Stundum þykjumst við vera „best í heimi“ í hinu og þessu. Kannski erum við bara í sakleysi okkar að stappa stálinu í okkur, en ferðir til annarra landa færa okkur heim sanninn um að heimurinn er fullur af ævintýrum og víða sjáum við margt sem við getum lært af. Ef til vill eru flugfreyjurnar og flugþjónarnir okkar þó með þeim „bestu í heimi“, ég dáist að minnsta kosti ævinlega að þolinmæði þeirra og þjónustulund.
Flugferðir geta verið áhugaverð mannlífskönnun og gaman að sjá hvað margir eru tillitssamir og flinkir í samskiptum. Þó rekur maður stundum augun í ýmislegt sem betur mætti fara hjá sjálfum sér og öðrum. Í langflestum tilfellum er þó ugglaust athugunarleysi um að kenna, en ekki slæmum ásetningi.
„Flugferðir geta verið áhugaverð mannlífskönnun og gaman að sjá hvað margir eru tillitssamir og flinkir í samskiptum.“
En til þess að flugferðin verði ánægjuleg, verðum við öll að vinna saman. Knappur tími er áætlaður til flugtaks. Við krefjumst þess að flugfélögin séu stundvís, en við þurfum öll að vera vakandi þegar við göngum um borð, til þess að flugvélin geti farið í loftið á réttum tíma. Flest erum við með handfarangur og þegar við komum honum fyrir, þurfum við að muna að öll röðin á eftir okkur bíður ef við teppum ganginn á meðan. Þess vegna þurfum við að ganga hratt og örugglega til verks og jafnvel fara inn í sætaröðina á meðan, svo að aðrir geti gengið innar í vélina, að minnsta kosti ef við erum svolítið lipur í líkamanum. Þetta á ekki síst við þegar gengið er út í vélina í misjöfnum veðrum.
1. Munum að handfarangurshólfin eru líka fyrir hina
Það er til dæmis ekki til þæginda að setja töskuna sína í miðja hilluna og yfirhöfnina við hliðina, því að þá þurfa þeir sem á eftir koma að byrja á að endurraða. Betra er að setja töskuna öðru hvoru megin til hliðar og yfirhöfnina ofan á hana.
2 Snúum okkur glaðlega að þeim sem situr fyrir aftan okkur og spyrjum hvort það sé í lagi að leggja sætisbakið aftur
Hann gæti verið sá læralengsti í vélinni, eða er að borða og fær allt í fangið ef við skellum sætisbakinu aftur hugsunarlaust.
3. Spörum klósettferðir meðan drykkir eða söluborð eru á ferðinni
Stundum er eins og sumum verði brátt í brók einmitt þegar flugfreyjur/þjónar byrja að bera fram, með tilheyrandi vafstri við að komast framhjá rúlluborðinu. Förum á klósettið rétt fyrir flugtak.
4. Ef við sitjum í gangsæti, gætum þess að pjönkur liggi ekki út á gangveginn
Við viljum ekki fella flugfreyjur eða farþega. Gætum þess líka að fóturinn sem vísar frá líkamanum þegar við krossleggjum fætur vísi ekki út á gangveginn.
5. Leyfum þeim sem situr í miðjusætinu að eiga stólarmana
Við getum hallað okkur til hliðar í glugga- og gangsæti, en ekki sá sem situr í miðjunni. Einu sinni fékk ég miðjusæti, en hjón höfðu valið sér glugga- og gangsæti og töluðu saman mestalla leiðina. Athyglisvert samtal, en mér fannst ég vera staddur í sjónvarpsherbergi þeirra hjóna.
Margt fleira er hægt að hafa í huga til að auðvelda ferðina. Við getum til dæmis pantað alla þá drykki sem við þurfum á leiðinni í einu, svo að bjöllur fari ekki að loga þegar vélin er að fara að lenda. Það eru líka barir í Portúgal ...
Þetta er ef til vill sparðatíningur, en eins og í öllum samskiptum, er hann óþarfur ef við munum eftir töfraorðunum; virðingu, tillitssemi og glaðlegu andrúmslofti. Þannig verður lífið skemmtilegra og léttara!
Athugasemdir