„Umbiltínga-öldina“ kallaði Jónas Hallgrímsson í Fjölni árið 1835 það tímaskeið í sögu jarðarinnar þegar „allar skepnur [hefðu] dáið sem áður voru á lífi, enn nýar mindir komið í ljós“. Hvaða hamfarir hefðu þar átt sér stað vissu menn ekki í þá daga, en Jónas skýrði lesendum sínum, er húktu með sínar kindur í kotum á Íslandi, að frá þessum tíma megi víða í jarðlögum „sjá eptirleifar af mörgum landdýrum, sem verið hafa bísna stórkostleg“. Og hann segir að stærstir séu „nokkurskonar grasbítar af ættstofni fílanna, enn töluvert frábrugðnir þeim að sköpulagi, og so furðulega stórir að menn hafa fundið bein úr sumum, sem hafa hlotið að vera [fullir átján metrar] á lengd, og hæðin að því skapi“.
Nú er það svo að grein Jónasar í Fjölni er að meginstofni þýdd, þótt hann gæði hana vissulega auknu lífi með sinni frábæru þýðingu, en lítill vafi er á að Jónas hefur tekið fyrirvaralítið undir hugmyndir hins erlenda höfundar um að hinir 18 metra löngu grasbítar hafi verið af ættstofni fíla. Menn vissu einfaldlega ekki betur í þá daga. Auðvitað sér hver nútímamaður í hendi sér að hér er Jónas að lýsa beinum risaeðlanna, sem sannanlega voru ekki vitund skyldar fílum, enda milljónatugir og rúmlega það milli tegundanna í sögu jarðarinnar. Fyrst þegar menn fóru markvisst að grafa upp bein risaeðlanna á ofanverðri 18. öld datt mönnum helst í hug að hér væru komnir drekar þeir, sem í sögum er lýst, en þegar fram á 19. öldina var komið hafði sú kenning verið afskrifuð.
Og þá líktu menn helst beinunum tröllvöxnu við þá dýrategund á landi sem þeir þekktu stærsta í veröldinni, það er að segja fílinn.
Stærð fílsins hefur alltaf tryggt honum sérstakan sess í vitund mannsins, og það var líka stærðin sem olli því að í fornöld reyndu menn allt hvað af tók að nota hann í hernaði. Frægasta dæmið er að sjálfsögðu herferð Hannibals stríðsherra Karþagó-manna en hann hugðist knésetja Rómverja árið 218 fyrir Krist með því að æða með innrásarher frá Spáni inn á Ítalíuskaga. Til að koma Rómverjum í opna skjöldu fór hann ekki með ströndum heldur fór erfiðu leiðina yfir Alpafjöllin og þótt hann missti heilmikið lið á leiðinni komst hann að lokum alla leið.
Hins vegar fór prílið yfir Alpana illa með leynivopnið sem Hannibal hafði ætlað að nota gegn Rómverjum, en það voru stríðsfílar sem Karþagó-menn voru leiknir í að beita. Þegar menn vilja draga upp myndir af herferð Hannibals spila fílarnir alltaf stóra rullu, stundum svo stóra að ætla mætti að mestallur herinn hefði setið á fílsbaki, en sannleikurinn er sá að fílarnir í liði Hannibals voru aldrei nema fáeinir tugir og þeir þoldu svo illa svaðilförina yfir fjöllin að þegar niður til Ítalíu kom var ekki nema einn fíll enn á lífi.
Og átti sá fíll ekki eftir að gera Rómverjum neina skráveifu þau ár sem Hannibal hélt til á Ítalíu.
Fjórtán árum síðar fékk Hannibal hins vegar loksins tækifæri til að beita fílum í orrustu. Þá hafði hann hrökklast frá Ítalíu og heim til Karþagó, sem er eins og allir vita nokkurn veginn þar sem Túnis-borg er núna. Þangað var mættur rómverskur her undir forystu Scipíós Africanusar og gerði sig líklegan til að leggja undir sig borgina en Hannibal stillti upp heilmiklu herliði til varnar – og þar á meðal 80 stríðsfílum. Hlutverk fílanna var fyrst og fremst að ryðjast á fullri ferð inn í óvinaherinn og riðla herskipan hans. Það þótti ekkert smáræðis óttalegt fyrir óbreytta fótgönguliða að sjá óðan stríðsfíl kom brunandi á móti sér og gera sig líklegan til að troða mann undir. En í þessari orrustu, sem háð var þar sem heitir Zama, þar unnu Rómverjar sigur á fílahjörðinni með heldur einfaldri brellu. Lúðraþeyturum var stillt upp í fremstu víglínu þegar fílarnir nálguðust og blésu þeir ómstríða tón af þvílíkum krafti í hljóðfæri sín að fílarnir skelfdust við, snerust á hæli og æddu dauðhræddir inn í raðir Karþagó-manna sjálfra og tróðu þar undir mann og annan.
Þannig voru fílar til tómra vandræða á vígvelli þótt menn freistuðust til að nota þá vegna þess hve stórir og mikilúðlegir þeir voru. Raunar hefur smátt og smátt runnið upp fyrir mönnum að fílar þeir sem Karþagó-menn notuðu í herjum Hannibals og annarra stríðsherra sinna, þeir voru reyndar alls ekki þau miklu tröll sem við sjáum yfirleitt fyrir okkur þegar við (eða Jónas Hallgrímsson) hugsum okkur fíl. Þá hugsum við yfirleitt um stóra Afríkufílinn, sem býr sunnan Sahara, en hann getur orðið allt að fjórir metrar á hæð upp á öxl. Karþagó-menn tömdu hins vegar til bardaga mun minni fílategund, sem nú er útdauð, enda strádrepin í bardögum fornaldar. Þessir fílar eru kallaðir Norður-Afríkufílar og voru ekki nema tveir og hálfur metri á hæð upp að öxl, það er að segja næstum helmingi minni en stóru frændur þeirra í suðri. En þótt þeir hafi ekki verið stærri en þetta voru þeir samt ógnarleg vígtól þegar svo bar undir.
Það vill svo til að ári eftir að Hannibal birtist í Pó-dalnum nyrst á Ítalíu með sinn eina eftirlifandi fíl, þá var háð fyrir Miðjarðarhafsbotni ein sú orrusta þar sem fílar komu einna mest við sögu – en af einhverjum ástæðum er sú saga nærri óþekkt, þótt allir þekki fílana sem Hannibal beitti.
Orrustan við Rafía heitir sá slagur í sögubókum, þar sem yfirleitt er á hann minnst, og þar áttust við frægir kappir á annarri öld fyrir Krist en nú flestum gleymdir: Antíokkus III kóngur í Selefíu og Ptólemeus IV, starfsbróðir hans í Egiftalandi.
Árið 334 hafði kornungur kóngur í Makedóníu, Alexander að nafni, farið í útrás frá fjallendinu norður af Grikklandi þar sem hann réði, og á fáeinum árum lagði hann undir mesta heimsveldi þeirra tíma, Persíu, og réði svo um skeið Litlu-Asíu, Egiftalandi, Palestínu, Sýrlandi, Mesópótamíu (Írak), Íran, Afganistan og stórum svæðum í Mið-Asíu. Árið 323 hafði hann hins vegar náð því að drekka sig í hel og þá klofnaði ríki hans í nokkra misstóra búta sem hershöfðingjar hans sölsuðu undir sig. Selefkía var kennt við herforingjann Selefkos og var langstærsti búturinn – eiginlega allt ríki Alexanders nema Grikkland og Egiftaland.
Selefkos var langlangafi Antíokkusar III sem kom til valda aðeins 18 ára gamall árið 222 fyrir Krist. Þá plöguðu ríkið uppreisnarmenn, ekki síst í austurvegi þar sem Selefkídar voru að missa öll tök. Þrátt fyrir alvarleg blankheit náði Antíokkus loks að sigrast á leiðtoga uppreisnarmanna í austri. Sá framdi sjálfsmorð frekar en falla í hendur Selefkíukóngs en það bjargaði honum þó ekki frá því að vera krossfestur. Antíokkus var nefnilega grimmur maður, og grimmastur þegar frændi hans í Litlu-Asíu gerði líka uppreisn gegn honum. Kóngur settist um borg frænda síns og þegar íbúar gáfust upp voru þeir allir drepnir – og þá meina ég allir.
Frændinn uppreisnargjarni var handsamaður, og tekinn af lífi. Það má að minnsta kosti orða það þannig. Í rauninni var fyrst slitið undan honum, síðan var hann hálshöggvinn og höfuðið saumað fast við asna. Afgangurinn af líki hans var svo krossfestur.
En það var orrustan við Rafía sem ég ætlaði að segja frá. Þá hugðist Antíokkus leggja undir sig Egiftaland og verða sér úti um næg auðæfi til að koma fjárhag ríkisins á réttan kjöl. En kóngur Egiftalands var ungur og knár, fyrrnefndur Ptólemeus, og hann réði yfir næstum 100 vel þjálfuðum norður-afrískum stríðsfílum, sem hann hafði keypt frá Karþagó-mönnum. Her Egifta var því ekki árennilegur. En Antíokkus sýndi hugkvæmni ekki bara við aftökur. Hann hafði haft samband alla leið austur til Indlands og keypti þar sína eigin 100 stríðsfíla sem áttu að vega upp á móti fílum Ptólemeusar. Og við Rafía var þessum hjörðum stríðsfíla att fram hvorri gegn annarri. Þann 22. júní árið 217 fyrir Krist var svo háð einhver magnaðasta orrusta þar sem fílar tóku þátt, þessir striðdrekar fornaldarinnar. Talið er að herir kónganna tveggja hafi talið 70–75.000 manns hvor en það voru þessi par hundruð fíla sem allt snerist um í upphafi.
Indversku fílarnir hans Antíokkusar gerðu árás fyrst. Og sú árás var lengi í minnum höfð í fornöld, þótt hún sé gleymd núna. Brynvarðir fílarnir með körfu á baki þar sem bogamenn og spjótkastarar kúrðu tóku á furðu hraða rás, þungi þeirra sem skall á jörðinni á hlaupunum olli því að jörðin titraði, hermennirnir sem þeir stefndu gegn skulfu á beinum og öskur stríðsfílanna voru mögnuðustu óhljóð sem nokkur hafði heyrt. Egiftar reyndu að ýta fram sínum eigin fílum en heldur varð orrusta fílanna endaslepp. Norður-afrísku fílarnir sáu fljótt að þeir indversku voru góðum sjónarmun stærri, og þar að auki lagði af þeim svo framandlegan fnyk að fílar Ptólemeusar fældust fýluna og lögðu brátt á hraðan flótta.
En leifturstríð indversku fílanna skilaði litlu, þegar til kom. Þeir ruddust gegnum víglínur Egifta og tróðu niður heilmarga ógæfusama dáta, en voru svo allt í einu komnir í gegnum alla orrustuna, yfirgefnir og einangraðir bak við víglínuna og mennirnir í körfunni höfðu ekki hugmynd um hvað skyldi gera næst. Svo þeir gerðu ekkert – nema horfðu fullir hryllings á þegar her Egifta sneri vörn í sókn eftir að hafa jafnað sig á framrás fílanna. Svo fór að her Selefkída fór miklar hrakfarir og Antíokkus III varð að gefa upp á bátinn allar hugmyndir um að efla ríki sitt með því að leggja undir sig Egiftaland.
Og hvað? Skipti þessi orrusta einhverju máli? Já, reyndar. Ef Antíokkus hefði náð að fylgja eftir sínum sigursælu Indlandsfílum með því að knésetja Egifta, þá má vera að ríki hans hefði orðið nógu öflugt til að standast snúning hinu nýja stórveldi Rómverja. Því Rómverjar höfðu ekki fyrr lagt fílahjörð Hannibals að velli við Zama en þeir fóru að teygja sig inn á lönd arftaka Alexanders mikla. Og árið 190 voru þeir mættir til Litlu-Asíu og gersigruðu Antíokkus III þar sem hét Magnesía. Þar með var lokið stórveldistíma Selefkíu en Róm var ósigrandi. Í þessari orrustu hafði herforingi Rómverja (bróðir Scipíó Africanusar) gætt sín vandlega á fílahjörð Antíokkusar, eftir að hafa heyrt tíðindi frá Rafía, og þegar Selefíu-kóngur varð að skrifa undir auðmýkjandi friðarsáttmála var það ein helsta krafa Rómverja að leyst yrði hin illa þefjandi fílahjörð frá Indlandi.
Þeim vildu Rómverjar ekki kynnast nánar.
Aðeins eitt er ósagt: Næst þegar Ísraelar brjótast með skriðdreka sína inn á þröng stræti Gaza-borgar og gera þar sín hervirki – hugsið þá til fílanna í Rafía. Því einmitt þar var sú orrusta háð.
Athugasemdir