Einu sinni gerði ég samskiptatilraun að gamni mínu; fór í bankann og bauð gjaldkeranum góðan dag á fýlulegan hátt. Daginn eftir fór ég aftur, en bauð góðan dag á glaðlegan hátt. Viðbrögðin létu ekki á sér standa, ég fékk allt aðra og betri þjónustu. Stundum gleymi ég mér, en það er eins og við manninn mælt; þjónustan er í beinu samhengi við viðhorf mitt og viðmót.
Hér á eftir ætla ég að ræða af handahófi nokkur atriði til þess að gera lífið einfaldara og þægilegra. Að mínu mati. Ef til vill er einhver ósammála, en það er hvimleitt að vera sífellt að dæma eða skammast út í náungann: „Af hverju þurfa Íslendingar alltaf að standa báðum megin í rúllustiganum?“ Þá dimmir í sálinni og róðurinn þyngist í dagsins önn. Ef við temjum okkur umburðarlyndi og lipurð kemur það ekki síst okkur sjálfum til góða. Við eigum alltaf ráð sem léttir bæði okkar eigin lund og annarra: Að brosa.
„Þjónustan er í beinu samhengi við viðhorf mitt og viðmót.“
1 Stöndum hægra megin í rúllustigum.
Við þurfum ekki að fara lengra en til London til að sjá, að þeir sem standa kyrrir í rúllustiga halda sig hægra megin, en þeir sem eru á hraðferð fara fram úr vinstra megin, hvort sem er í verslunum, lestarstöðvum eða rennigólfum á flugvöllum. Þetta mættum við gjarnan taka upp, öllum til þæginda, þó að rúllustigar séu tæpast orðin þau ferlíki hérlendis að það komi mikið að sök þó að við teppum þá.
2 Leyfum fólki að ganga út úr lyftu, áður en við göngum inn í hana.
Þegar ég kom í fyrsta skipti til Bandaríkjanna, lærði ég strax að bíða rólegur þar til allir hafa komist út sem þess þurfa, áður en gengið er um borð. Annar siður þarlendra er að þegar lyfta opnast segir sá sem kemur út úr lyftunni um leið: „Afsakið“. Meiningin er að honum þyki leitt að maður skuli hafa þurft að bíða eftir lyftunni. Þetta mættum við gera að reglu.
3 Leyfum þeim sem eru á undan okkur í biðröð að vera á undan.
Þegar löng biðröð myndast við afgreiðslukassa, kemur afgreiðslufólkið oftast auga á það og opnar annan kassa. Ef við erum aftast í röðinni, leyfum þá þeim sem voru á undan í „gömlu“ röðinni að ganga fyrstir að kassanum sem var verið að opna, í stað þess að ryðjast fram fyrir þá.
Snertum ekki næsta mann á undan eða stuggum við honum, við flýtum ekki fyrir með því.
4 Höldum dyrum opnum fyrir alla, konur sem karla.
Augljóslega geta ekki báðir aðilar, sem mætast í dyrum, haldið þeim opnum fyrir hinn - þá kæmist enginn leiðar sinnar! Ágætt er að hafa fyrir reglu, að ef dyrnar opnast í áttina að manni, hleypir maður þeim sem kemur á móti í gegn, á undan sér en semur sig þó að aðstæðum hverju sinni.
Sumar hurðir skellast með miklum hávaða. Til þess að forðast það er auðvelt að temja sér að taka alltaf í húninn eða snerilinn og láta hurðina falla að stöfum með því að ýta á hana. Ef hurð skellist óvart á eftir okkur á leiðinni út, opnum við dyrnar aftur og biðjumst afsökunar, en látum ekki eins og við höfum ekki heyrt í okkur gauraganginn.
Þegar gengið er inn í herbergi, er stíll yfir því að snúa inn í herbergið meðan hurðin er látin aftur, í stað þess að reka afturendann að þeim sem fyrir innan eru. Lítum yfir herbergið um leið og við brosum til fólks í augsýn.
5 Hættum að henda tyggjói eða öðru rusli á almannafæri, öðrum til ama.
Fyrir stuttu gengu þrír piltar framhjá húsinu mínu seint að kvöldi og grýttu bjórflöskunum sínum í götuna. Við þurfum greinilega að byrja á byrjuninni og sýna börnunum okkar gott fordæmi. Það læra börnin sem fyrir þeim er haft.
Gerum þetta sjálf! Fordæmi er allt sem þarf. Skiptum okkur ekki af því hvernig aðrir hafa hlutina. Má ég heyra Yessss?
Athugasemdir