Forsætisráðherra er duglegur að setja hlutina í samhengi og einfalda þannig myndina fyrir okkur hinum. Stjórnarandstaðan er til dæmis nýbúin að setja Íslandsmet í málþófi, vinstristjórnin á heimsmet í framúrkeyrslu fjárlaga og íslenska krónan er sterkasti og stöðugasti gjaldmiðill í heimi.
Hann hefur líka verið óhræddur við að setja eigin verk í heimssögulegt samhengi og notar gjarnan mælistiku Íslandssögunnar til að fella dóma um verk annarra. Hér verða nokkrar yfirlýsingar Sigmundar Davíðs um verstu og bestu ríkisstjórnirnar brotnar til mergjar.
Versta ríkisstjórn Íslandssögunnar
„Ríkisstjórnin stefnir í að vera ein versta ríkisstjórn Íslandssögunnar,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins árið 2009 og vísaði þar í fyrstu mánuði ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur sem hann sagði gera allt öfugt. Þessa djörfu fullyrðingu rökstuddi hann svo með tali um að alla verðmætasköpun vantaði og að aldrei væri þörfin meiri en nú.
Aðeins ár var liðið frá því að efnahagur þjóðarinnar hrundi eins og spilaborg og því var samanburðurinn við slæmar ríkisstjórnir ekki langt undan. Sigmundur Davíð var hins vegar viss í sinni sök; Jóhanna var verri.
„Tjónið af þessari ríkisstjórn er orðið meira en tjónið af hruninu,“ sagði hann hátt og snjallt á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins árið 2012. „Hún klikkaði á því að taka á lánamálum heimilanna, fjárfesting fór í sögulegt lágmark, atvinnuleysi hefur aukist miklu meira en það hefur þurft að gera – þegar allt þetta kemur saman er tjónið meira en af hruninu.“
Skoðum nú hvort þessar fullyrðingar standist. Atvinnulausum fækkaði í stjórnartíð Jóhönnu og því fer Sigmundur Davíð með rangt mál þar. Sjálfur mat hann það svo að heimilin þyrftu 80 milljarða til þess að geta rétt úr kútnum – en það er þá upphæðin sem Jóhanna „klikkaði á“.
Þessi upphæð er um 6,5 prósent af tjóni ríkissjóðs af hruninu ef miðað er við mat sérfræðinga AGS. Orð forsætisráðherra standast því tæplega skoðun í þetta sinn.
Besta ríkisstjórn Íslandssögunnar
„Ríkisútvarpið var stofnað við erfiðar aðstæður,“ sagði Sigmundur Davíð eitt sinn úr ræðustól á Alþingi og vísaði þar í kreppuna miklu árið 1930. „Þá var ríkisstjórn við völd [Stjórn Jónasar frá Hriflu] sem að sumra mati er besta ríkisstjórn Íslandssögunnar, hvorki meira né minna, ríkisstjórn framsóknarmanna. Þá voru framsóknarmenn einir í stjórn og höfðu verið frá árinu 1927.“
Sigmundur Davíð talaði hins vegar ekkert um smáa letrið í framkvæmd Hriflu-Jónasar; RÚV fékk einkaréttinn á útvarpsrekstri og góður og gegn framsóknarmaður var skipaður útvarpsstjóri (og var þar í 23 ár). Einokun RÚV á útvarpsmarkaði lauk árið 1986.
Með þessari tilhögun tókst Hriflu-Jónasi að koma í veg fyrir rekstur einkarekinna útvarpsstöðva, en ein slík hafði gert honum lífið leitt með stöðugri gagnrýni á störf ríkisstjórnarinnar. Þetta verk mætti vel bera saman við nýlegar aðgerðir framsóknarmanna sem hafa miðað að því að skrúfa niður í gagnrýnum röddum á DV og RÚV.
Ríkisstjórn Sigmundar Davíðs
Hvernig fóru stjórnmálaflokkarnir með umboðið sem þeir fengu í kosningunum? Svarið við þeirri spurningu hlýtur að vera besti vitnisburðurinn um ágæti stjórnvalda; efndu þau loforðin?
„Kosningaloforð sem var kallað stærsta kosningaloforð Íslandssögunnar,“ sagði Sigmundur Davíð á blaðamannafundi þar sem aðgerðir ríkisstjórnarinnar í skuldamálum heimilanna voru kynntar. „Ætli við köllum þetta þá ekki stærstu efndir Íslandssögunnar.“
Þessi fullyrðing er beinlínis röng. Sigmundur Davíð hafði nefnilega sagt beinum orðum í viðtali við Fréttablaðið – og þau er ekki hægt að skilja nema á einn veg – að 240 milljarðar færu í skuldaniðurfellinguna. Þegar kom hins vegar að skuldadögum nam útborgunin einungis 80 milljörðum.
Loforðið um að þjóðin fengi að kjósa um framhald aðildarviðræðna við ESB hafði bergmálað á vörum sjálfstæðismanna alla kosningabaráttuna og Bjarni Benediktsson, formaður flokksins, hafði lýst því sérstaklega yfir daginn fyrir kosningar að við það yrði staðið. En svo var bara ákveðið að hætta við allt.
„Menn kusu flokkinn út á þetta,“ sagði Þorsteinn Pálsson um ESB-loforðið. „Nú hefur formaðurinn ákveðið að svíkja þetta. Þetta er eitt stærsta loforð sem gefið hefur verið í íslenskum stjórnmálum og þetta eru ein stærstu svik sem gerð hafa verið í íslenskum stjórnmálum.“
Sigmundur Davíð, sem hafði einnig lofað því að þjóðin fengi að kjósa um áframhaldið, sagði fjölmiðla ganga allt of langt í gagnrýni sinni á aðgerðir stjórnvalda í þessu máli og talaði um „mestu fjölmiðlaherferð Íslandssögunnar“.
Afnám verðtryggingarinnar var næst stærsta loforð Framsóknarflokksins, en það er ekki enn komið til framkvæmda þrátt fyrir að nú séu liðin þrjú ár frá kosningum. Svipaða sögu er að segja af öðrum loforðum sem finna má í kosningabæklingi flokksins frá 2013. Lítið er um efndir.
Skoðum nú hinn endann: Ekkert var talað um 220 milljarða búvörusamning við bændur í aðdraganda þingkosninganna 2013. Ekkert var talað um fiskveiðistjórnunarkerfi til 23 ára. Ekkert var talað um að slíta ætti aðildarviðræðum við ESB, eins og Gunnar Bragi utanríkisráðherra reyndi að gera með bréfi sínu. Þetta eru allt risastór mál sem nú er pukrað um í reykfylltum bakherbergjum og kynnt almenningi eftir að búið er að skrifa undir.
Óhætt er að fullyrða að ríkisstjórnarflokkarnir hafa farið illa með umboðið sem þeir fengu frá kjósendum í kosningunum 2013. Þeir gera bara það sem þeim sýnist.
Letin kemur til bjargar
Hvort hér sé komin versta ríkisstjórn Íslandssögunnar skal ósagt látið (þó að vissulega komi hún til greina), en hitt þori ég hins vegar að fullyrða að hún heggur nærri einhvers konar sögulegu leti-meti.
Kjarninn sagði frá því að ríkisstjórnarfrumvörpin hefðu ekki verið færri í tuttugu ár. Brynhildur Pétursdóttir, þingkona Bjartrar framtíðar, sagði þennan árangur „sögulega lélegan“ og spurði í kjölfarið hvort að ráðherrar væru starfi sínu vaxnir og hvort hæstvirtur forsætisráðherra væri nógu góður verkstjóri.
Meira að segja ritstjórn DV hefur ljáð máls á þessu, en hún fjallaði nýlega um „ósýnilegu þingmennina“. Þar var tími einstakra þingmanna í ræðustóli Alþingis tekinn saman og ljósinu beint að þeim átta sem talað höfðu minnst – en það voru allt stjórnarliðar. Mér fannst greiningin heldur bragðdauf og datt í hug að skoða þetta aðeins betur sjálfur. Í ljós kom ritstjórnin hafði misst af heilum hellingi af góðum fyrirsögnum.
Til dæmis eru þeir 33 þingmenn sem minnst tala á Alþingi allir úr röðum stjórnarliða. Svo hlýtur það að teljast frásagnarvert að meðalþingmaður VG talaði fimm sinnum meira en meðalstjórnarliðinn. Og loks er það líka svolítið merkilegt að hlédrægasti píratinn talaði meira en málglaðasti framsóknarmaðurinn.
Allt ber þetta að sama brunni: Ríkisstjórn Sigmundar Davíðs er sú latasta í sögunni. Og fyrir það getum við verið þakklát.
Athugasemdir