Fyrir nokkrum vikum skruppum við Albert til Parísar. Fyrsta daginn þóttist ég ætla að vera símalaus, en var varla kominn út á næsta götuhorn frá hótelinu þegar ég uppgötvaði að þá gæti ég ekki hringt í hann ef ég týndi honum í þvögunni. Síminn er orðinn að framlengingu á höndum okkar og trúlega er best að sætta sig við það, annars fer alltof mikil orka í að ergja sig á því. Maður er jafnvel farinn að leiða það hjá sér þegar einhver svarar í síma við jarðarför.
Almennt er þó skemmtilegra að vera ekki alltaf eins og álfur út úr hól í samskiptum „augliti til auglitis“, við getum stillt titrarann á og hringt til baka í þá sem hafa hringt á meðan, svarað bréfum og skilaboðum, í næði.
Vinkona mín var orðin þreytt á því að kærastinn hennar tók alltaf upp símann þegar þau fóru á kaffihús, „aðeins að kíkja hvort það sé eitthvað nýtt, skilaboð og svona“. Eitt skiptið ákvað hún því að senda kærastanum skilaboð rétt áður en þau gengu inn: Gætum við talað saman á kaffihúsinu?
„Síminn er orðinn að framlengingu á höndum okkar og trúlega er best að sætta sig við það, annars fer alltof mikil orka í að ergja sig á því.“
Þegar hann tók upp símann, fór hann að hlæja: „Já, auðvitað, við erum komin til að vera saman.“ Fyrst varð hann samt að taka selfí af þeim til að setja á tístið: „Við Vigga að tala saman á Pallett.“
Fyrir utan öll þau undur sem hægt er að framkvæma með símum og eru á næsta leiti í tækniheiminum, er gamla góða símtalið í gemsanum enn í fullu gildi og verður sjálfsagt áfram; fæstir vilja vera nývaknaðir í mynd.
1. Kynnum okkur
Það er ekki víst að allir séu með öll númer skráð í símanum hjá sér. Þetta er líka enginn vandi: Sæl, þetta er Sigþór. Einfaldara getur það ekki orðið. Ef sá sem hringir kynnir sig ekki, er best að biðja strax um nafn.
Sumir halda að það sé skemmtilegur samkvæmisleikur að láta fólk geta upp á því hverjir þeir séu: „Hvað, þekkirðu mig ekki?“ Öllum gremst svona spurningaleikur. Ef viðmælandinn er karlmaður get ég stundum ekki stillt mig um að spyrja hvort þetta sé Guðlaug frænka. Konur spyr ég hvort þetta sé Simmi litli (hann er 5 ára), en auðvitað þarf svona grín að vera í léttum tón.
2. Tökum því vingjarnlega þótt hringt sé í skakkt númer
Sá sem hringir í skakkt númer ætti að vera settur í tukthúsið ef hann spyr: „Hver er þetta?“ eða: „Hvar er þetta?“ án þess að kynna sig. Í slíku tilfelli er best að svara spurningunni ekki, heldur spyrja strax glaðlega: „Hvert ætlaðirðu að hringja?“
Hann verður auðvitað að biðjast afsökunar: „Fyrirgefðu ónæðið, þetta er víst skakkt númer.“ Við svörum þá með bros á vör: „Alveg sjálfsagt.“ Og ekki hugsa: Fíflið þitt-, jafnvel þótt við höfum rokið úr sturtu til þess að ná símtalinu og gólfið allt blautt. Að hringja í skakkt númer getur komið fyrir alla.
3. Brosum í símann
Með raddblænum einum saman má gefa til kynna glaðlyndi eða fúllyndi eftir atvikum. Tölvubroskallar geta sagt heilmikla sögu, en þá höfum við ekki í síma. Munnvikin upp!
4. Drögum símtal ekki á langinn
Sá sem hringir greiðir fyrir símtalið. Svörum þess vegna alltaf sjálf, en tefjum ekki símtalið með því að láta einhvern annan svara. Einnig er eðlilegt að sá sem hringir slíti símtalinu. Drögum símtöl ekki á langinn þegar auðfundið er að sá sem hringdi vill ljúka því. Hvort sem við hringjum eða svörum, mölum þá ekki út í eitt, en látum þögnina samt heldur ekki leggjast yfir eins og dauða krumlu. Það sést ekki ef við blikkum auga í þögn, við höfum ekkert nema röddina til að tjá okkur í síma, nema um myndsíma sé að ræða.
5. Einbeitum okkur
Tölum skýrt. Pössum okkur á að geispa ekki, borða, stjórna heimilinu, tala við annað fólk á meðan eða það sem verst er; að skola niður úr klósetti.
Spyrjum líka hvernig stendur á, svo að einbeitingin verði góð. Ef svarið er til dæmis: „Ég er reyndar að klippa toppinn á henni dóttur minni“, bjóðumst þá til að hringja þegar hentar.
Eins og ég hef áður haft orð á í þessum pistlum, eru reglur óþarfar, ef … Já, ef maður er meðvitaður um að það sem maður gerir eða segir sé byggt á virðingu, tillitssemi og hreinu andrúmslofti. Það á líka við hér. Enn einu sinni segi ég líka við sjálfan mig: Það læra börnin sem fyrir þeim er haft. Gangi okkur vel!
Athugasemdir