Gylfi Ægisson tónlistarmaður, áður þekktur fyrir ótta sinn gagnvart samkynhneigðum og yfirlýsingar um áhrif Gleðigöngunnar á börn sem hann gat ekki staðið við, hefur lýst yfir stuðningi við nýjan Facebook-hóp sem berst gegn múslimum.
Hópurinn heitir Hermenn Óðins og hefur lýst yfir stríði víkinga gegn múslimum. Þeir sjálfir, víkingarnir, hafa áhyggjur af því að múslimar muni nauðga „konum þeirra“: „Við munum ekki sitja heima meðan Íslam nauðgar konum okkar og samfélagi,“ segir í lýsingu hópsins á stefnuskrá hans.
Hópurinn virðist hins vegar byggjast annars vegar á algerum misskilningi og hins vegar á ósköp lágkúrulegum ótta og tilvistarkreppu meðlima hans.
Öfugar fyrirmyndir
Það sem þeir hafa áhyggjur af hálfu múslima er eftirfarandi: 1. Kynferðisbrot. 2. Ofbeldi. 3. Hryðjuverk.
Þeir stilla sér upp í epískri orrustu sögulegra menningarhópa, en átta sig ekki á sögulega samhenginu, sem er kennt í grunnskólum.
Víkingar eru sérstaklega þekktir í sögunni fyrir eftirfarandi: Kynferðisbrot, ofbeldi og hryðjuverk. Og reyndar rán í þokkabót. Taktík þeirra var, eins og hryðjuverkahópa nútímans, að valda ógn og skelfingu til að lama andstæðinga sína.
Ef bornar eru saman aðferðir víkinga og araba við að sigra lönd og þjóðir á miðöldum voru arabar sérstaklega þekktir fyrir umburðarlyndi og fyrir að fóstra fjölmenningu þeirra sem þeir sigruðu.
Konur jafnvel afskræmdu sig sjálfar til að forðast nauðganir víkinga. Eins og sagan af Æbbe the Younger segir frá, en hún skar af sér nefið til að verða ekki nauðgað af víkingum. Það bjargaði henni reyndar ekki, því víkingar brenndu hana og aðrar í nunnuklaustrinu hennar til bana.
Að titla sig víking í baráttunni gegn kynferðisbrotum er því ekki ólíkt því að heyja baráttu gegn kynferðisbrotum undir forystu Bills Cosby; það getur alveg verið með góðum vilja, en ímyndarlega fullkomlega öfugsnúið.
„Konurnar okkar“
En auðvitað voru ekki allir víkingar slæmir. Þótt margt gott megi segja um víkinga er söguleg staðreynd að nauðganir og mannrán, ekki síst á konum, voru ákveðin einkennismerki þeirra í sögubókunum. Kannski er það til marks um að hugarfar nútímavíkinganna á Facebook, sem eru hræddir við múslima, hafi ekki breyst svo mikið, að þeir tala um kvenkyn í samhengi eignarhalds, „konurnar okkar“. Það bendir til þess að baráttan sé ekki háð á forsendum mögulegra fórnarlamba kynferðisbrota, heldur á forsendum þeirra karla af „réttum“ kynþætti sem gera tilkall til þeirra.
Það er frábært hjá óttaslegnum karlmönnum nútímans að taka afstöðu gegn kynferðisbrotum. Hins vegar virðist þeir í þessu tilfelli eingöngu nota kynferðisbrot sem áróðurstæki til að útmála breiðan hóp fólks, og sérstaklega þann hóp sem flýr undan ógn og skelfingu, ekki síst af hálfu annars hóps karlremba í tilvistarkreppu sem kenna sig við Íslamska ríkið.
Slagari Gylfa: Kona á karlavinnustað
Getur þá verið að þeir séu ekki svo miklir jafnréttissinnar eftir allt saman?
Tökum Gylfa Ægisson sem dæmi, þar sem hann er líklega háværasti stuðningsmaður Hermanna Óðins. Gylfi hefur sagt frá því að þegar hann var ungur á togara hafi hann orðið fyrir nauðgunartilraun af hálfu samkynhneigðs manns, sem hann rotaði. Eftir það hefur hann verið haldinn andúð á samkynhneigðum og fór að tala um að börn væru með „typpasleikjó“ á Hinsegin dögum, en gat ekki stutt það rökum og sagðist þá bara hafa heyrt af því.
Sjálfum þótti honum hins vegar ekki lítið sniðugt að karlmenn „hópuðust“ að konu „í bunkum“ í helsta sjómannaslagaranum hans, Sjúddírarírei. Texti lagsins fjallar um einu konuna á karlavinnustað og samhengið er að hún er kynferðislegt viðfangsefni karlanna.
Á Flosa Ólafs kokkurinn er kona,
köllunum þeim finnst það betra svona.
Hún er ofsa sæt og heitir Fríða.
Hún á það til að leyfa' okkur að…
Svo syngur Gylfi sjúddírarírei í stað þess að klára rímið. Á milli línanna má þó augljóslega lesa að eina konan á karlavinnustaðnum leyfi körlunum að ríða sér. Og þeir „og hópast vilja að henni í heilum bunka“.
Restin af textanum snýst um óklárað rím sem gefur til kynna stöðu konunnar sem kynferðislegs viðfangsefnis allra annarra á vinnustaðnum, en því líkur með því að söngvarinn eignar sér hana við frústreríngu samstarfsmanna hennar sem einnig vilja eignast hana.
Misskilningur um Óðinn
Boðskapur Hermanna Óðins virðist vera byggður á stórum misskilningi því hann er algerlega á skjön við boðskap meints herforingja þeirra.
Í fyrsta lagi hefur Hermönnum Óðins verið bent á að Óðinn sé ekki sérstaklega þekktur fyrir að vera góður við konur. Til séu goðsagnir þar sem hann nauðgar konum, eða sefur hjá þeim og skilur þær eftir grátandi. Hann hafi líka verið lélegur herforingi, háð tvö stríð og tapað báðum.
Auk þess fjallar þekktasta kvæðið sem er tengt Óðni, Hávamál, að stórum hluta um mikilvægi gestrisni og þess að ferðast um heiminn og vera opinn fyrir nýjum lærdómi og kynnum við annað fólk. Fordómafullt viðhorf Hermanna Óðins gagnvart stórum hluta mannkyns finnur sér enga stoð í Hávamálum, þvert á móti.
Þar að auki kom Óðinn frá Tyrklandi, samkvæmt Snorra-Eddu.
Hjálpum þeim
Kannski er þessi Facebook-hópur hjálparkall í bældu dulargervi. Gætum við komið á fót samfélagsátaki, svolítið eins og fyrir flóttamenn, sem snýst um að hjálpa hræddum íslenskum karlrembum úr fortíðinni að aðlagast vestrænu fjölmenningar- og jafnréttissamfélagi?
Athugasemdir