„Byggðavandi Íslands er ekki lengur sá að Súðvíkingar séu að flytja til Reykjavíkur heldur snýst hann um að halda fólkinu í landinu,“ sagði Ásgeir Jónsson hagfræðingur í grein í Stundinni í september á þessu ári þar sem fjallað var um flótta Íslendinga til annarra landa.
Samtals hafa 1130 fleiri Íslendingar flust frá landinu en til þess á þessu ári samkvæmt tölum sem gerðar voru opinberar í síðustu viku. Tölurnar segja samt ekki sögu sem er ný heldur eru þær frekar staðfesting á því sem við vitum. Ásgeir benti á að þennan landflótta væri ekki lengur hægt að skýra með tilvísun til hrunsins heldur væri um að ræða djúpstæðara vandamál: Yngra, langskólamenntað fólk væri í auknum mæli farið að leita til annarra landa eftir störfum þar sem það fengi ekki atvinnu við sitt hæfi á Íslandi.
„Fólksfækkun á landsbyggðinni mun svo bara aukast eftir því sem til dæmis aflaheimildir í sjávarútvegi færast á færri hendur.“
Staðan á Íslandi - viðvarandi fólksflutningar frá landinu - gæti því verið farin að líkjast þeim stórfelldu búferlaflutningum sem hafa átt sér stað frá landsbyggðinni og til höfuðborgarsvæðisins á liðnum áratugum. Íslenska kjördæmaskipanin og ójafnt atkvæðavægi kjósenda eftir búsetu hefur ekki getað varið landsbyggðina fyrir þessari þróun en auðvitað á það að vera hagsmunamál allra stjórnmálaflokka og allra Íslendinga að reyna að viðhalda dreifðri byggð í landinu. Fólksfækkun á landsbyggðinni mun svo bara aukast eftir því sem til dæmis aflaheimildir í sjávarútvegi færast á færri hendur. Hvað verður til dæmis um Tálknafjörð eftir söluna á stærsta vinnuveitanda plássins, Þórsbergi?
Þegar horft er til stærðar þessa vandamáls finnst mér eilítið galið að hugsa til þess að Íslendinga búa við úrelta kjördæmaskipan sem beinlínis ýtir undir og mælir því bót að stjórnmálamenn úr einstaka kjördæmum stundi hreppapólitík en hugsi ekki um heildarhagsmuni Íslands.
Var ekki þverpólitísk samstaða meðal þingmanna Norðausturkjördæmis um þá fráleitu framkvæmd Vaðlaheiðargöng og var ekki þverpólitískt þingmannalitróf sem kom að Árbótarmálinu á sínum tíma? Þetta eru bara tvö handahófskennd dæmi þar sem þingmenn tiltekins kjördæmis stýrðust af óskynsamlegri hreppahyggju og höfðu ekki heildarhagsmuni landsins sem slíks að leiðarljósi. Kjördæmapotið á Íslandi er ekki bundið við einstaka flokka heldur er það flokkslægt og í raun kerfislægt.
Ísland stendur nú að vissu leyti á krossgötum þar sem efnahagsástandið í landinu minnir nokkuð á stöðuna á árunum 2002 og 2003, samkvæmt mati nokkurra hagfræðinga. Næstu skref íslenskra stjórnvalda gætu haft úrslitaáhrif á það hvort Ísland fer inn í sams konar þenslutímabil og á árunum frá 2004 og fram að bankahruninu. Fyrir dyrum standa nokkrar stjóriðjuframkvæmdir á Norðurlandi og Reykjanesi og hugsanlega enn fleiri þar sem vilji ríkisstjórnarinnar stendur til þess.
Í slíkri stöðu er einmitt líklegt að stjórnmálamenn vilji öðlast skjótfengnar vinsældir í héraði með því að stuðla að stóriðjuframkvæmdum; slík byggðaskrum er hins vegar ekki það langtímasvar sem Ísland þarf á að halda til að koma í veg fyrir brottflutning ungs og menntaðs fólks þar sem störfin sem verða til í slíkri stóriðju eru ekki sniðin að vilja þess eða getu. Hreppapólitíkin viðheldur einmitt frekar vandamálinu og aftur þyrfti að flytja inn vinnuafl í stórum stíl til að sinna þessum störfum.
Kjördæmaskipan sem varðveitir og ýtir undir slíka hreppapólitík á tímum þar sem landflótti ungs, hæfs fólks er að verða viðvarandi vandamál er beinlínis hættuleg og henni verður að breyta. Ísland á bara að vera eitt kjördæmi og byggðapólitíkin á ekki að snúast um Norðausturkjördæmi, Vestfirði eða Vestmannaeyjar heldur um Ísland sem slíkt.
Pistill sem birtist í Stundinni 19. nóvember
Athugasemdir