Ferðamannalandið Ísland er óvenjulegt fyrir ýmsar sakir. Eitt af því sem gerir landið óvenjulegt, að minnsta kosti í samhengi við önnur Evrópulönd, er að við lauslega skoðun verður ekki betur séð en að landið hafi verið því sem næst óbyggt allt fram á okkar daga. Ferðamenn sem fara um landið sjá ekki nema stöku sinnum hús sem virðast eldri en frá lokum seinna stríðs. Slík hús eru svo fá að þau geta auðveldlega farið fram hjá fólki. En langflest hús og mannvirki í þessu landi voru byggð eftir lok seinni heimsstyrjaldarinnar.
Í ljósi þess hve lítil sýnileg ummerki eru í landinu um fyrstu þúsund árin eða svo í sögu þjóðarinnar, er undarlegt til þess að hugsa að þjóðin skuli enn vera hirðulaus um mikilvæg mannvirki frá fyrri tímum.
~ ~ ~
Torfbæir voru algengustu íbúðarhús á Íslandi allt fram á fyrstu áratugi tuttugustu aldarinnar. Þessi forna húsagerð er raunar að týnast og gleymast. Hún er ættuð úr grárri forneskju og stóðst tímans tönn þar til vélaöld hófst. Torfbæirnir voru byggðir úr torfi, grjóti og timbri. Gler og bárujárn og tjörupappi komu ekki til sögunnar fyrr en undir lok torfbæjatímans. Aðal íverustaðurinn í torfbæjunum voru baðstofurnar; notaleg húsakynni af töluvert staðlaðri gerð, þar sem bæði var sofið, matast og starfað við prjónaskap, fataviðgerðir og fleira í þeim dúr. Baðstofan er í rauninni svið mjög stórs hluta Íslandssögunnar, skráðrar sem óskráðrar; vettvangur mannlífsins í landi með óblíðu veðurfari þar sem lengst af var nánast ekkert þéttbýli að finna.
Íslendingar hafa nú eyðilagt næstum alla torfbæi sína og þar með næstum allar baðstofur í landinu1. Þetta tóku Íslendingar að gera upp úr þarsíðustu aldamótum, og þeir luku verkinu að mestu á um sextíu árum.
„Íslendingar hafa nú eyðilagt næstum alla torfbæi sína og þar með næstum allar baðstofur í landinu.“
Árið 1910 var meirihluti íslenskra íbúðarhúsa byggður úr torfi og grjóti, eða 5.354 torfbæir af 10.213 íbúðarhúsum sem þá voru til í landinu. Á þessum tíma voru flest íbúðarhús í sveitum landsins, eða 6.861 íbúðarhús. Á landinu öllu voru um þetta leyti ríflega sex þúsund bújarðir í byggð2. Á sveitabæjum á þessum tíma voru yfirleitt fjölmörg útihús eða gripahús og hlöður úr torfi og grjóti. Áætlað hefur verið að um aldamótin 1900 hafi hér verið um 80-100.000 torfbyggingar að útihúsum eru meðtöldum3. En þessum húsum var markvisst fækkað. Árið 1940 töldust vera 1.744 torfbæir í landinu og 1950 hafði þeim fækkað niður í 716. Árið 1960 voru ekki nema 249 torfbæir uppistandandi4. Ég veit ekki hversu margir þeir eru núna, en það er eitthvað lítið brot af þessum 249 bæjum sem til voru árið 1960. Útihúsum úr torfi og grjóti hefur líka fækkað gríðarlega.
Fyrsta jarðýtan er talin hafa komið til landsins rétt fyrir seinni heimsstyrjöldina5. Margar jarðýtur voru svo fluttar til landsins í stríðinu, og Íslendingar fengu slík tæki með svonefndri Marshallaðstoð eftir stríð. Þessi stórvirku verkfæri voru stundum notuð til að ýta bæjarhúsum og útihúsum um koll og slétta úr bæjarhólnum6. Þó að Marshallaðstoðin sé ekki lengur fyrir hendi, eru Íslendingar enn að ýta húsum sem byggð voru með hinu forna sniði um koll með jarðýtum7. Og enn eru íslenskir bæir, hús með eiginlegum baðstofum, að eyðileggjast vegna vanrækslu, þó að heillegir íslenskir bæir séu orðnir sárasjaldgæfir8. Þá eru gripahús úr torfi og grjóti sífellt að verða sjaldgæfari og er leitun að sveitabæ þar sem öll húsin eru byggð með hinu forna lagi, bæði íbúðarhús og útihús9. Raunar held ég að slíkur sveitabær finnist hvergi á landinu, ef miðað er við að bærinn sé byggður algerlega með hinu gamla lagi og útveggir séu úr torfi og grjóti. Útihús úr torfi og grjóti hafa verið eyðilögð af krafti að minnsta kosti fram á síðustu ár, meðal annars vegna riðusýkinga í sauðfé.
Á síðustu árum hafa menn veitt því eftirtekt að torfhúsin voru það sem nú er kallað umhverfisvæn. Þau voru alveg laus við að vera skemmandi fyrir náttúruna. Þegar þessi hús voru yfirgefin, breyttust þau smám saman í lítinn grasi vaxinn hól með dæld í miðjunni, og þar ofan í voru fáeinar gamlar spýtur sem smám saman fúnuðu og morknuðu og urðu að mold.
„Þá hafa þær raddir heyrst, að baðstofan í torfbæjunum íslensku hafi verið merkilegasta framlag Íslendinga til byggingarlistarinnar.“
Þá hafa þær raddir heyrst, að baðstofan í torfbæjunum íslensku hafi verið merkilegasta framlag Íslendinga til byggingarlistarinnar. Baðstofunni hefur verið líkt við japönsku tehúsin10 sem eru stolt hinnar þroskuðu og fjölmennu menningarþjóðar sem býr á eyjunni fögru, Japan, hinum megin á hnettinum. Baðstofan er stöðluð bygging og ströng í formi. Þar var ekkert of eða van, enda er hún ávöxtur af aldalangri viðleitni manna til að bæta og fullkomna þessi húsakynni11. Baðstofan mun hafa verið byggð eftir mjög áþekkum málum á stórbýlum og í kotum. Hún var mjög áþekk hvað varðar hæð og breidd og alla innansmíði, en baðstofurnar voru á hinn bóginn mislangar eftir efnum og ástæðum. Segja má að þar sem baðstofa var á hverjum bæ í landinu hafi Ísland verið land baðstofanna allt fram á fyrstu áratugi tuttugustu aldar.
Tímamótahús í íslenskri byggingarlist
Á árum seinni heimsstyrjaldarinnar gekk mikið á í íslensku samfélagi. Um það leyti náði hámarki hið mikla átak við að byggja nútímaleg mannvirki og rífa niður, eyðileggja og afmá af jörðinni þau hús og önnur mannvirki sem kynslóðirnar á undan höfðu búið og starfað í.

Þrátt fyrir þetta var þó byggður að minnsta kosti einn ákaflega fallegur torfbær á þessum tíma. Hann var byggður árið 1942. Hann var óvenjulegur að því leyti að hann var sumarhús og veiðihús fremur en sveitabær, og það voru bara tvær burstir á honum. Undir lægri burstinni var falleg hefðbundin baðstofa sem ef til vill var síðasta eiginlega baðstofan sem var byggð í landinu. Þetta hús var rammlega tengt fortíðinni með baðstofu sinni og hlöðnum veggjum og grasþaki, en það var um leið eitt af fyrstu sumarhúsunum sem byggð voru sérstaklega sem slík á Íslandi. Þetta hús var byggt við Sogið undir Ingólfsfjalli og fékk heitið Laxabakki. Heiti bæjarins var skorið út á fjöl við eitt rúmstæðið í húsinu en í því var svolítið af fallegu útskornu og máluðu skreyti.
~ ~ ~
Ég ólst að nokkru upp á Suðurlandi. Ég man vel eftir því úr fjölskyldubíltúrum þegar ég var barn og horfði út um bílgluggann, hversu fallegt mér þótti þetta hús. Fyrstu skiptin sem ég sá húsið hélt ég að þetta hlyti að vera álfahús. Það hlaut að vera álfahús frekar en álfahöll, því það samrýmdist ekki hugmyndum barnsins um hallir. Húsið var ekki venjulegur sumarbústaður, og það var ekki heldur sveitabær, enda var ekkert tún í kringum bæinn og ekkert sem benti til landbúnaðar. Bærinn stóð við fljótið umkringdur af óspilltri náttúru, berjalyngi og birkikjarri, en upp við bæinn stóðu falleg grenitré. Ég trúði því varla þegar foreldrar mínir sögðu, „nei, nei, þetta er bara húsið hans Ósvalds Knudsens,“ og einu gilti þó að þau segðu eitthvað fleira um þann merka mann.
„Að hans hans mati var þetta látlausa torfhús á bökkum Sogsins fegursta bygging á Íslandi“
Þegar ég hef spurt kunningja mína undanfarna daga hvort þeir muni eftir þessu húsi, hafa furðu margir kannast við það og haft sömu sögu að segja. Einn þessara góðu kunningja minna, Guðmundur Kr. Guðmundsson arkitekt, reyndist þekkja húsið vel og oft hafa dvalið þar um lengri eða skemmri tíma frá því hann var barn að aldri. Það var vinátta milli foreldra hans og eigandans, Ósvalds Knudsens. Guðmundur þurfti ekki að hafa mörg orð um listrænt gildi hússins, og sagði beint út að hann teldi það vera „hreint og klárt listaverk“12.
Ósvaldur Knudsen fæddist árið 1899 en dó árið 1975. Nú á dögum er hann þekktastur fyrir eldfjallakvikmyndir sínar, Heklugosið, sem fjallar um Heklugosið 1947, Surtur fer sunnan, sem fjallar um Surtseyjargosið og fleiri eldgosamyndir, en hann gerði líka kvikmyndina Sveitin milli sanda sem fjallar um Öræfasveitina. Það var fyrir þá kvikmynd sem Magnús Blöndal Jóhannsson samdi frægt samnefnt lag, sem Ellý Vilhjálms söng og enn heyrist stundum í útvarpinu. Ósvaldur var auk þess málarameistari, en hann lærði málaraiðnina af Ástu málara Árnadóttur13. Hann er meðal annars þekktur fyrir að hafa málað loftið í leiksal Þjóðleikhússins en til þess þurfti listfengan málara. Ósvaldur var frumkvöðull í fjallaferðum og náttúruskoðun og laxveiðimaður14.
Hús Ósvalds ber hinum fjölhæfa og listfenga eiganda sínum fagurt vitni. Það er tvískipt. Annars vegar er hefðbundin baðstofa undir einni burst. Undir hinni burstinni eru svo nútímalegri húsakynni, þar er lítil stofa sem vísar í suðurátt með bekkjum og lokrekkju. Norðan megin í þeim hluta hússins er eldhús og gangur, og þar undir risi er lágt svefnloft líkt og tíðkast í sumarhúsum enn í dag.
Húsið er fallega staðsett undir lágri hæð og umkringt birkihríslum og grenitrjám. Nokkru frá húsinu, niðri við litla vík sem kalla má, er lágreist bátaskýli með sama lagi.
Húsið er ákaflega stílhreint. Segja má að húsið marki tímamót í þeim skilningi að það felur í sér bæði gamla tímann og hinn nýja. Torfbæ með tveimur burstum og undir annarri þeirri baðstofu sem sómir sér vel í sambýli við nútímalegt sumarbústaðarými undir hinni burstinni.
~ ~ ~
Hinn heimsfrægi arkitekt Alvar Aalto kom einu sinni í þetta hús. (Sjá mynd.)15 Það var haustið 1968 þegar verið var að vígja húsið sem hann byggði í Vatnsmýrinni í Reykjavík, Norræna húsið, sem er eitt helsta meistarastykki húsagerðarlistar á Íslandi á tuttugustu öld. Í afmælisriti um Norræna húsið má lesa eftirfarandi frásögn af því þegar Alvar Aalto heimsótti Ósvald Knudsen með Skarphéðni Jóhannssyni arkitekt sem vann með honum að byggingu Norræna hússins og Kristínu Guðmundsdóttur konu hans: „Meðal viðkomustaða var sumarhús Ósvalds Knudsen í Grímsnesi, sem vakti sérstaka athygli meistarans sökum þess hversu vel það féll að landinu. Að hans hans mati var þetta látlausa torfhús á bökkum Sogsins fegursta bygging á Íslandi.“16
~ ~ ~
Einstakt hús látið drabbast niður
Ég heyrði þær fréttir af þessu húsi fyrir nokkrum dögum að húsið hefði komist í eigu einhvers innheimtufirma í Reykjavík vegna skuldaskila fyrir mörgum árum og að húsið hefði drabbast gersamlega niður í höndum innheimtufólksins.
Það stóð vel á hjá mér og ég gat skroppið til að skoða húsið.
Enginn vegur liggur að húsinu. Þegar ég kom gangandi að því sá ég að þær fréttir sem ég hafði heyrt af ástandi þess voru engar ýkjur.
„Húsgögn úr húsinu lágu þarna fyrir utan og niðri við ána sást í lítinn stól úr húsinu sem lá þar í mosa við vatnsborðið“
Annar framgaflinn er verulega skemmdur og húsið er allt í niðurníðslu. (Sjá mynd sem tekin var við þetta tækifæri). Húsið var opið fyrir veðri og vindum og vönduð útidyrahurðin lá stórskemmd og veðruð á jörðinni fyrir framan laskaðan húsgaflinn. Þar lá líka annað spýtnabrak úr húsinu og rúður voru brotnar. Ekki varð betur séð en að spýtnabrak hefði einnig verið notað í tilraun til að kveikja varðeld fyrir framan húsið. Húsgögn úr húsinu lágu þarna fyrir utan og niðri við ána sást í lítinn stól úr húsinu sem lá þar í mosa við vatnsborðið.

Þegar inn í húsið var komið sást að það er þó enn í því ástandi að vel má endurbyggja það og varðveita um ókomna tíð. Húsgögn og innréttingar eru sérsmíðaðar og að mestu heilar. Baðstofan er enn mjög heilleg, en sums staðar eru gólf farin að bólgna upp af raka og múrhúð á stromp hefur molnað af. Svo virtist sem förumenn hefðu nýlega búið um sig í húsinu og haft sem skjól til að neyta þar áfengis og ylja sér við gasloga og kertaljós.
~ ~ ~
Aðeins örfáar baðstofur eru enn til í þessu fyrrum landi baðstofanna. Við bakka Sogsins stendur þessi eina þó heil eftir og hefur enn sem komið er staðið af sér grimm eyðingaröfl veðra og vinda. Laxabakki er merkilegur torfbær vegna þess að hann var byggður sem sumarbústaður og veiðihús undir lok baðstofualdar á Íslandi og í honum er heilleg og vel byggð hefðbundin baðstofa. Laxabakki er líka merkilegur fyrir það að hann felur í sér merkilega sögu um menningarlíf um miðja tuttugustu öldina. Loks er Laxabakki merkilegur torfbær fyrir sakir þess hve fallegur hann er og hve vel honum var valinn staður í landslaginu.
~ ~ ~
Sé vilji til þess meðal þjóðarinnar að varðveita þetta hús má engan tíma missa. Húsafriðunarnefnd mun hafa lagt það til við Minjastofnun fyrir nokkrum misserum að athuga hvort ekki sé rétt að friða húsið.17 Minjastofnun þyrfti að taka sem fyrst afstöðu til þeirra tilmæla. Óskandi væri að Minjastofnun næði samkomulagi við eigendur hússins, landeigendur og afkomendur Ósvalds Knudsens um nauðsynlegar lagfæringar og viðhald á þessu húsi.
Athugasemdir