Það er ómetanlegt að láta leiða sig inn í heim sem oft er meira spennandi en hversdagslífið, hvort sem er í leikhúsi eða á tónleikum. Ef vel tekst til, kannar maður víðlendur tilfinninganna, þekkir sig í hinum og þessum aðstæðum og fræðist um sálarlíf mannskepnunnar, sitt eigið og annarra. Um samskipti.
Getum við áhorfendur átt enn betri samskipti þegar við förum í leikhús eða önnur samkomuhús? Yfirleitt erum við reyndar ofurkurteis. Svo kurteis að við viljum láta náungann vera í friði og komum því stundum fram við aðra eins og þeir séu framliðnir. Kannski gætum við litið meira í kringum okkur, brosað, jafnvel kinkað vingjarnlega kolli áður en við göngum í salinn, enda erum við öll eftirvæntingafull og komin til að njóta viðburðarins!
Flott framkoma er alltaf álitamál og ekkert við því að segja þótt fólk hafi mismunandi smekk. Neðangrein atriði eru engin lög, en til umhugsunar:
1. Göngum inn í sætaröð með bros á vör, snúum að þeim sem standa upp fyrir okkur. Þannig gefst okkur færi á að biðjast afsökunar, eða þakka fyrir eða bjóða að minnsta kosti gott kvöld. Um daginn sat ég úti á enda í sætaröð þegar maður nokkur stóð allt í einu við hliðina á mér og horfði á sætið sem hann ætlaði að setjast í. Vissulega skildi ég að hann ætlaðist til að ég stæði upp og það var auðvitað alveg sjálfsagt. Á hinn bóginn hefði verið viðkunnanlegra ef hann hefði gert mér viðvart, jafnvel þakkað fyrir sig og ekki otað að mér óæðri endanum þegar hann gekk inn í sætaröðina.
2. Forðumst að fara með hósta í leikhús eða á tónleika sem krefjast náinnar hlustunar. Oftast ræðst „fjöðrin“ til atlögu í hálsinum einmitt þegar við megum ekki hósta. Ef við teljum okkur geta haldið þetta út, en erum ekki alveg viss, reynum þá að panta okkur sæti úti á enda til þess að geta læðst fram, ef hóstinn gerir vart við sig. Einnig er gott að hafa með sér hálstöflur, það róar oft hálsinn að vita af þeim.
3. Setjum rusl í ruslafötur. Þetta á fyrst og fremst við í bíóhúsum, en þau eru líka leikhús, að minnsta kosti kallar enskurinn þau stundum „movie theatres“. Afgangs popp og gosdrykkir eru ekki beinlínis það notalegasta að hafa neðan á skónum, þegar maður ætlar að njóta þess að horfa á góða kvikmynd. Ef til vill þurfa bíóhús að hafa fleiri ruslatunnur, svo að þetta verði þægilegra.
4. Hlæjum dátt eða grátum eftir atvikum, en munum samt að það eru fleiri í salnum en við sjálf. Allajafna er hláturmilt fólk dásamlegir áhorfendur og getur jafnvel breytt meðalsýningu í afbragðsskemmtun með sínum smitandi hlátri. Aftur á móti höfum við misjafnan húmor og hláturdúkkur, sem geta ekki hamið sig á sorglegustu stöðum, geta spillt áhrifunum fyrir öðrum.
5. Klöppum þegar okkur finnst eitthvað vel gert, en þægilegt er að þekkja klappvenjur á klassískum tónleikum og í óperum.
Venja er að klappa ekki á milli kafla í heilstæðu verki, t.d. í þriggja kafla sinfóníu eða sónötu. Á söngtónleikum er heldur ekki klappað á milli laga í röð eftir sama höfund eða á milli laga í lagaflokki. Þetta mætti gjarnan taka fram fyrir óvana tónleikagesti, svo að þeir verði ekki vandræðalegir. Í óperum er gömul venja að klappa eftir einstakar aríur eða önnur söngatriði. Ég verð að játa að stundum finnst mér það trufla framvindu leiksins og tónlistarinnar, ef ekki er sérstök ástæða til; við slítum til dæmis ekki talað leikrit í sundur með því að klappa eftir eintöl. En svona er venjan og maður spilar með!
Í síðasta pistli talaði ég um hvað það er mikill léttir að ergja sig ekki á náunganum. Ekkert af ofangreindu gefur tilefni til að fara í fýlu, eða hneykslast eins og snobbhænsn. Kannski hefur fólk aldrei pælt í hinum og þessum siðvenjum eða dregur dám af því sem flestir gera. Enginn sér heldur í annars rann, eins og amma mín sagði gjarnan. Þess vegna getur fólk haft sínar ástæður fyrir því að vera afskiptalaust eða sinnulaust um náungann. Við höldum bara okkar striki og reynum eftir föngum að sýna gott fordæmi! En þó að við reynum að rækta með okkur þörf til að gera lífið þægilegra fyrir okkur sjálf og aðra, þýðir það ekki að við höfum alltaf rétt fyrir okkur. Eða eins og Paulo Coelho sagði: „Eitt er að finnast maður vera á réttri leið, annað er að halda að sú leið sem maður velur sé sú eina rétta“.
Athugasemdir