1. Alþingi er æðsta stofnun samfélagsins í íslenskri stjórnskipan.* Ekki Gunnar Bragi, ekki Sigmundur Davíð og ekki Bjarni Benediktsson. Þingmenn eru kosnir af almenningi, ríkisstjórn Íslands starfar í umboði þeirra og sækir þannig vald sitt til þjóðarinnar. Þegar handhafar framkvæmdavaldsins rembast við að núllstilla aðildarviðræðurnar við Evrópusambandið og skemma það sem áunnist hefur í viðræðuferlinu án þess að spyrja þing eða þjóð, er samfélagssáttmálanum slitið. Það er hættulegt.
2. Síðustu þingkosningar snerust ekki um Evrópusambandið. Til þess sáu forystumenn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins með því að lofa þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna.** Þannig var efnislegu karpi um ESB-málið frestað og önnur mál gerð að helsta þrætuepli kosninganna, svo sem skuldaniðurfelling, heilbrigðismál og skattbreytingar. Með sigri Framsóknar og Sjálfstæðisflokks í kosningunum veitti almenningur þeim ekki umboð til að slíta viðræðum, heldur umboð til að boða til þjóðaratkvæðagreiðslu.
3. Ef hvorki þingsályktunum né kosningaloforðum er fylgt; ef stærstu ákvarðanir um framtíð Íslands eru hvorki á valdi Alþingis né almennings heldur einungis ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins, þá er Alþingi tilgangslaust batterý sem ef til vill er best að leggja bara niður.
4. Allur málflutningur stjórnarliða um „pólitískan ómöguleika“ verður ekki skilinn öðruvísi en svo að ef niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslu yrði á skjön við stefnu ríkisstjórnarinnar, yrði ríkisstjórnin sjálf pólitískt ómöguleg. Þannig er málsvörn ráðandi afla í stóra ESB-málinu alveg skelfilega einlæg: Það er mikilvægara að við stjórnum Íslandi út kjörtímabilið heldur en að vilji almennings ráði för. Þetta er á skjön við viðtekin viðhorf í lýðræðisríkjum, þar sem litið er svo á að ríkisstjórn þjóni almenningi, ekki öfugt.
* Ólafur Jóhannesson (1978), Stjórnskipun Íslands, bls. 94. Sjá einnig: Gunnar G. Schram (1999), Stjórnskipunarréttur, bls. 188.
Athugasemdir