelli „rannsóknarhagsmuna, síbrota og hættusjónarmiða“, á meðan lögreglan ynni að frumrannsókn málsins. Hann þótti sem sagt hættulegri en þeir sem eru grunaðir um að nauðga konum meðvitað.
5. Við vitum ekki hvort þeir grunuðu í málinu í Hlíðunum eru sekir. Við vitum hins vegar að fólk er sett í gæsluvarðhald grunað um mun vægari glæpi – glæpi án fórnarlambs eða nytjastuld, fremur en árás á líkama og sál fólks. Lýsingar á skipulegum eða hrottafengnum aðferðum við nauðganir getur réttlætt gæsluvarðhald á grundvelli almannahagsmuna. Hér er nánar fjallað um forsendur gæsluvarðhaldsúrskurða.
6. Ef menn eru úrskurðaðir í gæsluvarðhald og reynast síðan ekki sakfelldir, þarf ríkið að greiða jafnvel milljónir króna í miskabætur.
7. Þótt menn sem kærðir hafa verið fyrir nauðgun taki sér gjarnan stöðu fórnarlambs er alls ekki auðvelt að fá einhvern dæmdan fyrir nauðgun. Samkvæmt rannsókn var til dæmis sakfellt í aðeins 12 prósent tilkynntra kynferðisbrota árin 2008 til 2009.
8. Umræðan um nauðgunarmálið er langt frá því að vera eins og Lúkasarmálið, þar sem ákveðinn maður var sakaður á netinu um að drepa hund (sem reyndist lifandi). Ástæðan fyrir því að fólk mótmælir lögreglunni er að hún tekur gjarnan burðardýr og smáþjófa mun harðari tökum en menn sem eru grunaðir um alvarlegar nauðganir. Þetta er stórt samfélagsmál sem var lengi vel undir þöggun, en ekki bara meint hundshvarf, óháð því hvaða afstöðu fólk hefur á endanum.
9. Það er markvisst verið að hræða fólk frá því að kæra nauðgun þegar það telur sig verða fyrir henni. Lögreglumaður og ökukennari á sextugsaldri, sem fór með nítján ára fyrrverandi nemanda sínum upp á hótelherbergi og gerði nokkuð sem hún kærði sem nauðgun, hefur kært hana fyrir rangar sakargiftir. Lögmenn virðast núna meta það sem svo að sókn sé besta vörnin fyrir þá sem eru grunaðir um nauðgun. Þeim finnst jafnvel alltof mikið verið að tala um kynferðisbrot og vilja meiri þögn. Í málinu í Hlíðunum eru tvær kærðar fyrir rangar sakargiftir á sama tíma og verið er að rannsaka brot á þeim. Fyrir okkur sem samfélag þýðir þetta að þau sem verða fyrir kynferðisbrotum standa ekki einungis frammi fyrir 12 prósenta líkunum, heldur líka líkum á því að verða sjálf fyrir rannsókn fyrir að kæra kynferðisbrot ef þau falla í 88 prósentin. Það er ekki mjög langt síðan byrjað var að reyna að skila skömminni frá þolendum yfir til gerenda, en núna snýst þetta um að meintir gerendur og lögmenn þeirra færa glæpinn yfir á þolendurna.
Athugasemdir