„GRECO lagði til að tryggt yrði að lagaákvæði um mútur og áhrifakaup í almennum hegningarlögum næðu einnig til þingmanna,“ segir í einum af þeim tilmælum sem GRECO, ríkjahópur gegn spillingu sem starfar innan Evrópuráðsins, beindi til ríkisstjórnar Íslands árið 2008. Önnur tilmæli sem GRECO beindi til íslenskra stjórnvalda voru: „GRECO lagði til að skýrt yrði með viðunandi hætti hvað skuli telja viðeigandi og óviðeigandi gjafir eða annan ávinning í tengslum við mútubrot.“ GRECO benti svo á það árið 2010 að íslensk stjórnvöld hefðu ekki farið eftir þessum tilmælum og breytt lögum þannig að ákvæði hegningarlaga um mútubrot næðu einnig yfir þingmenn.
Í tíð síðustu ríkisstjórnar, nánar tiltekið í ársbyrjun 2013, var almennum hegningarlögum breytt þannig að eftirfarandi orð standa í 128. grein laganna: „Ef opinber starfsmaður, [alþingismaður eða gerðarmaður]1) heimtar, tekur við eða lætur lofa sér eða öðrum gjöfum eða öðrum ávinningi, sem hann á ekki tilkall til, í sambandi við framkvæmd starfa síns, þá skal hann sæta …2) fangelsi allt að 6 árum, eða sektum, ef málsbætur eru.“
Þessi orð eru alveg skýr: Mútur, áhrifakaup og gjafagerningar til þingmanna eru brot á lögum. Með sambærilegum hætti eru þeir sem múta þingmönnum einnig brotlegir við hegningarlög samkvæmt 109. grein laganna. Mútarinn og mútuþeginn eru því báðir brotlegir ef svo ber undir.
Þó íslensk stjórnvöld hafi ekki verið mjög fljót að bregðast við athugasemdum GRECO síðastliðin ár þá hafa þau gert það á endanum og reynt að berja í þá bresti sem bent hefur verið á. Þetta á bæði við um síðustu stjórn og eins stjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Í apríl síðastliðnum kom önnur skýrsla frá GRECO þar sem íslensk stjórnvöld voru gagnrýnd fyrir seinagang í því að bregðast við athugasemdum GRECO. Meðal þess sem GRECO gagnrýndi var að ekki hefðu verið settar siðareglur fyrir þingmenn þrátt fyrir að vinna við þær hafi hafist árið 2012 og eins að þingmenn ættu að veita tölulegar upplýsingar um eignir og skuldir. Og stjórnvöld hafa brugðist við: Í síðasta mánuði skipaði innanríkisráðherra, Ólöf Nordal, starfshóp sem á að fylgjast með og fylgja eftir að samningar gegn spillingu og mútum verði innleiddir hér á landi. Starfshópurinn á að vinna náið með GRECO.
Síðastliðin sjö ár hefur því ýmislegt jákvætt verið gert í þessum efnum: Baráttunni gegn spillingu og mútum - að minnsta kosti á yfirborðinu og formlega séð. Árið 2008 var ekkert ákvæði í hegningarlögum sem nefndi þingmenn sérstaklega sem hugsanlega mútuþega og tilgreindi að slík háttsemi væri refsiverð. Nú er slíkt ákvæði að finna í lögunum. Nú er það skýrt lögbrot ef þingmaður þiggur mútur.
„Hver á þá að hafa eftirlit með hugsanlegum mútubrotum stjórnmálamanna?“
Þrátt fyrir þessar lagabreytingar þá virðist enginn opinber aðili fylgjast með að þessum lögum sé framfylgt enda eru slík brot sannarlega oft afar matskennd og erfið viðureignar. Í slíkum mútubrotum er enginn einn brotaþoli - nema ef vera skyldi þjóðin sjálf eða „lýðræðið“ sem skaðast ef fulltrúar hennar eru spilltir - og það er því enginn til að kæra brotið til rannsóknaraðila. Það er ekkert fórnarlamb sem leitar réttar síns til þess embættis sem líklega myndi sjá um meðferð slíkra mútubrota þingmanna í kjölfar rannsóknar. Hver á þá að hafa eftirlit með hugsanlegum mútubrotum stjórnmálamanna? Líklega er það óljóst og óskilgreint þó embætti ríkissaksóknara myndi væntanlega höfða slíkt mál; ætli það eigi ekki við hér að fyrst er lögunum breytt og svo með tímanum verða til verkferlar og verklag utan um framkvæmd laganna. Íslendingar hafa auðvitað svo skamma reynslu af því að mútur til þingmanna séu skilgreindar sem lögbrot. Ekki hefur enn reynt á þetta ákvæði hengingarlaganna síðastliðin tvö ár.
„Þingmenn eiga sjálfir, eða ættu sjálfir, að átta sig á því að þeir geta ekki hundsað spurningar fjölmiðla endalaust því annars er eins og þeir hafi eitthvað að fela sem ekki þolir dagsljósið.“
Ég fjalla um þessar lagabreytingar hér af þeirri ástæðu að í fjölmiðlum hefur verið fjallað ítrekað um fjárhagsleg tengsl Illuga Gunnarssonar menntamálaráðherra og Orku Energy. Búið er að sýna fram á með gögnum og munnlegum heimildum að margvísleg fjárhagsleg tengsl hafa verið á milli Illuga og þessa fyrirtækis og að fyrirtækið hafi svo tengst opinberum störfum Illuga þegar fulltrúar þess fóru með honum í opinbera heimsókn til Kína fyrr á árinu. Illugi vann fyrir fyrirtækið þegar hann var utanþings tímabundið; hann fékk lán frá fyrirtækinu; hann seldi stjórnarformanni fyrirtækisins, Hauki Harðarsyni, íbúðina sína þegar hann lenti í fjárhagserfðleikum og hefur síðan leigt íbúðina af honum aftur fyrir verð sem ekki er þekkt þar sem leigusamningi hefur ekki verið þinglýst; hann var svo við laxveiðar í Vatnsdalsá á sama tíma og þessi stjórnarformaður Orku Energy síðastliðið sumar og þessi sami stjórnarformaður var þátttakandi í opinberri heimsókn Illuga til Kína þar sem menntamálaráðherrann fundaði með Orku Energy og kinverskum samstarfsaðila þess.
Ef þessi fjárhagslegu og persónulegu tengsl Illuga Gunnarssonar við þetta fyrirtæki eru ekki þess eðlis að þau þarfnist skoðunar í ljósi ofangreindra lagabreytinga á síðasta kjörtímabili þá eiginlega veit ég hvenær slík athugun ætti að fara fram. En Illugi hefur ekki þurft að svara fyrir þessa háttsemi sína: Ekki hjá neinum opinberum aðila sem hefur það hlutverk að sjá um framkvæmd þessara hegningarlagaákvæða og ekki heldur í fjölmiðlum enda er enginn opinber aðili á Íslandi sem skikkar þingmenn til að svara fjölmiðlum - sem betur fer. Þingmenn eiga sjálfir, eða ættu sjálfir, að átta sig á því að þeir geta ekki hundsað spurningar fjölmiðla endalaust því annars er eins og þeir hafi eitthvað að fela sem ekki þolir dagsljósið.
„Þarf þekktur kaupsýslumaður að labba inn á ríkisstjórnarfund í Stjórnarráðinu með úttroðið, brúnt umslag og gauka því að ráðherra í fjölmiðla viðurvist?“
Ekki verður samt annað sagt en að fjölmiðlar hafi reynt að fá svör Illuga við spurningum um tengsl hans og Orku Energy. Stundin hefur ítrekað spurt hann spurninga um Orku Energy málið, Vísir sömuleiðis, fréttastofa RÚV, Kastljósið og DV. En Illugi bara þegir líkt og hann ætli að reyna að bíða málið af sér. Spurningarnar fara ekkert þó Illugi svari þeim ekki; þær liggja þarna áfram ósvaraðar í loftinu og verða bara meira þrúgandi eftir því sem Illugi reynir að þegja þær af sér lengur.
Á sama tíma eru í gildi nýleg lagaákvæði í landinu sem fjalla um sams konar háttsemi og hann kann að hafa gerst sekur um út frá þeim staðreyndum sem liggja fyrir í málinu. Illugi verður að svara spurningum fjölmiðla um Orku Energy málið, til að taka af þann vafa að hann hafi brotið lagaákvæði um mútugreiðslur til stjórnmálamanna. Á meðan Illugi þegir blasa bara staðreyndir málsins við án skýringa ráðherrans og staðreyndirnar líta vægast sagt ekki vel út fyrir hann.
Hvað þarf eiginlega að gerast til að látið verði reyna á þetta nýja lagaákvæði með athugun eða rannsókn? Þarf þekktur kaupsýslumaður að labba inn á ríkisstjórnarfund í Stjórnarráðinu með útroðið, brúnt umslag og gauka því að ráðherra í fjölmiðla viðurvist? Þarf að nást mynd eða myndband af þingmanni í skjóli nætur að taka á móti útbólginni keilukúlutösku frá handlangara auðkýfings á bílastæðinu við Bústaðakirkju? Þarf að vera til bankakvittun upp á tvær milljónir sem sýnir millifærslu frá stórfyrirtæki til þingmanns? Þarf málið að vera svo barnalega svarthvítt að það kalli varla á svör frá þingmanninum sjálfum um hvað átti sér stað?
Mál Illuga er ljótt á yfirborðinu og hann verður að svara fyrir það. Þögn hans er fyrir löngu orðin pínleg.
Athugasemdir