Meira en helmingur íbúa heimsins býr nú í borgum og spáð er að á næstu 30 árum muni hlutfallið fara upp í 70 prósent. Vaxandi þéttbýli mannkynsins er sannarlega krefjandi verkefni en um leið gefur það tækifæri til að endurskoða lífsstíl og forgangsröðun okkar jarðarbúa. Það er ekkert náttúrulögmál að fólk í borgum hreyfi sig minna, borði óhollari mat og meira af unnum mat en fólk í dreifbýli. Það þarf heldur ekki að vera þannig að eftir því sem efnahagur vænkast hjá fólki þá borði það meira kjöt og mjólkurafurðir, þótt það sé þannig í dag.
Við krefjumst sífellt meira af jörðinni okkar, þrátt fyrir að löngu sé búið að leiða okkur það fyrir sjónir að ef við höldum áfram á sömu braut, muni vistkerfi jarðarinnar hrynja. Við vitum af áhrifum samgangna og jarðefnaeldsneytis á loftslagsmál en bleika kýrin sem fáa langar að tala um er maturinn sem við borðum og áhrif hans á þróun loftslags og hlýnun jarðar. Við verðum að tala um matinn!
Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna áætlar að um 20% losunar á gróðurhúsalofttegundum í heiminum sé vegna matvælaframleiðslu og um 15 % eingöngu vegna kjöts og mjólkurframleiðslu. Þar ofan á bætist að um 40% matvæla sem framleidd eru í heiminum enda á sorphaugum engum til gagns og á meðan búa milljónir manna við hungur. Á sama tíma eru aðrar milljónir manna að ógna heilsu sinni með ofneyslu matvæla eða neyslu á næringarlitlum mat.
Það er mikilvægt að þéttbýlismyndun ræni okkur ekki tilfinningunni fyrir því hvaðan maturinn okkar kemur. Matvælaframleiðsla í borgum er skemmtileg og mikilvæg, en það mun þó alltaf þurfa að flytja mat inn í borgir og á Íslandi bætist við að mikið þarf að flytja til landsins, langar leiðir yfir hnöttinn. Matarmálin hafa því margar mikilvægar hliðar, og sú staðreynd blasir einfaldlega við að til að sjá vaxandi mannfjölda heimsins fyrir hollum mat á sjálfbærri jörð, þufum við að sameinast um nýja framtíðarsýn í matarmálum mankynsins.
Til þess að ná því markmiði þarf svo sameiginlegt átak frá öllum sviðum samfélagsins; alþjóðastofnana, sveitarfélaga og ríkisstjórna, félagasamtaka, vísindamanna, framleiðenda, bænda, dreifingaraðila og svo mætti lengi telja. Allir hafa þarna hlutverki að gegna.
Hér heima eigum við að tryggja aðgengi að heilsusamlegum mat um allt land, hlúa að nýsköpun í landbúnaði og vistvænni framleiðslu. Borða mat sem er framleiddur sem næst okkur, jafnvel inni í bæjum og borgum. Borða mat eftir árstíðum, minnka dýraafurðir og borða meira grænmeti.
Búvörusamningar sem íslenska ríkið gerir við bændur þyrftu að taka þessi mál fastari tökum enda byggir framtíð landbúnaðar á því að við umgöngumst jörðina af alúð og virðingu. Líklegt er að þarna leynist mörg tækifæri fyrir íslenskan landbúnað.
Almenningur á líka rétt á að fá upplýsingar um raunveruleg áhrif þess matar sem í boði er úti í búð og ekki er ósennilegt að í framtíðinni verði farið fram á að vistspor matvæla verði sýnilegt í merkingu þeirra, rétt eins og okkur finnst eðlilegt í dag að sjá innihaldslýsingu. En það er ekki hægt að setja ábyrgðina á framtíð lífs á jörðinni, eingöngu á fólk og fjölskyldur með innkaupakerrur. Það er sameiginlegt verkefni stjórnvalda og alþjóðasamfélagsins að skipuleggja framleiðslu og dreifingu matvæla og tryggja efnahagslegan jöfnuð í heiminum þannig að allir hafi tækifæri til að nálgast næringarrík matvæli, framleidd á sjálfbæran hátt. Matur hefur áhrif á heilsu bæði okkar og jarðarinnar fyrir utan að geta verið endalaus uppspretta gleði og gæða. Við verðum að tala meira um mat í stóra samhenginu, bleika kýrin þarf að vera velkomin.
Athugasemdir