Líklega er óhætt að fullyrða að þeir sem velja að gerast landverðir og leiðsögumenn beri ást til íslenskrar náttúru í hjarta. Hún er starfsvettvangur beggja stétta, þó á örlítið ólíkan hátt sé. Landverðir eru ráðnir á ákveðinn stað og sjá um verndunarframkvæmdir og fræðslu svo náttúran fái svigrúm til að blómstra en leiðsögumenn ferðast með hópum milli staða til að njóta þeirrar náttúru sem landverðirnir líta eftir. Báðar stéttirnar eiga enn fremur mikil samskipti við ferðamenn og mikilvægt er að þau fari vel fram svo gestirnir átti sig á hve viðkvæm íslensk náttúra er og að sýna þurfi ýtrustu gætni svo hún raskist ekki og þeir sjálfir fari sér ekki að voða.
Ýmislegt er öðruvísi hér á landi en erlendir ferðamenn eiga að venjast, til dæmis er náttúran viðkvæmari hér en víða annars staðar og hegðun eins og utanvegaakstur og ógætileg umgengni um mosa getur því haft óafturkræfar afleiðingar sem ekki allir átta sig á. Pappír og lífrænn úrgangur brotnar einnig mjög hægt eða alls ekki niður hér á landi, banana- og appelsínuhýði sem hent er á jörðina liggja þar jafnvel árum saman og sama gildir um snýtubréfið og klósettpappírinn.
Aðstæður eru síbreytilegar og stundum getur verið erfitt að skilja af hverju má ekki ganga á ákveðnum stíg eða af hverju gönguleiðin liggur yfir poll en ekki framhjá honum. Bak við slíka aðgangsstýringu landvarða eru þó jafnan rökstuddar ástæður. Sömuleiðis getur verið erfitt að skilja af hverju gestir virða ekki leiðbeiningar og merkingar en oftar en ekki er ástæðan misskilningur eða skortur á upplýsingum frekar en einbeittur brotavilji. Samskipti landvarða og leiðsögumanna við ferðamenn geta því verið jafnvægislist, jafnvel örlítið flókin, en lykillinn að farsælu samstarfi er samtal og viðleitni í þá átt að skilja sjónarmið annarra og læra af reynslunni.
Metnaðarfullur og ábyrgur leiðsögumaður ber hag náttúrunnar fyrir brjósti og leitast við að vera fyrirmynd sinna gesta svo þeir geti fylgt fordæmi hans, fylgir stígum, virðir dýra- og plöntulíf og hróflar ekki við náttúrunni. Hann veit að ekki má hrófla við neinu innan þjóðgarða og þekkir verndarsvæðin og hvaða reglur gilda þar. Þar nýtist tæknin vel og nú eru mörg svæði komin með Facebook-síður sem einfaldar mjög upplýsingagjöf.
Til fyrirmyndar er hversu margir leiðsögumenn hafa á síðustu árum tekið upp þann sið að hafa plastpoka í vasanum og tína upp rusl sem á vegi þeirra verður. Einnig hafa þeir stundum virkjað hópana sína í náttúruvernd og deilt út pokum til þeirra gesta sem vilja taka þátt í að tína rusl og sparka niður „túristavörtur“ (manngerðar litlar grjóthrúgur). Þegar vel tekst til geta hópar ferðamanna sem ferðast með umhverfissinnuðum leiðsögumanni á þennan hátt haft jákvæð áhrif á þau svæði sem þeir sækja heim. Þannig eru landverðir og leiðsögumenn saman í liði – þeir eru varðmenn íslenskrar náttúru.
Athugasemdir