Þann 25. júlí síðastliðinn var 15 ára stúlku nauðgað á Suðurnesjum. Lýsingar á því sem átti sér stað eru þess eðlis að það er engin ástæða til að setja hér neinn fyrirvara. Vitni voru ekki að nauðguninni sjálfri en stúlkan sagði sem betur fer strax frá því sem gerst hafði.
Og það var ægilegt. Nauðgarinn hafði ekki einungis nauðgað stúlkunni tvívegis, heldur hafði hann líka hótað henni lífláti, tekið hana kverkataki og reynt að kyrkja hana, stappað á hálsi hennar þegar hún féll í gólfið og sparkað í hana.
Stúlkan fór á Neyðarmóttöku og bæði þar og hjá lögreglu bar mönnum saman um að hún hefði orðið fyrir skelfilegri lífreynslu. Á líkama hennar voru áverkar sem bar að öllu leyti saman við framburð hennar.
Vettvangsrannsókn gaf hið sama til kynna.
Að sjálfsögðu hefur stúlkan orðið fyrir mjög hryggilegri lífsreynslu, sem ég vona að henni takist sæmilega að vinna úr. En henni ber umfram allt heiður og sómi fyrir að hafa ekki hikað við að skýra frá þessari vondu reynslu heldur farið beint til yfirvalda. Aðeins þannig að allar nauðganir séu kærðar umsvifalaust er von til þess að takist að fækka að ráði þessum skelfilegu grimmdarverkum.
Hafði nauðgarinn þó sérstaklega sagt henni eftir á að segja engum frá þessu, það myndi „ekkert þýða“ fyrir hana að kæra.
Sem betur fór tók hún ekki mark á því. Lögreglan fór nú og yfirheyrði nauðgarann, sem er nítján ára. Hann neitaði sök en viðurkenndi í öðru samhengi að eiga stundum mjög erfitt með skapsmuni sína.
Nema hvað, eftir yfirheyrslu sleppti lögreglan nauðgaranum. Ekki var farið fram á gæsluvarðhald.
Sex dögum síðar lét nauðgarinn aftur til skarar skríða. Hann virðist hafa komið ásamt annarri 15 ára stúlku í samkvæmi ungs fólks í Reykjavík og lokað sig þar inni í herbergi með henni, nauðgað henni og misþyrmt. Ofbeldið var grimmilegt og því fylgdu hótanir um annað og verra. Þessu linnti ekki fyrr en piltar í samkvæminu heyrðu neyðaróp stúlkunnar og hótuðu að brjótast inn í herbergið. Þá slapp stúlkan út, blóðug og marin.
Nauðgarinn var handtekinn. Vitnisburðir viðstaddra og rannsókn á vettvangi staðfestu hvað þarna hafði gerst. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fór nú fram á gæsluvarðhald í rétt rúman mánuð, eða til 2. september. Héraðsdómur Reykjavíkur féllst á gæsluvarðhald en stytti það af einhverjum ástæðum til 19. ágúst. Lögmaður nauðgarans, Unnar Steinn Bjarndal, skaut málinu til Hæstaréttar og fór fram á að gæsluvarðhald yrði fellt niður eða stytt. Hæstiréttur staðfesti þó niðurstöðu héraðsdóms.
Þetta er skelfilegt mál að öllu leyti, en menn verða að spyrja – og það nú þegar, og það hárri raust, sem ég vona að fjölmiðlar geri – hvernig á því stóð að lögreglan á Suðurnesjum fór ekki fram á gæsluvarðhald yfir nauðgaranum eftir fyrri nauðgun hans. Þar voru einfaldlega yfirgnæfandi líkur á sekt hans og verknaður hans hafði verið einstaklega hrottafenginn.
Þeir sem tóku þessa ákvörðun verða því að horfast í augu við gjörðir sínar með því að svara opinberlega fyrir þær.
Ég efast raunar ekki um að lögreglumenn þeir á Suðurnesjum, sem sáu ekki ástæðu til að fara fram á gæsluvarðhald, séu nú með óhýrri há.
Og það er að vonum.
Sú vitneskja að ef þeir hefðu farið fram á – og fengið – gæsluvarðhaldsúrskurð yfir nauðgaranum, þá hefði seinni stúlkan sloppið við sína hræðilegu reynslu, sú vitneskja er eflaust nokkuð þungur kross að bera.
Ég vorkenni þeim þó ekki neitt.
Það er árið 2016 og við eigum að vera búin að læra fyrir löngu, löngu að nauðganir á að taka alvarlega og nauðgara á að taka úr umferð. Leiki vafi á um hvort meintur nauðgari geti verið hættulegur öðrum meðan á rannsókn máls stendur, þá á að meta þann vafa hugsanlegum fórnarlömbum hans í hag.
Það er sú lexía sem draga má af þessu máli.
En andskoti er það dýr lexía.
- - -
Viðbót: Ég sá þá athugasemd á einum stað að þau orð að „[a]ðeins þannig að allar nauðganir séu kærðar umsvifalaust [sé] von til þess að takist að fækka að ráði þessum skelfilegu grimmdarverkum“ gætu hugsanlega skilist þannig að ég sé kannski að koma ábyrgðinni af því að fækka nauðgunum yfir á fórnarlömbin, og það sé helstil mikill skipunartónn í þessum orðum.
Það er vitaskuld ekki ætlunin. Ég á aðeins við að ef sú „hefð“ er ekki lengur við lýði í samfélaginu að nauðganir séu ekki endilega kærðar þá verði kannski unnt að draga úr þeim.
Athugasemdir