Ég hef áður skrifað um hversu algengir holdafarsfordómar eru í barnaefni. Innihaldsgreiningar sýna að fitubrandarar koma fyrir í um 70% barnamynda og athugasemdir um megrun og þyngdartap eru sömuleiðis algengar. Við sem reynum að ala börn upp í líkamsvirðingarsjónarmiðum þurfum því ekki aðeins að varast að áreiti fullorðinsheimsins berist til þeirra heldur þarf ekki síður að hafa vakandi auga með fræðslu- og skemmtiefni sem er sérstaklega búið til fyrir börn. Sumu fullorðnu fólki finnst nefnilega ekkert athugavert við að semja sögur með megrunar- og fitufordómaboðskap fyrir börn – og svo taka við útgefendur, þýðendur, markaðsfræðingar, söluaðilar og verslunarstjórar sem sjá ekkert ahugavert við þetta heldur. Fullorðið fólk getur verið alveg merkilegt.
Nýlega rakst ég á barnabók sem er einmitt alveg merkileg. Hún heitir Bjarnastaðabangsarnir og of mikið ruslfæði og er skilgreind sem „byrjendabók“ en hverfist engu að síður um fitufordóma, líkamssmánun og megrunarhugmyndir. Söguþráðurinn er í stuttu máli sá að litlu Bjarnastaðahúnarnir borða mikið af sætindum en það vekur enga sérstaka eftirtekt fyrr en mömmunni finnst þeir vera að fitna. Þá verður uppi fótur og fit á heimilinu, húnarnir eru dregnir til læknis og settir í prógram sem á að hjálpa þeim að grennast. Hér er smá brot úr bókinni:
„En sælgæti og sætindi – hvað gera þau vont?“ „Í flestum þeirra“, svaraði Gerða [læknirinn], „er mjög lítil næring. Í staðinn fyrir að hjálpa til við að byggja upp og styrkja kroppinn safnast þau bara fyrir sem auka fita – svona sko!“ Hún kleip í síðuna á pabba og náði heilli handfylli. „Ái!“ sagði pabbi.“
Hér er börnum sem sagt kennt að helsta ástæðan fyrir því að þau ættu að forðast sætindi sé að þau gætu fitnað af þeim, að líkamsfita sé neikvætt og skammarlegt fyrirbæri og að persónuleg mörk þeirra sem þykja hafa of mikla fitu séu til þess að vaða yfir þau. Húnarnir eru síðan kvaddir með þessum orðum:
„Hreyfa sig!“ kallaði læknirinn. „Hreyfing er mikilvæg fyrir heilsuna - og hún hjálpar ykkur við að minnka ummálið.“
Já þetta er akkúrat það sem ég vil að fimm ára barnið mitt hugsi þegar það er úti að leika sér...
Megrunarhugmyndir, ótti við að fitna og virðingarleysi gagnvart líkömum annarra eru ekki heilbrigð viðhorf sem við ættum að kenna börnum og það er ekki bara auðvelt að sneiða hjá slíku heldur eðlileg siðferðileg krafa að heilsuskilaboð til barna séu sett fram undir öðrum formerkjum en með fitufordómum og holdafarskomplexum. Líkamsmyndin er mikilvægur áhrifaþáttur fyrir líðan og heilsu barna og ætti því ekki síður að huga að þeim þætti en mataræði og hreyfingu þegar velferð barna er annars vegar. Í dag eru mörg ungmenni ósátt við líkama sinn og fer þessi óánægja vaxandi eftir því sem líður á æsku barnanna. Íslenskrar rannsóknir sýna að þegar komið er á framhaldsskólaaldurinn fer nær helmingur íslenskra stúlkna í megrun og 15% þeirra uppfylla greiningarviðmið fyrir átröskun. Rannsóknir hafa einnig sýnt að stríðni og einelti vegna holdafars eru algeng meðal barna og ungmenna. Sem dæmi kom fram í nýrri erlendri rannsókn meðal unglinga að 92% þeirra höfðu orðið vitni að því að grín var gert að feitum samnemanda, 85% höfðu tekið eftir stríðni í íþróttatímum og 54% höfðu orðið vitni að líkamlegri áreitni.
Það er ábyrgðarhluti þeirra sem tala við börn, hvort sem það er augliti til auglitis eða í gegnum miðla eins og sjónvarp, útvarp, bækur, tímarit, námsefni og netheima, að ýta ekki undir þennan vanda. Og það er ábyrgðarhluti okkar sem veljum efni fyrir börnin að sniðganga hverslags fræðslu- og skemmtiefni sem kennir þeim að staðalmyndir og fordómar séu sniðug og sjálfsögð viðhorf. Pössum upp á líkamsmynd barnanna okkar, kennum þeim að allir líkamar séu góðir líkamar og að allir líkamar eigi skilið virðingu og umhyggju.
Athugasemdir