Segjum sem svo að ég hefði gerst sek um að nauðga einhverjum. Dæmið er ekki svo fjarstæðukennt með tilliti til þess að kynferðisbrot eru reglulega framin gegn fólki sem við þekkjum – af fólki sem við þekkjum. Sama hversu illa okkur kann að vera við kynferðisofbeldi eru gerendurnir ekki skrímsli heldur samtíðarfólk okkar sem við höfum umgengist, treyst, jafnvel talið til ástvina.
Segjum sem svo að ég vildi axla ábyrgð á broti mínu og verða betri manneskja – manneskja sem nauðgar ekki. Það er ekki heldur svo fjarstæðukennt dæmi, því fæstir þeirra sem fremja kynferðisbrot eru sturlaðir siðblindingjar. Segjum að ég hafi kynnt mér niðurstöður rannsókna sem benda til þess að sálfræðimeðferð dragi úr líkum á því að ég beiti aðra kynferðisofbeldi um allt að helming. Þetta væri álitlegur kostur fyrir einstakling í minni stöðu því refsing ætti fyrst og fremst að snúast um betrun, ekki satt? Samfélagslegi ávinningurinn af því að senda kynferðisbrotamann í sex mánaða betrunarvist (sem mörgum fyndist þó hróplega stuttur tími) er mun meiri en hlytist af því að dæma sama einstakling til tveggja ára refsivistar sem skilaði honum nákvæmlega eins út í samfélagið á ný, nema kannski svolítið forhertari en áður. Fæstir verða að betri manneskjum við það eitt að húka bakvið lás og slá.
Ef ég væri í áðurnefndri stöðu, sem dæmdur kynferðisbrotamaður í leit að betrun, væru möguleikar mínir sárgrætilega takmarkaðir. Hjá Fangelsismálastofnun eru tvær stöður sálfræðinga sem ætlað er að þjónusta þá sex hundruð einstaklinga sem nú afplána dóm innan og utan fangelsisveggja. Þótt sú staðreynd sé grafalvarleg út af fyrir sig er aðeins önnur þessara staða mönnuð þegar þetta er ritað. Það þýðir að ég hefði aðeins aðgang að einum sálfræðingi á vegum fangelsisyfirvalda, sem er jafnframt ætlað að sinna öllum föngum á höfuðborgarsvæðinu, á Kvíabryggju og Litla-Hrauni. Með fullri virðingu fyrir viðkomandi sálfræðingi þyrfti ofurmannlega krafta til að anna slíkum fjölda, jafnvel þótt einungis hluti fanganna sæki rétt sinn til sálfræðiþjónustu. Meira að segja þótt báðar stöðurnar væru mannaðar.
Til viðbótar við þá fanga sem sækjast sjálfviljugir eftir meðferð hafa tvívegis fallið dómar að undanförnu þar sem refsingin var skilorðsbundin gegn því að viðkomandi sætti sálfræðimeðferð. Þetta ætti að vera fagnaðarefni með tilliti til betrunarsjónarmiða, ef ekki væri fyrir þann stóra misbrest að óljóst er hver á að taka verkið að sér. Engu fé hefur verið varið í slíkt meðferðarúrræði og ljóst er að sálfræðiþjónusta Fangelsismálastofnunar er blóðmjólkuð nú þegar. Þar vinna þó ofurhugar sem leggja sig í líma við að viðhalda og þróa þjónustuna, þrátt fyrir fjármagnsskortinn. Þar á meðal er sérfræðingur í 80% stöðu sem er nú að skrifa handbók um mat og meðferð kynferðisbrotamanna, til viðbótar við að sinna meðferð þeirra í hjáverkum, án endurgjalds þegar svo ber undir. Ekki nóg með að yfirvöld skuli ganga á velvild og langlundargeð þessara starfsmanna, heldur voru þeir líka sniðgengnir á síðustu fjárlögum. Að öllu óbreyttu mun áðurnefnd sérfræðistaða því leggjast niður við næstu áramót.
Enn og aftur opinberast að fækkun kynferðisbrota er ekki forgangsverkefni í augum þeirra sem halda utan um pyngjuna. En hvað viljum við raunverulega spara, sem samfélag? Krónurnar og aurana sem færu annars í að hjálpa föngum að ráðast að rót vandans í fari sínu – eða þjáningu þolanda sem hlífa hefði mátt við ofbeldi?
Segjum sem svo að ég hefði gerst sek um að nauðga einhverjum og vildi axla ábyrgð á broti mínu. Samfélagið ætti að forgangsraða meðferð fyrir mig, þótt ekki væri nema til þess að draga úr ógn við aðra þegna. Í kaupbæti væri sá möguleiki að úr mér yrði betri manneskja, kannski einhver sem þú gætir hugsað þér að umgangast í framtíðinni, treysta eða jafnvel telja til ástvinar.
Athugasemdir