Það leið að jólum í New York árið 1799. Það var mikið fjör í borginni, hún var nýlega orðin sú stærsta í hinum ungu Bandaríkjum, þar bjuggu nú ennþá fleiri en í Philadelphiu, eða allt að 60.000 manns. Rúmlega 300 kílómetra í suðvesturátt var nýja höfuðborgin Washington í byggingu, New York-búum til gremju því þeir hefðu viljað að borgin þeirra yrði höfuðborg, en fengu því ekki ráðið. Hins vegar þóttust þeir vissir um að New York yrði alltaf stærst og líflegust og ríkust borga í Bandaríkjunum og vissulega hefur það gengið eftir.
En nú leið sem sagt að jólum og sunnudaginn 22. desember var ung stúlka að nafni Gulielma Sands alveg frá sér numin af tilhlökkun. Því hún ætlaði að fara að gifta sig og var svo undur skotin í unga manninum sem hafði beðið hennar. Það hafði hún að minnsta kosti sagt frænku sinni, Catherine Ring, sem rak ásamt eiginmanni sínum, Eliasi Ring, gistiheimili það við Greenwich-stræti neðst á Manhattan, þar sem Gulielma bjó.
Hún var reyndar ævinlega kölluð Elma. Ég veit ekki margt um uppruna hennar, nema hvað hún var 22 ára og móðir hennar mun hafa eignast hana utan hjónabands. Nafnið hennar er ítalskt en í þá daga var ennþá fátt eða ekkert af Ítölum í New York svo ég kann enga skýringu á hvaðan nafnið var komið. Hún var þjónustustúlka í borginni og þótti að eðlisfari glaðlynd og fjörleg en heldur pasturslítil öll og lágvaxin. Á gistiheimili Ring-hjónanna bjó hún ásamt Hope systur sinni sem var á svipuðum aldri og líka lífsglöð stúlka.
Í júlí 1799 hafði orðið örlagaríkur atburður á gistiheimilinu. Þangað flutti ungur piltur frá Massachusetts, 23 ára gamall, Levi Weeks að nafni. Hann var mættur til að vinna sem trésmiður og verkstjóri hjá bróður sínum, Ezra Weeks, sem var þrátt fyrir ungan aldur kominn í hóp helstu byggingameistara New York-borgar. Á þessu ári var Ezra til dæmis að byggja glæsilegt setur fyrir skipakónginn Archibald Gracie ofarlega á Manhattan við Austurá, en það hús er nú aðsetur borgarstjórans í New York. Þá hafði verið samið um að Ezra og smiðir hans kæmu að byggingu glæsihúss í Harlem-hæðum alveg efst á Manhattan við Hudson-fljótið. Þar ætlaði Alexander Hamilton, fyrrverandi fjármálaráðherra Bandaríkjanna, að búa en hann var einn áhrifamestur bandarískra stjórnmálamanna um þær mundir, 42 ára, eitursnjall og ætlaði sér forsetaembættið fyrr en síðar. Hamilton hafði látið það boð út ganga til arkitekta og byggingameistara hins væntanlega húss að algjört skilyrði væri að húsið jafnaðist að glæsileika á við Richmond Hill-setrið, sem var þá mesta glæsihúsið á neðri hluta Manhattan. Það átti Aaron Burr, fyrrverandi öldungadeildarþingmaður New York-ríkis, maður mjög dugmikill og metnaðargjarn og fór lítt í felur með að hann ætlaði sér líka forsetaembættið í framtíðinni. Hamilton og Burr lögðu fæð hvor á annan og höfðu gert árum saman, fyrst og fremst af því báðir vildu vera haninn á haugnum sem var New York-borg.
Nema hvað, nú var Levi Weeks kominn til borgarinnar að stýra verkum við húsbyggingar Ezra bróður síns. Og Levi virðist hafa verið myndarpiltur og sjarmerandi og nú leið ekki á löngu þar til báðar Sands-systurnar á gistiheimili Ring-hjónanna virtust kolfallnar fyrir honum, þær Elma og Hope, og raunar þriðja ungmeyjan á gistiheimilinu líka en hún hét Margaret Clark. Framan af hausti 1799 virtist ástin á hinum þokkafulla Levi Weeks ekki leika Elmu sérlega vel, hún gerðist daufari í lund og áhyggjufyllri en hún átti að sér, lagðist oft veik og mun að minnsta kosti einu sinni hafa orðað við Catherine frænku sína að réttast væri að hún svipti sig lífi, því ástin væri svo erfið. En þegar kom fram á vetur fór að hýrna yfir henni. Þá urðu aðrir íbúar á gistiheimilinu æ oftar varir við að Levi og Elma virtust sitja ein að hljóðskrafi bak við luktar dyr og þóttu sængurföt gjarnan í mesta kuðli þegar þeim samræðum lauk.
Catherine Ring líkaði ekki sérlega vel að hafa ástarelda logandi á gistiheimili sínu. Þau Elias voru kvekarar og því siðprúð vel en hitt gat henni ekki dulist að Elma gerðist nú hrókur alls fagnaðar og hinn fyrrnefnda dag trúði hún Catherine sem sé fyrir því að nú ætluðu þau Levi að stinga af og gifta sig á laun um kvöldið. Það væri affarasælast svo Ezra og aðrir ættingjar Levis færu ekki að amast við hjónabandi hans og félausrar óskilgetinnar þjónustustúlku, hann sem hafði alla burði til að komast í hóp ríkustu iðnaðarmanna og gæti því gert sér vonir um mun fínna kvonfang. Catherine fagnaði því að Elma hætti að daðra við djöfulinn með því að leggja lag sitt við karlmann án þess að blessun guðs fylgdi og hjálpaði henni að búa sig vel fyrir kvöldið. Skal hér enn ítrekað að Elma var í hinu besta skapi og hvarflaði ekki að henni efi um framtíðina. Um áttaleytið um kvöldið heyrðu íbúar á gistiheimilinu svo að Elma hélt á brott ásamt karlmanni sem enginn sá beinlínis koma eða fara, en Catherine reiknaði með að hlyti að vera Levi Weeks.
Nema hvað um tveim tímum seinna birtist Levi á gistiheimilinu og greinilega ennþá ókvæntur með öllu. Hann kannaðist ekkert við að hafa haldið á brott skömmu áður með Elmu Sands og lét í ljós áhyggjur yfir því að hún væri úti í bæ svo seint. Það væri að vísu sunnudagskvöld en engin leið að vita hvað hent gæti í sollinum þarna niðrí miðbæ Manhattan. Fór svo Levi í háttinn en Elma skilaði sér ekki á gistiheimilið um nóttina, og reyndar aldrei síðan. Hún gufaði upp eins og jörðin hefði gleypt hana.
Catherine Ring hafði þungar áhyggjur og ekki minnkuðu þær þegar ungur drengur fann á sjálfum aðfangadegi handaskjól nokkurt, sem Elma hafði verið með, í námunda við brunn einn þar í nágrenninu. Handaskjólið hafði verið nauðsynlegt því það var kalt og snjór yfir öllu í New York þá. Catherine spurði nú fyrst Levi Weeks hvort hann vissi eitthvað um ferðir Elmu en hann þvertók fyrir það. Hins vegar upplýsti Catherine síðar að hann hefði komist í mikið uppnám þegar hún sagði honum að Elma hefði greint sér frá fyrirhuguðu hjónabandi. Sagði hann stúlkuna hafa farið með algjört fleipur, síst af öllu hefði sér verið í hug að kvænast henni.
Enn leið og beið og gerðist ekkert í málinu fyrr en 2. janúar 1800 þegar menn drifu loks í því að slæða brunninn fyrrnefnda sem var á mótum Spring-strætis og Greene-strætis í miðju hinu svonefnda SoHo-hverfi sem nú heitir. Og viti menn, þar fannst lík Elmu litlu og hafði hún greinilega verið barin hrottalega áður en henni var kastað í brunninn þar sem hún hafði að líkindum drukknað.
Það munu hafa verið Ring-hjónin sem stóðu fyrir því að lík Elmu var látið liggja frammi til sýningar fyrir almenning, fyrst úti á götu við brunninn en síðan á gistiheimilinu. Mátti fólk góna á líkið dögum saman og var ætlunin að vekja reiði í garð morðingja stúlkunnar, þess sem leikið hafði hana svo illa.
Þegar farið var að rannsaka málið bárust böndin náttúrlega fljótt að Levi Weeks. Hann uppástóð að vita ekkert um ferðir Elmu að kvöldi 22. desember og hvað þá andlát hennar. Hann bar sömuleiðis eindregið á móti að hafa átt í nokkru ástarsambandi við stúlkuna. En vitni báru að sést hefði til ferða Elmu á göngu í nágrenni við brunninn þá um kvöldið og hefði karlmaður verið í fylgd henni og hvatt hana áfram. Einnig hafði sést þar til konu ásamt tveimur karlmönnum í sleða sem hestur dró og var sleðinn sagður mjög svipaður þeim og Levi hafði umráð yfir en Ezra bróðir hans átti. Og loks hafði heyrst neyðaróp frá konu þar mjög um sömu slóðir þetta kvöld.
Það var farið að vora þann 31. mars þegar hófust réttarhöld yfir Levi Weeks. Blöðin í New York sýndu málinu mikinn áhuga, þetta voru í raun fyrstu morðréttarhöldin sem fram fóru ekki síður fyrir opnum tjöldum í fjölmiðlum en bak við luktar dyr réttarkerfisins. Þar hafði fyrrnefnd sýning á líkinu eflaust sitt að segja. Og ekki fór milli mála að almenningur taldi Levi Weeks sekan og á götunni fyrir utan réttarsalinn stóð fjöldi fólks og hrópaði: „Hengið hann, hengið hann!“ þegar réttarhöldin hófust.
En þá gaf á að líta. Verjendur unga trésmiðsins reyndust ekki vera neinir smákallar. Til að reyna að koma í veg fyrir að Levi yrði dæmdur sekur og hengdur, þá höfðu slíðrað sverð sín engir aðrir en erkifjendurnir og já, hatursmennirnir miklu, Alexander Hamilton og Aaron Burr. Fyrrverandi ráðherra og fyrrverandi öldungadeildarþingmaður voru sem sagt mættir til varna í þessu dapurlega morðmáli og var það áreiðanlega í fyrsta sinn sem svo miklir menn höfðu leitt hugann að vesalings Elmu. Ekki þarf að fara í grafgötur með að efalaust var það Ezra byggingameistari sem réði þessa rándýru lögfræðinga til að verja bróður sinn, en einnig hafa menn látið sér detta í hug að þeim Hamilton og Burr hafði að vissu leyti runnið blóðið til skyldunnar, því báðir voru kvensamir mjög, eins og það hét í þá daga, og ekki við eina fjölina felldir. Augljós andúð almennings á kvensemi hins unga Levis, sem í augum margra gerðu hann sjálfkrafa að morðingja, kann því að hafa vakið samúð tvímenninganna og átt einhvern þátt í að þeir slíðruðu blóði drifin sverð sín til að verja hann.
Réttarhöldin þóttu mikið sjónarspil. Sækjandi var lögmaðurinn Cadwallader D. Colden sem seinna varð borgarstjóri New York. Í réttarskjölum er þess getið að hann hafi oft þurft að gera hlé á máli sínu, svo yfirkominn hafi hann verið af sorg yfir hörmulegu hlutskipti Elmu Sands. Grét svo hver um annan þveran í réttarsalnum. En þegar kom að verjendunum reyndust þeir Burr og Hamilton engin lömb að leika sér við. Burr byrjaði og hvatti kviðdómendurna tólf til að láta fordóma eða æsinginn í almenningi ekki hafa áhrif á dómgreind sína. Og hann dró líka í efa að Elma hefði verið sá guðsvolaði sakleysingi sem Colden vildi vera láta. Burr benti ennfremur á vitni sem héldu því fram að Levi hefði þetta kvöld verið heima hjá Ezra bróður sínum og gæti því ekki hafa framið morðið. Hamilton tók svo við og yfirheyrði helsta vitni Coldens, Croucher nokkurn, sem búsettur var á gistiheimilinu. Hann hélt því fram að hann hefði komið að Levi og Elmu og gæti vottað af hverju rúmfötin þeirra voru gjarnan svo kuðluð.
Croucher mun hafa verið heldur ófélegur tappi, og það notfærði Hamilton út í æsar. Hann reif í sig framburð Crouchers, hélt því fram að hann en ekki Levi hefði verið að þvælast við brunninn margnefnda, og með miklum leikrænum tilþrifum þreif hann kertastjaka og otaði að Croucher svo kviðdómendur sæju vel framan í hann. Og ráðherrann fyrrnefndi þrumaði:
„Ég hef sérstakar ástæður, djúpar ástæður, sem ég þori ekki að tjá nánar, ástæður sem rétturinn mun skilja þegar hinn rétti sökudólgur verður um síðir handsamaður og dreginn fyrir dóm. En kviðdómurinn mun veita athygli hverjum vöðva í andliti þessa manns, hverri hreyfingu auga hans. Ég mana ykkur til að skima gegnum svip þessa manns og inn í samvisku hans.“
Í þessu fólst nánast morðákæra á hendur Croucher, þótt Hamilton upplýsti aldrei um hinar „djúpu ástæður“ sem hann þóttist vita um, og þeir Burr létu hér staðar numið. Og þó ekki. Þeir leiddu fyrir réttinn fleiri vitni og fékk hvert þeirra að fimbulfamba í löngu máli um hver morðingi Elmu gæti verið. Þar var meðal annars nefndur til sögu Elias Ring en einn íbúi á gistiheimilinu sagði að hann hefði verið tíður gestur í herbergi Elmu.
Þegar Burr og Hamilton tóku höndum saman stóðst þeim enginn snúning. Eftir tveggja daga réttarhöld – helmingi lengri en tíðkaðist í þá daga – þá tók það kviðdóminn aðeins fimm mínútur að komast að þeirri niðurstöðu að ekki hefði tekist að sanna sekt Levi Woods og hann væri því saklaus. Og þá var svo komið eftir mælskubrögð þeirra fjandmanna að viðstaddir í réttarsalnum fögnuðu nú ákaft.
Nema Catherine Ring, frænka Elmu. Hún stóð upp og bölvaði Alexander Hamilton. Sá skyldi nú ekki sleppa létt frá þessu, heldur deyja voveiflegum dauða, helvískur!
Og svo fór reyndar fáeinum árum síðar. Þá var Hamilton drepinn og það var enginn annar en Aaron Burr, félagi hans við vörn Levis, sem drap hann. Þá var Burr hvorki meira né minna en varaforseti Bandaríkjanna og er ekki vitað um fleiri dæmi þess að varaforsetar þar vestra hafi drepið menn meðan þeir sátu í embætti. En með þessu drápi lauk í raun ferli þeirra beggja, Hamiltons og Burrs. En sú makalausa saga bíður næstu flækjusögu.
Athugasemdir